Þórir Snær Sigurjónsson kaupir Scanbox

Þórir Snær Sigurjónsson og samstarfsaðilar hafa fest kaup á Scanbox, einu helsta dreifingarfyrirtæki Norðurlanda, en Þórir hefur rekið fyrirtækið undanfarin ár. Scanbox hefur komið að fjármögnun og dreifingu margra íslenskra kvikmynda á undanförnum árum.

Seljandinn er faðir Þóris, Sigurjón Sighvatsson, sem hefur átt fyrirtækið í um 15 ár. Meðeigendur Þóris eru framkvæmdastjórinn Kim William Beich, auglýsingaleikstjórinn Torben Thorup Jorgensen og framleiðandinn Chris Briggs.

Ásamt því að dreifa alþjóðlegum og heimasmíðuðum myndum á Norðurlöndum verður stefnan tekin á aukna framleiðslu á sviði kvikmynda og sjónvarpsefnis. Fyrsta verk af slíku tagi er norsk útgáfa af ítölsku myndinni Perfect Strangers (Perfetti sconosciuti, 2016) sem frumsýnd verður 25. febrúar.

Íslensk útgáfa er í framleiðslu og stendur til að frumsýna í haust undir heitinu Villibráð. Elsa María Jakobsdóttir leikstýrir eftir handriti sínu og Tyrfings Tyrfingssonar. Zik Zak framleiðir. Sænsk, dönsk og finnsk útgáfa er einnig í farvatninu.

Nýlega festi Scanbox kaup á hlut í íslenska framleiðslufyrirtækinu Zik Zak, sem meðal annars er í eigu Þóris.

“Við sjáum verulega vaxtarmöguleika í framleiðsluhlið bransans,” segir Þórir í samtali við Variety. “Með þessum kaupum höfum við tekið fyrstu skrefin í átt að því markmiði.”

Variety hefur eftir Sigurjóni Sighvatssyni, fráfarandi eiganda Scanbox að reksturinn hafi verið áskorun, en um leið ánægjulegt að hafa fengið að stýra félaginu í um fimmtán ár gegnum mikið umbreytingaskeið í iðnaðinum. “Þetta hefði ekki verið mögulegt nema með því frábæra teymi sem nú tekur við stjórntaumunum.”

HEIMILDVariety
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR