Óttast uppsagnir starfsfólks verði fyrirhugaðar breytingar á endurgreiðslulögum að veruleika

Forstjóri Sagafilm óttast að þurfa að segja upp öllu sínu starfsfólki, verði frumvarp til breytinga á lögum um endurgreiðslur í kvikmyndaiðnaði samþykkt. Önnur framleiðslufyrirtæki hafa gert alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Á vef RÚV segir:

Framleiðendur kvikmynda og sjónvarpsefnis á Íslandi hafa undanfarið átt kost á endurgreiðslum á allt að 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú drög að frumvarpi til breytinga á lögum um greiðslurnar. Samkvæmt drögunum verður gildistími laganna framlengdur út árið 2025. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar, sem byggðar eru á ábendingum Ríkisendurskoðunar.

„Skynsamlega lausnin“

Nokkrar athugasemdir hafa borist vegna þessara breytinga. Þannig gera Samtök iðnaðarins, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Sagafilm alvarlegar athugasemdir við að hlutdeild í rekstrarkostnaði myndi ekki lengur stofn til endurgreiðslu. Þau túlka þetta þannig, að aðeins muni fást endurgreiðsla af verktöku, en ekki af launum fastráðinna starfsmanna.

„Við getum ekki lesið þetta öðruvísi, fyrst við getum ekki notað grunninn af okkar fasta starfsfólki sem grunn að endurgreiðslu, þá verðum við að segja upp fólki og ráða í verktöku,“ segir Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm.

Hátt í 30 manns vinna hjá Sagafilm og Hilmar óttast að þurfa að segja upp öllum upp.

„Svona fljótt á litið væri það skynsamlega lausnin miðað við hvernig þetta er sett upp. En nú vil ég ekki alveg trúa því að það hafi verið markmiðið í sjálfu sér en þannig lítur það út miðað við hvernig drögin eru sett upp.“

Þessar endurgreiðslur, þetta er eitthvað sem skiptir ykkar rekstur miklu máli?

„Mjög miklu. Og þetta er það sem skapar grunninn að því sem við erum að gera í framleiðslu á efni hérna heima, hvort sem það er innlent efni eða erlent. Og þetta er algjör kjölfesta í því.“

Tekið til skoðunar

Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, sagði í skriflegu svari til fréttastofu að endurgreiðslurnar feli í sér umtalsverðan ríkisstyrk sem þurfi að lúta skýrum reglum og afmörkunum. Með frumvarpinu sé verið að bregðast við þeirri ábendingu Ríkisendurskoðunar að skilgreina þurfi betur hvað teljist endurgreiðsluhæfur kostnaður, og auka gagnsæi og skýrleika um kostnað við einstök verkefni. Við samningu frumvarpsins hafi meðal annars verið höfð hliðsjón af slíkum skilgreiningum erlendis, nánar tiltekið í Bretlandi, Noregi og Tékklandi. Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins verði að sjálfsögðu teknar til vandlegrar skoðunar.

Hafið þið fengið fund með stjórnvöldum um þessi mál?

„Nei. Við áttum reyndar fund með ráðherra fyrir allnokkru en þar kom ekkert fram um að þessi atriði væri uppi á borðum yfirhöfuð. Þannig að þetta kom okkur svolítið á óvart, þegar þetta birtist þarna,“ segir Hilmar.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR