spot_img

Ása Helga um tilfinningaferðalagið í SVAR VIÐ BRÉFI HELGU

Ása Helga Hjörleifsdóttir ræddi við Kastljósið á RÚV um mynd sína Svar við bréfi Helgu sem frumsýnd verður á morgun föstudag.

Á vef RÚV segir:

Skáldsagan Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson er epísk ástarsaga sem hefur hrifið margan lesandann. Nú er bókin orðin að samnefndri kvikmynd eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur. Kastljós hitti Ásu og tvo aðalleikara myndarinnar á sólríkum, vindasömum íslenskum sumardegi.

Þegar bókin kom út var Ása stödd í New York að læra kvikmyndagerð. Hún minnist þess að sagan hafi verið á milli tannanna á fólki heima eftir útgáfu og greinilega mikill spenningur í kringum hana.

Þrátt fyrir annríkið og fjarlægðina fann Ása vel fyrir því yfir hafið að þarna væri á ferðinni bók sem hún þyrfti að kynna sér. „Ég skynjaði að það væri eitthvað rosalega mikið að gerast heima,“ rifjar hún upp.

Bókinni lýsir hún sem fagurfræðilega fullkomnu verki og Ásu fannst alls ekki strax augljóst að hún ætti erindi á hvíta tjaldið. „En svo fór ég að sjá fyrir mér myndrænu víddina í sögunni og líka svolítið samtalið á milli Bjarna, Helgu og Unnar. Þá fór þetta að taka á sig aðeins annað form sem var þessi þríhyrningur á milli þeirra.“

Leikstjórinn segir að lokum að allir ættu að geta tengt við söguna. „Þetta eru svo kunnuglegar tilfinningar sem ég held að svo margir geti tengt við og það er ástæðan fyrir því að margir fleiri en ég fóru í rosalegt tilfinningalegt ferðalag þegar bókin kom út,“ segir Ása.

En þó verkið sé dramatískt sé húmorinn einnig til staðar. „Maður finnur sannarlega fyrir því í bókinni og ég held að húmor sé lífsnauðsynlegur líka í svona epískum ástarsögum.“

Hera Hilmarsdóttir fer með titillhlutverk myndarinnar og leikur Helgu, sveitakonu á Ströndum sem dreymir um eitthvað stærra. „Hún verður ástfangin af honum Bjarna á næsta bæ og það svolítið breytir lífi hennar,“ segir Hera um söguþráðinn.

Sjálf upplifði hún mikinn tilfinningarússíbana þegar hún las skáldsöguna fyrst og var hún djúpt snortin. „Ég meina er hægt að lesa þessa bók án þess að hjartað í manni brotni og maður gráti hér og þar? Hún er svo rosalega falleg,“ segir hún. „Textinn er svo fallegur og bara persónurnar og þessi upplifun hvað lífið getur verið flókið og ástin sársaukafull stundum eins yndisleg og hún er líka.“

Hera hrósar leikstjóranum Ásu fyrir gott samstarf. „Að vinna með Ásu er yndislegt, hún er svo rosalega frábær leikaraleikstjóri.“

Þorvaldur Davíð leikur Bjarna, bónda og sögumann sögunnar. Samstarfið gekk vel enda þekktust aðalleikararnir og höfðu unnið saman áður, meðal annars í kvikmyndinni Vonarstræti og leikritinu Andaðu.

Þorvaldur segir að sagan krefjist þess enda að tengingin sé sterk á milli þeirra sem segi hana. „Hún þarf að vera sönn, full af lífi og skilningi.“

Þorvaldur segir að sagan af Helgu og Bjarna sé tímalaus enda spyrji hún spurninga sem allir geti tengt við. Karakter sínum lýsir hann sem svo: „Hans forfeður hafa búið þarna kynslóð eftir kynslóð svo honum þykir afskaplega vænt um bæinn sinn. Hann er mjög tengdur þessu svæði og hans sjálfsmynd. Á næsta bæ eru önnur hjón og þar er kona sem hann verður ástfanginn af.“

Með önnur hlutverk fara Anita Briem, Björn Thors, Arnmundur Ernst og Hjörtur Jóhann Jónsson. Tónlist myndarinnar semur Kristín Anna Valtýsdóttir.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR