spot_img

Milljarða velta í kvikmyndagerð og horfur góðar

Fréttastofa RÚV tekur púlsinn á íslenskri kvikmyndagerð þessa dagana og ræðir við Laufeyju Guðjónsdóttur, forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Á vef RÚV segir:

Talið er að um níu milljarðar króna hafi komið inn í íslenskt samfélag í tengslum við innlenda og erlenda kvikmyndagerð hér á landi í fyrra. Fjöldi íslenskra kvikmynda er í framleiðslu og einnig stór erlend verkefni. Horfur eru á blómlegu kvikmyndaári 2022.
Tökum lauk á þremur íslenskum kvikmyndum í vikunni. Endurgreiðslur á fjórðungi kostnaðar við kvikmyndagerð sem fellur til hér á landi námu rúmum tveimur komma tveimur milljörðum á síðasta ári.

Laufey Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Kvikmyndamiðstöðvar Íslands segir árið hafa hafist með hvelli.

„Það voru fjórar myndir kenndar vð Ísland á alþjóðlegu hátíðinni í Berlín sem að var núna í febrúar. Það er mjög óvenjulegt Síðan eru nokkrar myndir núna í farvatninu. Faraldurinn hefur auðvitað truflað sýningar nokkurra mynda eða frestað þeim. Til dæmis Skjálfta sem verður sýnd núna í lok mars. Það er frumraun Tinnu Hrafnsdóttur sem leikstjóra. Síðan kemur Berdreymi eftir Guðmund Arnar og núna er Allra síðasta veiðiferðin komin í bíó við góðar undirtektir.“

Svar við Bréfi Helgu er í farvatninu og kvikmyndin Abbabbabb í leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur. Villibráð og Sumarljós og svo kemur nóttin eru einnig í framleiðslu. Og er þá ekki allt upp talið. Fjöldi heilmildarmynda, og stuttmynda auk leikins sjónvarpsefnis er einnig í framleiðslu.

Framlög til kvikmyndagerðar hafa verið aukin og einna mest til leikins sjónvarpsefnis, að sögn Laufeyjar Guðjónsdóttur. Mjög jákvætt sé að með nýrri kvikmyndastefnu hafi sterkari stoðum verið rennt undir greinina. Ný verkefni feli einnig í sér umhverfisvænni kvikmyndagerð og sjónvarpsvinnslu.

„Og við erum að reyna að innleiða einhverja staðla um það sem að verða þá á sömu nótum og í Evrópu eða alþjóðlega í rauninni.“

Íslenskt sögusvið kemur einnig æ meira inn í erlendar kvikmyndir sem teknar eru að hluta til eða öllu leyti hér á landi.

„The Northman sem er mynd sem að verður væntanlega sýnd í apríl. Það er mynd sem að á að gerast að miklu leyti á Íslandi Skrifuð af Sjón ásamt leikstjóranum Roberts Eggers og með stórstjörnum eins og Nicole Kidman og Alexander Skarsgaard í aðalhlutverkum og fleiri stórum nöfnum. Þetta hefur svo mikið að segja í þessari keðjuverkun sem þetta er allt saman.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR