spot_img

Í ljósi umræðu um streymisveitu með íslensku myndefni

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðu í fjölmiðlum í dag um fyrirhugaða streymisveitu með íslensku efni.

Á vef Kvikmyndamiðstöðvar segir

Í ljósi umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um streymisveitu með íslensku myndefni gætir nokkurs misskilnings.

Komið hefur fram, m.a. í viðtali við forstjóra Sýnar í morgun að um sé að ræða 510 m.kr. fjárveitingu í streymisveitu. Það er ekki rétt. Í frumvarpi til fjárlaga 2022 er gert ráð fyrir heildarviðbótarframlagi til KMÍ vegna Kvikmyndastefnu til ársins 2030 og er það ekki sundurliðað frekar. En ljóst er að stór hluti þess fer til Kvikmyndasjóðs til framleiðslu á íslensku efni bæði fyrir kvikmyndahús og sjónvarp.

Strax á frumstigum við undirbúning veitunnar átti KMÍ samtöl við fulltrúa þeirra sem reka efnisveitur í dag, þeim skýrt frá þeim markmiðum stefnunnar sem lúta að aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi. Einnig var undirstrikað að ríkisstofnun ætlar ekki í samkeppni við einkaaðila sem sinna þessu verkefni vel.

Megin markmið streymisveitunnar er tvíþætt. Annarsvegar að veita almenningi á Íslandi aðgengi að eldra efni ,sem ekki er aðgengilegt á íslensku miðlunum nú þegar, og hins vegar að bjóða upp á aðgengi að íslenskum kvikmyndaverkum erlendis.

Innlenda veitan er aðeins hugsuð fyrir það efni sem er ekki aðgengilegt á veitum hérlendis, t.d. eldri myndir, heimildamyndir, stuttmyndir, en okkur reiknast til að nú séu um 70 kvikmyndaverk aðgengileg á íslenskum efnisveitum, sem er einungis brot af því sem framleitt hefur verið hér á landi.

Uppbyggingin verður þannig að á Kvikmyndavefnum https://www.kvikmyndavefurinn.is/ er hnappur „horfa“ sem vísar áhugasömum á þá veitu sem viðkomandi mynd er á (Síminn, Vodafone, RÚV – eða Nova). Ef myndin er ekki aðgengileg á neinum þessara, er áhorfanda beint á möguleika á streymi gegn gjaldi. Rétthafi fær greiðsluna fyrir utan beinan tækni- og greiðslumiðlunarkostnað við hverja leigu.

Sama á við erlenda hluta veitunnar, þannig getur áhugasamur t.d. í Þýskalandi slegið inn myndatitil á vef KMÍ, og ef hún hefur verið seld í dreifingu þar í landi, er beint á þarlenda rétthafa; ef ekki, þá á hina nýju veitu. Sjá sýnishorn, ath. framsetning enn í vinnslu: https://www.kvikmyndavefurinn.is/films/nr/1965

Kvikmyndamiðstöð fundaði með fulltrúum fyrirtækja á þessum markaði í vor og óskaði eftir samstarfi. Vegna þess að íslensku veiturnar og RÚV hafa ekki þróað tækni eða greiðslumódel sem gagnast erlendis frá var farin sú leið, eftir þó nokkra skoðun, að kaupa tilbúna lausn sem fjölmargar erlendar kvikmyndastofnanir nýta sér nú þegar. Með þeim samningi er innfalin tækniaðstoð þeirra sem leigja mynd; þannig að t.d. einhver í Argentínu sem leigir og lendir í vandræðum fær tækniaðstoð strax. Rammasamingur þessi er innan við 5 millj.kr. á ári og mun þegar fram í sækir einnig gagnast KMÍ í daglegu starfi við að miðla sýniseintökum gagnvart erlendum kvikmyndahátíðum og öðrum fagaðilum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR