Morgunblaðið um HÆKKUM RÁNA: Sjón er sögu ríkari

Gunnar Ragnarsson skrifar í Morgunblaðið um heimildamyndina Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson sem sýnd er í Sjónvarpi Símans og hefur vakið mikið umtal.

Gunnar skrifar:

Heimildamyndin Hækkum rána (Guðjón Ragnarsson, 2021) var frumsýnd á dögunum í opinni dagskrá á Sjónvarpi Símans og er nú aðgengileg áskrifendum stöðvarinnar. Myndin er framleidd af Sagafilm, í samstarfi við finnska framleiðslufyrirtækið Pystymetsä Oy, og er m.a. styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands og finnskum kvikmyndasjóðum. Hér er um nokkuð metnaðarfulla afurð að ræða sem hefur hlotið mikið umtal í íslenskum fjölmiðlum. Ótvírætt hefur sýningarréttur á myndinni reynst Símanum góð fjárfesting sem hefur skilað umtalsverðu áhorfi og áskriftum fyrir stöðina. Með tilkomu erlenda streymisveita leggja innlendar sjónvarpsstöðvar aukna áherslu á framleiðslu og dreifingu íslensks efnis og er það vel.

Hækkum rána er heimildamynd með nokkuð hefðbundnu sniði sem samanstendur mestmegnis af venjubundum einstaklingsviðtölum í bland við „raunveruleg“ atriði. Milli viðtala og myndefnisins er gjarnan gripið til skýringartexta til að greina frá framvindu mála en er það örlítið ofnotað og hefði útkoman orðið listrænni ef upplýsingum væri miðlað á myndrænan máta í ríkari mæli. Upphafsmyndskeiðið skipar stílíseruð hægmynd (e. slow-motion) af stúlkum á körfuboltavelli en þung högg boltans á parkettinu óma í hljóðrásinni. Myndirnar eru svarthvítar en keppnisbúningarnir, ásamt öðrum litlum smáatriðum, í lit. Andi skeiðsins er dramatískur og á að veita „svalt“ og fagmannlegt yfirbragð en álíka stemmur eru notaðar jafnt og þétt yfir gang verksins til að líma saman frásagnarlega þætti þess. Klippt er á svipmynd úr einni af loka- og meginsenum myndarinnar af stúlknaliði ÍR sem afþakkar Íslandsmeistaraverðlaunin, í mótmælaskyni við ákvörðun Körfuknattleikssambands Íslands um að neita þeim að etja kappi við karlkyns jafnaldra sína. Að sýna strax í upphafi glefsu úr jafn veigamiklu atriði, líkt og um stiklu fyrir sjálfa myndina sé að ræða, er örlítið einkennilegt en í takti við ríkjandi hefðir sjónvarpsþáttagerðar nútímans og undirstrikar sjónarhornið á atburðarásina sem réttindabaráttu stúlknanna.

Sagan spannar árin 2015 til 2019, en megnið af myndefninu er frá árunum 2016-18. Í myndinni er fylgst með Brynjari Karli Sigurðssyni körfuboltaþjálfara og stúlknaliðum Stjörnunnar og ÍR undir hans stjórn. Brynjar Karl er umdeildur þjálfari með sérstaka aðferðafræði. Stúlkurnar sem hann þjálfar eru á aldrinum átta til tólf ára en hann hikar ekki við húðskamma þær ef hann sér ástæðu til. Yfirlýst markmið er að „valdefla“ stúlkurnar, gera þær að betri manneskjum, ekki bara leikmönnum. Árangur inni á vellinum virðist þó fylgja með. Fyrst þjálfar Brynjar hjá Stjörnunni en skjótt skilur leiðir. Brynjar rær á önnur mið og tekur við samsvarandi flokki hjá ÍR og fljóta sautján stúlkur úr Garðabænum með. Hjá ÍR mótast stefnan enn frekar af metnaði Brynjars og stúlknanna og liðið vill keppa við karlkyns iðkendur á sama aldri, en fær í tvígang neitun frá yfirvöldum sem gera ekki grein fyrir afstöðu sinni. Þar að auki fer liðið tvívegis á erlenda grundu og keppir m.a. við strákalið. Fléttan endar svo á áðurnefndum mótmælum stúlknanna á verðlaunapalli Íslandsmótsins og hörðum viðbrögðum við þeim en Brynjar er látinn taka pokann sinn og stofnar í framhaldinu nýtt lið, Aþenu (atburðir þessir rötuðu á sínum tíma í fjölmiðla). Viðbrögð við myndinni hafa verið sterk og margir hafa séð hana (þó ekki allir sem leggja orð í belg). Umræðan snýst einna helst um þjálfunaraðferðir

Brynjars – en Viðar Halldórsson, félagsfræðingur við Háskóla Íslands, telur þær vera hluta af „afreksvæðingu“ í íþróttastarfi barna í pistli sínum „Helgar tilgangurinn meðalið?“ á Kjarnanum. Hér eru kvikmyndalegir þættir verksins til umfjöllunar en óumflýjanlega felur það um leið í sér afstöðu til efnisins.

Viðtöl eru tekin við Brynjar sjálfan, eiginkonu hans, aðstoðarþjálfara, ýmsa foreldra og nokkrar stúlkur, m.a. dóttur hans sem er í liðinu. „Raunverulega“ myndefnið er nokkuð magnað og gefur mynd af ástríðufullum þjálfara sem aldrei er lognmolla kringum en upptökurnar eru af æfingum, mótum, foreldra- og liðsfundum. Í raun er myndin hlaðin dramatík frá upphafi til enda, táraflóð streymir ekki síst á hvarma hinna fullorðnu – Brynjars, foreldra og aðstoðarþjálfara. Óumflýjanlegt er að hrífast með sannfæringu og útgeislun stúlknanna sem keppa við báknið er vill ekki breytingar. Í gagnrýni sinni talar Viðar um að heimildamyndin stilli „viðfangsefninu eingöngu upp sem verkefni um valdeflingu“ og taki þar með afstöðu og hittir þar með á áhugaverðan punkt. Hvað er sýnt og hvað ekki, um hvað er fjallað o.s.frv. – allir þættir kvikmyndagerðar fela í sér afstöðu þeirra sem að þeim standa gagnvart viðfangsefninu – í heimilda- sem og skálduðum myndum.

Í grófum dráttum er Hækkum rána ögn einföld í trú sinni á málstað stelpnanna og Brynjars og litast af því. Þó er hún ekki einstrengingsleg á þann hátt að aðrar raddir heyrist ekki (foreldrar á foreldrafundum lýsa ónægju t.a.m.) og áhorfanda er gefin nógu ítarleg mynd af aðferðum Brynjars til að mynda sér sjálfstæða skoðun. Ekki má gleyma heimildagildi þess sem er fangað. Umræður sem verkið hefur vakið segja þó nokkuð til um mátt þess.

Lesendur eru einarðarlega hvattir til að gefa Hækkum rána gaum en kvikmyndin er virkilega kraftmikil frumraun upprennandi leikstjóra.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR