Northern Wave haldin í október

Alþjóðlega stuttmyndahátíðin The Northern Wave Film Festival, sem átti að fara fram síðastliðið haust, hefur verið frestað um ár, eða til 22.-24. október 2021. Í kjölfar heimsfaraldurs var sýningum mynda sem átti að sýna árið 2020 frestað ásamt öðrum fylgifiskum hátíðahaldanna. Allar myndir sem staðfestar voru á síðasta ári verða sýndar á hátíðinni í október næstkomandi.

Þrátt fyrir að COVID19 faraldurinn hafi haft veruleg áhrif á hátíðina 2020 var ekki setið auðum höndum segir í tilkynningu frá hátíðinni. Norrænar stelpur skjóta er námskeið sem hefur verið haldið undanfarin ár í tengslum við hátíðina, þar sem ungum kvikmyndagerðarkonum og leiðbeinendum frá Norðurlöndunum er boðið á hátíðina til að taka þátt í vinnusmiðju og hátíðinni sjálfri. Markmiðið með vinnustofunni er að efla tengsl kvenna í kvikmyndabransanum á Norðurlöndunum. Vinnusmiðjan færðist á netið þar sem 14 þátttakendur frá Íslandi, Noregi, Færeyjum, Grænlandi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi tóku þátt í námskeiðum, fyrirlestrum og umræðum ásamt 7 leiðbeinendum, einum frá hverju landi.

Dagskráin fór fram á netinu dagana 11.-13. desember síðastliðinn og meðal fyrirlesara var Ísold Uggadóttir sem fjallaði um ferlið við gerð myndarinnar Andið eðlilega. Þátttakendur munu einnig hitta leiðbeinendur síns heimalands í janúar. Öllum verður þeim boðið á hátíðina næsta haust. Vinnusmiðjan er hluti af styrktaráætlun Norrænu ráðherranefndarinnar Norden 0-30 og Nordic Culture Point.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR