spot_img

Þóra Hilmarsdóttir meðal leikstjóra breskrar þáttaraðar

Leik­stjór­inn Þóra Hilm­ars­dótt­ir leik­stýr­ir um þess­ar mund­ir bresku þátt­un­um The Ris­ing. Þætt­irn­ir eru fram­leidd­ir af Sky Studi­os. Þóra leik­stýrði tveim­ur þátt­um af Broti og ein­um þætti af Net­flix-þáttaröðinni Kötlu sem er vænt­an­leg 17. júní.

Mbl.is segir frá:

The Ris­ing segja sögu Neve Kelly sem upp­götv­ar að hún er lát­in. Hún ein­set­ur sér að finna morðingja sinn og tryggja að hann fái mak­leg mála­gjöld. Tök­ur eru hafn­ar í Bretlandi og stefnt er að því að þætt­irn­ir komi út á næsta ári.

Þóra gaf út stutt­mynd­ina Frels­un (e. Sal­vati­on) árið 2017 og hef­ur sú mynd vakið at­hygli er­lend­is. Þátta­gerðin er þó mun vin­sælli um þess­ar mund­ir og meira að gera. „Sjón­varpsþátta­gerðin er svo sterk núna að það er erfiðara að koma kvik­mynd­um í fram­leiðslu. Þar spil­ar heims­far­ald­ur­inn líka inn í því færri fara í bíó og færri stór­ar kvik­mynd­ir hafa verið fum­sýnd­ar síðustu miss­eri,“ seg­ir Þóra.

Með kvik­mynda­áhuga alla ævi
„Frá barns­aldri hef ég haft mik­inn áhuga á kvik­mynd­um. Pabbi minn var kvik­mynda­gagn­rýn­andi og ég fékk all­ar bíó­mynd­ir beint í æð. Þá fékk ég stund­um að fara með hon­um í bíó og hann fékk marg­ar bíó­mynd­ir send­ar heim,“ seg­ir Þóra.

„Það er þetta sögu­sagn­ar­form sem heillaði mig svo mikið. Og svo list­in líka. Ég hafði alltaf mik­inn áhuga á að fara í list­nám, sem ég og gerði, og þetta form sam­ein­ar öll mín helstu áhuga­mál, list, arki­tekt­úr og sög­ur.“

Þóra lærði við Central St. Mart­ins-há­skól­ann í Bretlandi þar sem list­in og kvik­mynda­gerðin blönduðust sam­an. „Það small allt sam­an í kvik­mynda­gerð. Það er erfitt að fara út í þenn­an bransa, maður þarf að vera ótrú­lega þol­in­móður og hafa mikla trú á sér,“ seg­ir hún.

„Ég held að ég geti litið til baka al­veg í æsku og séð að þetta var oft frek­ar aug­ljóst hjá mér. Ég hafði áhuga á ljós­mynd­un, setja upp leik­rit og stjórna ýms­um vin­um eða frænk­um í upp­setn­ing­um á leik­rit­um.“

Brans­inn sem Þóra starfar í þykir mjög karllæg­ur og er það aðeins á síðustu árum sem kon­ur hafa fengið viður­kenn­ingu fyr­ir störf sín sem leik­stjór­ar. „Mig lang­ar ekk­ert endi­lega að vera flokkuð sem kven­leik­stjóri þó að mér finn­ist það ágæt­ur kost­ur. Mig lang­ar bara að vera góður leik­stjóri sem fjall­ar um áhuga­verðar sög­ur og karakt­era.“

Hún seg­ir ekki svo ólíkt að vinna að þátta­gerð hér á Íslandi eða úti í Bretlandi. „Við erum öll að tala sama tungu­málið þegar kem­ur að vinn­unni. Hér úti er batte­ríið aðeins stærra, fleiri í hverri grein og með sitt sér­svið. En þetta er líka bara stærri fram­leiðsla,“ seg­ir Þóra.

„Við Íslend­ing­ar erum komn­ir svo framar­lega í kvik­mynda­gerð. Ég tek stund­um eft­ir hlut­um hér úti sem mér finnst bet­ur staðið að á Íslandi.“

Þóra hef­ur einnig leik­stýrt fjölda tón­list­ar­mynd­banda og aug­lýs­inga. Á síðasta ári leik­stýrði hún aug­lýs­ingu síma­fyr­ir­tæk­is­ins Nova sem vakti mikla at­hygli, þar sem all­ir voru alls­ber­ir í henni. Þau unnu Lúður­inn fyr­ir aug­lýs­ing­una.

Þegar fram­leiðsla The Ris­ing klár­ast er ým­is­legt á döf­inni hjá Þóru. Þær Snjó­laug Lúðvíks­dótt­ir hand­rits­höf­und­ur eru með hand­ritið að Kon­um eft­ir Stein­ar Braga til­búið og bíða eft­ir hent­ug­um tíma til að gera hana. Þar að auki er hún með þátta­verk­efni á frum­stigi, bæði hér heima og er­lend­is.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR