spot_img

Lestin um ALLRA SÍÐUSTU VEIÐIFERÐINA: Slompaðir tittlingar teygðir í allar áttir

Gunnar Ragnarsson gagnrýnandi Lestarinnar segir Allra síðustu veiðiferðina eftir Þorkel Harðarson og Örn Marinó Arnarson höggva í sama knérunn og fyrirrennarinn.

Gunnar skrifar:

Síðasta veiðiferðin minnti á kvikmyndavor níunda áratugarins þegar íslenskar kvikmyndir voru gerðar fyrir heimamarkað og fjárhagslegar horfur aðstandenda ultu á því á hvort landinn skilaði sér í bíó eða ekki. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan í íslenskri kvikmyndagerð, sem hefur aldrei staðið jafn sterk á velli og nú, ekki síst vegna margbreytilegra tengsla við umheiminn.

Grín á heimamarkaði
Sigurganga Síðustu veiðiferðarinnar ruddi einnig veginn fyrir systurmyndina Saumaklúbbinn (2021, Gagga Jónsdóttir) sem fylgdi forskriftinni af tryggð en leikstjórar Veiðiferðanna, Markell-bræðurnir Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson, framleiddu. Augljóslega er rými fyrir íslenskar kvikmyndir sem einblína á innlendan markað og ber það vitni um fjölbreytta kvikmyndamenningu. Þessar gamanmyndir uppfylla sömu þörf og innfluttir neðanbeltisfarsar sem eru reglulega settir á svið í leikhúsunum. Stella í orlofi (1986, Þórhildur Þorleifsdóttir), Hangover-myndirnar og Klovn-bræðurnir dönsku koma einnig upp í hugann.

Innáskiptingar og leikmannakaup
Allra síðasta veiðiferðin heggur í sama knérunn og fyrirrennarinn. Aftur er sagt frá sundurleitum „karlahópi sem fer í fjögurra daga veiðiferð með tilheyrandi drykkju, rifrildum, metingi, gleði og vináttuhótum“. Með nokkrum innáskiptingum og viðbótum þó. Hjálmar Hjálmarsson hverfur á braut og inn á í hans stað kemur Sigurður Þór Óskarsson og lækkar meðalaldurinn umtalsvert. Einnig er Gunnar Helgason kominn á kreik sem spússi Óla, sem Jóhann Sigurðarsson túlkar, en parið sér um rekstur veiðihúss þar sem hópurinn dvelur. Aðalviðbótin er leikarinn ástsæli Sigurður Sigurjónsson, sem leikur Ingvar Þórðarson, forsætisráðherra Íslands er slæst með í veiðina af því hann langar að veiða (drekka) með „venjulegu fólki“. Valur (Þorsteinn Bachmann), fulltrúi auðstéttarinnar í hópnum, er tengdasonur forsætisráðherrans og starfandi innanríkisráðherra, en stórkallarnir borga brúsann. Vali er mikið í mun að koma sér í mjúkinn hjá tengdapabba. Hann hefur lofað konunni sinni að vera edrú en það dugar skammt. Að lokum hefur rulla Halldóru Geirharðsdóttur sem lögreglukonu verið stækkuð umtalsvert og er hún mótherji Vals í frásögninni, sem mætti segja að sé aðalpersónan ef einhver er. Þá eru óupptaldir Þröstur Leó Gunnarsson, Hilmir Snær Guðnason og Halldór Gylfason úr veiðihópnum.

Glaðir spilarar í föstum leikatriðum
Helsta aðdráttarafl myndanna er leikhópurinn en það sést langa leið að leikaranir skemmta sér vel við fíflalætin. Persónurnar eru gróft rissaðar erkitýpur sem þeir glæða lífi og fylla upp í með nærveru sinni og nýtur myndin góðs af sambandi áhorfenda við persónu/r leikaranna úr fyrri verkum. Undirstaðan liggur í því að áhorfendur þekki „kalla eins og þessa“ af eigin raun og uppskrift glettninnar í að hlæja að hömlulausri nekt, ofsadrykkju, samförum og almennu siðleysi persónanna. Lagt er upp með sundurlausan söguþráð – en frásögnin hverfist heldur um nokkur föst leikatriði og atvik. Almennt höfðaði mest til mín snælduvitlaus forsætisráðherra Sigga Sigurjóns, og hrokafull framkoma hans við tengasoninn, sem og besta fasta leikatriðið þegar hann sótölvaður truflar silkimjúka kántríhljóma Jökuls í Kaleo á kvöldvöku og í framhaldinu „chess-boxar“ ber að ofan við Jóa „stóra“ Sig. Bátsævintýri þeirra Þrastar Leó og Sigurðar var einnig skemmtilegt en leið fyrir óþarfa og takmarkaðar tæknibrellur. Hjákátleg kynlífsatriði og mjög langt nektargrínatriði ber þess merki að ætlunin sé að toppa frumgerðina en fór fyrir ofan garð og neðan hjá rýni.

Hefndarfantasía í hedonískum heimi
Líkt og með fyrri myndina verður sprellið meira absúrd þegar á líður. Einvígi lögreglu Halldóru Geirharðsdóttir og ríkisbubba Þorsteins Bachmann tekur yfir. Það er líkt og höfundar sendi persónu Halldóru til að refsa kapítalistasvíninu fyrir syndir sínar – eins konar stéttarhefndarfantasía. Þegar er nær er litið eru kvenpersónurnar þó lítt skárri en karlarnir í þessum hedoníska og siðspillta söguheimi.

Ónæmt fyrir gagnrýni?
Algengt er að kvikmyndir, einkum ofurhetjumyndir eða aðrar risaræmur, séu taldar ónæmar fyrir gagnrýni (e. Critic-proof), þar sem söguheimurinn á sér tryggan aðdáendahóp og háðsglósur gagnrýnenda hafa þar með lítil áhrif á aðsókn. Líklega á þetta líka við um Allra síðustu veiðiferðina – ef þú fílaðir þá fyrri muntu líka fíla þessa, sama hvað öðrum kunni að finnast.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR