spot_img

Gísli Örn leikstýrir þriðju seríu EXIT þáttanna

Gísli Örn Garðarsson mun leikstýra þriðju syrpu norsku þáttanna Exit, sem notið hafa gríðarlegra vinsælda víða. Gísli greindi frá þessu í viðtali í Bakaríinu á Bylgjunni í dag.

Á Vísi segir:

„Það er fullt framundan. Ég get nú kannski bara sagt frá því hérna að það stendur nú til að ég sé að fara að leikstýra norsku seríunni Exit, þáttaröð þrjú,“ sagði Gísli Örn.

Norsku þættirnir Exit, eða Útrás, segja frá fjórum vinum í fjármálalífinu í Noregi sem lifa hratt og siðblinda, ofbeldi, eiturlyf og gríðarlegt magn peninga kemur helst við sögu. Þættirnir hafa sem fyrr segir vakið mikla athygli.

„Ég þekki þá alla mjög vel sem búa það til. Alltaf verið með annan fótinn í Noregi að einhverju leyti,“ sagði Gísli Örn sem stigið hefur sín fyrstu skref sem leikstjóri í sjónvarpi með þáttunum Verbúðinni sem sýndir eru á Ríkissjónvarpinu, en þar leikstýrir hann ásamt Birni Hlyni Haraldssyni og Maríu Reyndal sex þáttum.

Þættirnir hafa fengið afskaplega góðar viðtökur. Í Bakaríinu var Gísli Örn meðal annars spurður að því hvort að önnur þáttaröð af Verbúðinni væri möguleg. Svarið var ekki afdráttarlaust.

„Við þurfum bara að sjá til. Ekki endilega. Þessi sería stendur sér en lífið á Íslandi hélt áfram og þessir eintaklingar sem við erum að leika héldu alveg áfram að vera til í íslensku samfélagi,“ sagði Gísli Örn.

 

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR