Verður endurgreiðslan hækkuð?

Orðrómur er á kreiki um að hækkun á endurgreiðslum til kvikmyndagerðar verði meðal atriða í væntanlegum stjórnarsáttmála. Framsóknarflokkurinn hefur lýst þeim vilja sínum að þær verði hækkaðar í 35%, en þessar hugmyndir mæta einnig andstöðu innan stjórnarflokkana.

Í Innherja á Vísi í dag er fjallað um bréf frá einum forsvarsmanna HBO til Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Í bréfinu kemur fram að HBO og Warner Brothers myndu íhuga alvarlega að skjóta heilu verkefnin á Íslandi að því gefnu að endurgreiðsluhlutfallið myndi hækka í 35 prósent. Þá tekur hann fram að verkefnin yrðu lengri og stærri í sniðum og myndu skapa heilsársstörf í greininni hér á landi auk þess sem verðmæt þekking yrði eftir í landinu.

Segir á Vísi:

Í bréfi sem íslenskum stjórnvöldum barst í síðasta mánuði lýsir sjónvarpsstöðin og streymisveitan HBO yfir áhuga á því að taka upp heilu verkefnin á Íslandi. Til að svo verði, þarf hins vegar að verða af kosningaloforðum Framsóknarflokksins um að hækka hlutfall endurgreiðslu á sjónvarps- og kvikmyndaverkefni sem tekin eru á Íslandi. Framsóknarmenn ætla að halda málinu til streitu við gerð stjórnarsáttmála, en fjármálaráðherra hefur sagt hugmyndina óraunhæfa.

Undir bréfið, sem barst þann 15. október síðastliðinn, skrifar Jay Roewe sem er einn aðstoðarforstjóra HBO. HBO er svo í eigu Warner Bros. Discovery.

Sjálfstæðisflokknum hugnast hugmyndin illa
Bréfið er stílað á Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Framleiðendur kvikmynda- eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga nú þegar kost á endurgreiðslum á allt að 25 prósent af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Endurgreiðslurnar voru hækkaðar úr 20 prósent í 25 prósent í byrjun árs 2017. Framsóknarflokkurinn gerði það svo að stefnumáli í nýliðinni kosningabaráttu að auka endurgreiðsluhlutfallið hér á landi í 35 prósent.

Stjórnarflokkana greindi hins vegar á um þetta stefnumál í aðdraganda kosninga, en formaður Sjálfstæðisflokksins sagði aðspurður í Dagmálum Morgunblaðsins að hugmyndir Framsóknarmanna um endurgreiðslur úr ríkissjóði upp á tugmilljarða væru óraunhæfar.

Áhersla lögð á málið í stjórnarsáttmála
Að sögn Lilju, er mikil áhersla lögð á að þetta tiltekna atriði komi fram í stjórnarsáttmála sem kunnugir segja að von sé á öðru hvoru megin við helgi.

„Þetta er fagnaðarefni,“ segir Lilja um bréfaskriftir Roewes. „Þetta er atvinnuskapandi og við viljum auka veg íslenskrar kvikmyndagerðar í samræmi við Kvikmyndastefnu til 2030. Þessu fylgja líka auknar gjaldeyrisstekjur og styrkir hugverkadrifið hagkerfi,“ útskýrir hún.

„Ungt fólk sýnir kvikmyndaiðnaði líka mikinn áhuga og það gleður mig alltaf þegar ný og spennandi störf verða til á Íslandi.“

Í bréfinu tiltekur aðstoðarforstjórinn enn fremur að HBO og Warner Brothers myndu íhuga alvarlega að skjóta heilu verkefnin á Íslandi að því gefnu að endurgreiðsluhlutfallið myndi hækka í 35 prósent. Þá tekur hann fram að verkefnin yrðu lengri og stærri í sniðum og myndu skapa heilsársstörf í greininni hér á landi auk þess sem verðmæt þekking yrði eftir í landinu.

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR