spot_img

Endurgreiðslan í 35% með skilyrðum, kynnt í samráðsgátt

Fyrirhugaðar lagabreytingar um hækkun endurgreiðslunnar hafa verið kynntar í samráðsgátt stjórnvalda.

Þar segir:

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar koma fram eftirfarandi áherslur varðandi breytingar á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi:

„Kvikmyndagerð hefur orðið sífellt mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi síðustu ár. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Við ætlum að styðja enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.“

Frumvarpið útfærir þessar áherslur með því að leggja til að verkefni sem uppfylla ákveðin skilyrði og teljast stærri verkefni og til lengri tíma njóti 35% hlutfalls endurgreiðslu af framleiðslukostnaði. Önnur verkefni njóta áfram 25% endurgreiðsluhlutfalls eins og verið hefur.

Til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu þurfa öll þrjú skilyrðin að vera uppfyllt.

1.Lágmarks framleiðslukostnaður.

Með frumvarpinu er lagt til að fyrsta viðmiðið verði tengt við skilgreindan framleiðslukostnað sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Með því er skilið á milli „stærri“ og „smærri“ verkefna, samanber áherslur úr stjórnarsáttmála. Lagt er til að viðmiðið sé að framleiðslukostnaður sem fellur til við framleiðslu viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi sé að lágmarki 200 m.kr.

2. Verkefni til lengri tíma á Íslandi.

Með frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu sé gerð krafa um að framleiðsluverkefni sé til lengri tíma hér á landi þar sem tökudagar á Íslandi eru að lágmarki 30. Heimilt er að telja eftirvinnslu verkefnis á Íslandi í þeirri tölu.

3. Fjöldi starfsmanna sem vinna að verkefni.

Með frumvarpinu er lagt til það þriðja viðmið, til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu, að fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu séu að lágmarki 50. Nær það jafnt til innlendra sem erlendra starfsmanna. Er með því greint á milli „stærri“ og „smærri“ verkefna með hliðsjón af almennum efnahagslegum áhrifa verkefna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR