RÁÐHERRANN, þáttur 3: Raunveruleikinn leysir fantasíuna af hólmi

Ásgeir H. Ingólfsson fjallar um þriðja þátt Ráðherrans á vef sínum Menningarsmygli. Umsagnir um fyrstu tvo þættina má lesa hér.

Ásgeir skrifar:

Ég átti nokkrar forvitnilegar samræður eftir fyrstu rýnina um Ráðherrann. Einn benti á að lingóið og orðræða bæði Benedikts og aðstoðarkonu hans, sérstaklega Twitter-dæmið (sem virðist svona að mestu gleymt í þriðja þættinum) hafi verið afskaplega í ætt við Bjarta framtíð sáluga. Sem er hárrétt athugað – og í raun athyglisvert að hún sé þá ekki eignuð þeim þætti, eða þeim tveim starfandi flokkum sitt hvorum megin við miðju sem í fljótu bragði virðast andlega skyldastir honum. En í raun var það einmitt ástæðan fyrir því að þátturinn virkaði sem fantasía þessi vel heppnaði Trójuhestur; svona gæti gerst víða annars staðar, en aldrei í Valhöll.

Önnur líkti þessu við blautan draum Eimreiðarinnar gömlu; fyndni kallinn væri kominn til valda. Og jú, það er eða var mögulega sjálfsmynd einhverra Sjálfstæðismanna af Eimreiðarvængnum, að þeirra tromp væri þeirra ofursmellni Davíð. En bara sorrí, ég var byrjaður að fylgjast með pólitík í miðri borgarstjórnartíð Davíðs – maðurinn hefur aldrei nokkurn tímann verið fyndinn í allan þann tíma sem er liðin síðan þá. Eða jú, kannski fyndinn á framsóknarlega fyndnukalla mælikvarðann sem varð úreltur fyrir tíma litasjónvarpsins.

Svona fyrir utan að vera afleitur leiðarahöfundur – þótt hann geti samið frasa, hann má eiga það að smjörklípa er mjög gott orð til að hafa í vopnabúrinu þegar kemur að pólitík sem og samfélagsumræðu – og er ekki síður notuð af arftökum hans og andstæðingum.

En nóg um efni utan þingfundnar, það er kominn tími á að ræða þriðja þátt Ráðherrans. Þetta er aðeins of endurtekningasamt í byrjun, aðeins of mikið verið að rifja upp síðustu þætti – sem voru vel að merkja mun betri en þessi.

Stóra vandamálið er þetta; það kemur langur kafli þar sem Benedikt okkar, hann Ólafur Darri, er fjarverandi. Og þá áttar maður sig miklu betur á að þetta er eins manns show í raun. Oft eru stakir þættir – eða hlutar af þætti – sem fókusera á aukapersónur mjög skemmtilegar og styrkja heildina, gefa þeim nýjar víddir.

En vandinn er bara að það er eins og einhver annar og betri handritshöfundur sé að skrifa handritið sem Ólafur Darri er að lesa upp. Eða, sem er líklegra, handritshöfundateyminu fannst hann einfaldlega langáhugaverðasta persónan og gleymdi því að gera hinar persónurnar áhugaverðari. Það væri auðvitað hægt að skrifa þetta á persónutöfra Darra – en það er samt hæpið, hann var til dæmis ekkert stand-out í Ófærð, sem heilt yfir voru verr leiknir þættir, einfaldlega út af því sú persóna var á löngum köflum svo djöfull þunglamalega skrifuð.

En þegar forsætisráðherrann hverfur lendum við í alls kyns sambandsdrömum sem eru einfaldlega skelfilega leiðinleg. Og svo kvarta ég helst aldrei yfir óhóflegri nekt í norrænu kvikmynda- og sjónvarpsefni, en kynlífsatriðin sem við fáum að sjá hér eru bara svo steingeld. Hvorki erótísk, fyndin né athyglisverð. Og þó, kannski sýnir framhjáhald tveggja þingmannana hvernig ástarlíf sálarlausra atvinnupólitíkusa er, jafn sálarlaust og þeir sjálfir?

Svo er dálítið galið að nýbakaður ritstjóri furði sig á frama Hrefnu, hún sé jú ekkert tengd. Halló, hún er (eða var) kona varaformannsins? Unnur Ösp sýnir engu að síður góða spretti sem Katla, mögulegt vinkonusamband (mögulega passlega falskt, en hver veit?) á milli hennar og Hrefnu gæti orðið forvitnilegt þegar á líður. Eins vona ég að það verði gott drama á milli hennar og fréttasnápsins, sem virðist alltaf á brún þess að verða forvitnileg persóna.

En svo er kannski eitt stærsta vandamál þáttanna að svikin komu of snemma; bæði framhjáhald Gríms og það hvernig Benedikt gengur fram hjá honum í ráðherrakaplinum. Við fengum ekki nægan tíma til að kynnast Hrefnu og Grím sem pari og við fengum heldur ekki nógu mikinn tíma til að kynnast Benedikt og Grím sem vopnabræðrum, sú spenna sem það skapar að hann sé skyndilega orðinn fjandi þeirra beggja væri miklu áþreifanlegri ef það hefði verið gert.

Konungsflygill og afkristnun

En þegar Ólafur Darri er á skjánum er hins vegar oftast gaman. Sagan um konungsflygilinn er til dæmis algjörlega frábær og mætti alveg vera sérstök spin-off sería fyrir mér. Jafnel bara með flyglinum sjálfum í aðalhlutverki. Svo er ofboðslega fallegt að Siggi Sigurjóns og Ólafur Darri séu feðgar, mögulega tveir mögnuðustu leikarar þjóðarinnar í augnablikinu.

Átökin um ríki og kirkju lofa svo góðu fyrir framhaldið. Einkennileg tengsl Sjálfstæðisflokksins og kirkjunnar er jarðsprengjusvæði sem fáir hafa þorað út á – og ef út í það er farið, einkennilegt samband hægrisins og kristindómsins. Um leið var það bæði besta og versta augnablik seríunnar þegar Ólafur Darri flytur vafasama stuðningsræðu fyrir kirkjuna – en snýr henni svo upp í ræðu um aðskilnað ríkis og kirkju.

Það má ennþá finna smá fantasíu þar, en auðvitað kemur í ljós að fantasían getur ekki enst – þá litlu fantasíu sem finna má í stjórnmálum má helst finna í kosningabaráttu, og nú er hún búin. Þar með er hins vegar ekki sagt að real-pólitík geti ekki verið forvitnileg. En hún verður fljótt innantóm ef maður fer að hafa á tilfinningunni að þetta brall þeirra pólitíkusana hafi engin raunveruleg áhrif á fólk.

Sem það gerir auðvitað. Það er bara alltof algengt að pólitíkusar sjái það ekki – og of algengt að skáldskapur um pólitík sýni það ekki. Líklega er kominn tími á þátt þar sem kjósendur fá að láta ljós sitt skína. Þeir þurfa samt að vera skemmtilegir og sannferðugir – annars vil ég bara Ólaf Darra aftur á skjáinn.

Sjá nánar hér: Raunveruleikinn leysir fantasíuna af hólmi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR