Þórir Snær Sigurjónsson og samstarfsaðilar hafa fest kaup á Scanbox, einu helsta dreifingarfyrirtæki Norðurlanda, en Þórir hefur rekið fyrirtækið undanfarin ár. Scanbox hefur komið að fjármögnun og dreifingu margra íslenskra kvikmynda á undanförnum árum.
Seljandinn er faðir Þóris, Sigurjón Sighvatsson, sem hefur átt fyrirtækið í um 15 ár. Meðeigendur Þóris eru framkvæmdastjórinn Kim William Beich, auglýsingaleikstjórinn Torben Thorup Jorgensen og framleiðandinn Chris Briggs.
Ásamt því að dreifa alþjóðlegum og heimasmíðuðum myndum á Norðurlöndum verður stefnan tekin á aukna framleiðslu á sviði kvikmynda og sjónvarpsefnis. Fyrsta verk af slíku tagi er norsk útgáfa af ítölsku myndinni Perfect Strangers (Perfetti sconosciuti, 2016) sem frumsýnd verður 25. febrúar.
Íslensk útgáfa er í framleiðslu og stendur til að frumsýna í haust undir heitinu Villibráð. Elsa María Jakobsdóttir leikstýrir eftir handriti sínu og Tyrfings Tyrfingssonar. Zik Zak framleiðir. Sænsk, dönsk og finnsk útgáfa er einnig í farvatninu.
Nýlega festi Scanbox kaup á hlut í íslenska framleiðslufyrirtækinu Zik Zak, sem meðal annars er í eigu Þóris.
“Við sjáum verulega vaxtarmöguleika í framleiðsluhlið bransans,” segir Þórir í samtali við Variety. “Með þessum kaupum höfum við tekið fyrstu skrefin í átt að því markmiði.”
Variety hefur eftir Sigurjóni Sighvatssyni, fráfarandi eiganda Scanbox að reksturinn hafi verið áskorun, en um leið ánægjulegt að hafa fengið að stýra félaginu í um fimmtán ár gegnum mikið umbreytingaskeið í iðnaðinum. “Þetta hefði ekki verið mögulegt nema með því frábæra teymi sem nú tekur við stjórntaumunum.”