Miles Teller (Whiplash), Shailene Woodley (Adrift) og William Hurt munu fara með helstu hlutverk í nýrri kvikmynd Gríms Hákonarsonar, The Fence. Fyrirhugað er að tökur hefjist í Bandaríkjunum í mars á næsta ári.
Deadline skýrir frá þessu og þar kemur fram að myndin sé pólitísk satíra um nágrannadeilu milli nýgifts frjálslynds pars og erkiíhaldssams fyrrum landgönguliða. Deilan snýst um þriggja metra háa girðingu sem hermaðurinn hyggst reisa til að vernda hús sitt gegn mögulegri hryðjuverkaárás.
Söguefnið þykir heldur betur tímabært að sögn Deadline, miðað við hið lævi blandna pólitíska andrúmsloft sem leikur um Bandaríkin um þessar mundir.