spot_img

Góð uppskera hjá útskrifuðum nemendum Kvikmyndaskólans á Eddunni

Útskrifaðir nemendur Kvikmyndaskóla Íslands nutu mikillar velgengni á nýafstöðnum Edduverðlaunum.

Segir í tilkynningu frá skólanum:

Nemendur sem eru útskrifaðir úr Kvikmyndaskóla Íslands eru risastór hluti íslensks kvikmyndaiðnaðar. Á venjulegu ári fylla útskrifaðir nemendur úr KVÍ allt að 30% starfsheita í kreditlistum íslenskra bíómynda. Niðurstöður kannana hafa sýnt að 96% nemenda spreyta sig í faginu að námi loknu og um 40% þeirra sem útskrifast fá strax störf og vinna allan tímann við kvikmyndagerð að námi loknu.

Nokkur fjöldi útskrifaðra nema skólans ýmist vann Eddu eða kom að verkum sem hlutu verðlaun. Hæst ber Valdimar Jóhannsson, handritshöfund og leikstjóra bíómyndarinnar Dýrið, en mynd hans hlaut tólf Edduverðlaun, þar á meðal fyrir leikstjórn, handrit (ásamt Sjón) og kvikmynd ársins. Þá hlaut mynd Jonna Ragnarssonar, Hækkum rána, Edduna fyrir heimildamynd ársins. Jonni hóf vinnu við verkið meðan hann var enn nemandi skólans. Garðar Örn Garðarsson og Sigurður Már Davíðsson komu að Víkingar: Fullkominn endir sem valið var íþróttaefni ársins og Valdimar Kúld var meðal aðstandenda kvikmyndarinnar Birtu sem valin var barna- og unglingaefni ársins.

Aðrir sem að komu að tilnefndum verkum eru Garðar Örn Arnarson og Arnar Már Jónmundsson fyrir EM í dag í flokki íþróttaefnis ársins, Erla Hrund Halldórsdóttir fyrir Stundina okkar og Hekla Egilsdóttir fyrir Krakkafréttir í flokki barna- og unglingaefnis ársins og Fannar Sveinsson fyrir Hraðfréttajól í flokki skemmtiefnis ársins.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR