Hátíðargusa Bjargar Magnúsdóttur á RIFF 2020

Björg Magnúsdóttir (mynd Saga Sig).

Björg Magnúsdóttir, einn handritshöfunda þáttanna Ráðherrann, var fengin til að flytja hina árlegu hátíðargusu RIFF. Hér fer ræða hennar.

[divider scroll_text=““]

Frú Eliza, frú Vigdís. Ágæta samkoma. Ambassador. Borgarstjóri. Bransi.

Þegar ég byrjaði að skrifa fyrir sjónvarp fyrir sjö árum vissi ég akkúrat ekki neitt hvað ég var að gera. Þetta er flókinn bransi sem byggir á ástríðu fólks fyrir því að segja sögur. Og þið væruð öll pottþétt að gera eitthvað annað ef þið gætuð. En það er ekki hægt að slökkva í sköpunarþorsta sem býr innra með listamönnum.

Nei, sem betur fer er ekki hægt að drepa ástríðu. En það má misnota hana.

Samningar sem mann grunar helst að lögfræðingur Samherja í Namibíu hafi draftað, ólaunaðar vinnustundir, verktakabrask með tilheyrandi óöryggi – nota bene, ég hef ekki fætt barn útaf því að mér finnst vandræðalegt að safna fyrir fæðingarorlofi á Karolina Fund.
Síðan eru alvarlegri dæmi af misnotkun og ofbeldi einsog Metoo sýndi fram á.

Þið þekkið þetta. Vitið hversu erfitt er bara að koma hugmynd á framfæri. Símtölum ekki svarað. Tölvupóstar týnast. Fundum frestað… En ég er ekki komin hingað til að tala um Skarphéðinn Guðmundsson.

Menning er að gera hlutina vel sagði Þorsteinn Gylfason heimspekingur. Að klambra saman stórri hugmynd, koma sögu í sýningarhæft form og vanda sig við hvoru tveggja tekur viðbjóðslega mikinn tíma.

Höfundaherbergi, þar sem átríðufullt fólk tekst á um hugmyndir, geta verið bæði flókin og erfið. Sögur lúta engum lögmálum. Það er ekki eitt rétt svar. Það eru mörg mismunandi svör. Það er hægt að segja sömu sögu á ótal mismuandi vegu og allir hafa ólíka sýn. Þá þarf að tala saman, endurskrifa, láta handrit liggja, koma aftur að því, finnast það hundlélegt, henda út fullt af dóti, bæta við og endurskrifa meira.

Vandvirkni er tímafrekari en fúsk.

En það eru ekki allir sem nenna að hlusta á þennan barlóm. Framleiðendur koma peppaðir inn, segja kannski nei við þyrlu í lykilsenu – bjóða strætó í staðinn. Minna stundum á pabbana á biðstofu fæðingardeilda í gamla daga meðan skurðaðgerð stendur yfir á handritinu. Klárir með vindlakassa þegar hríðarnar eru yfirstaðnar. Æ, hvað ætli þeir nenni að heyra um hárlos höfundar? Eða óeðlilega þyngdaraukningu, brenglun á svefni sökum kvíða og álags? Og hver á svo að borga sálfræðitímana? Djók. Auðvitað geri ég það.

Hvaða sögu á að segja? Kemur ástríðan að innan eða utan?

Hefurðu eitthvað að segja eða viltu vera kúl í 66 úlpu á tökustað? Á að verja ómældum tíma í þróun bara af því að Netflix ætlar að kaupa? Og á ekki endilega að dúndra í gott handrit þar sem kona af erlendum uppruna, helst í fleiri minnihlutahópum, fer með aðalhlutverk?

Orri Páll á Mogganum komst að því að fyrirsögnin MYRTI NAKIN BRJÓST, innihéldi þrjú lykilorð sem tryggja framúrskarandi lestur á netinu. Fólk klikkar alltaf á fyrirsagnir sem innihalda orðin: Morð. Nekt. Brjóst.

Ég geri mér vel grein fyrir því að bransinn okkar er núll og nix án áhorfenda. En þetta hlýtur samt að vera fín lína. Ef listamaður hefur ekkert að segja skipta umbúðirnar varla máli og innihaldið fellur hratt í gleymskunnar dá.

Hver segir söguna? Sigurvegarar, segja sagnfræðingar. Karlmenn, segir tölfræðin. Auðvitað á kyn ekkert að skipta máli – en það gerir það. Við erum endalaust að nýta eigin reynsluheim og það sem við höfum upplifað, séð og lesið.

Manneskja sem hefur alltaf búið við allsnægtir á erfitt með að setja sig í spor þeirra sem búa við skort, félagslega einangrun og linnulausar fjárhagsáhyggjur.

Manneskja sem á ættir að rekja í báða leggi til Hallgerðar Höskuldsdóttur mun aldrei finna hversu sárt það er að verða fyrir aðkasti eða hundsun vegna húðlitar í fáránlega hvítu samfélagi.

Manneskja sem tilheyrir ekki kyni eða kynþætti, sem hefur verið traðkað á, fattar ekki til fulls hvað ójöfnuður er.

Allir eru forréttindablindir á einhverjum sviðum.

Síðustu sjötíu ár hafa konur leikstýrt einni kvikmynd af tíu hér á landi. Ég hélt í alvöru talað að tímarnir væru breyttir þar til ég skoðaði nýjustu tölur. 2018-19 voru 17 kvikmyndi framleiddar hér, konur leikstýrðu þremur. Þessi hlutföll lita öll störf innan bransans.

Hvað er málið? Hafa konur ekki áhuga? Er val á sögum einsleitt? Hafa konur ekkert að segja? Eða hafa þær of mikið að segja og eru bara erfiðar? Erum við öll föst í Síðustu veiðiferðinni?

Nei, nei. Auðvitað er magnað að valdastrúktúrinn í íslenskum kvikmyndaiðnaði hafi orðið uppskrift að vinsælustu bíómynd ársins.

Ekki ætla ég að þykjast vita svörin við þessum spurningum – en hitt veit ég, að konur elska jafnmikið og karlar að segja góða sögu.

Við lifum á gullöld sagnamiðlunar sem felur í sér endalaus tækifæri, eins og einstök staða Íslands sýnir vel um þessar mundir. Sögur fá okkur til að hugsa, fylla okkur forvitni, gleði og öllu hinu. Þegar vel tekst til geta þær verið besti en óþægilegasti spegillinn. Sögur eru siðmenning.

Nýlega skilaði starfshópur skýrslu um Kvikmyndastefnu til 2030. Sem er frábært. Það er bara eitt vesen. Skýrslan hefur ekki verið samþykkt af Alþingi. Svo veit heldur enginn hver verður menningarmálaráðherra eftir næstu kosningar. Við hljótum því að treysta þingmönnum… nei, vá hvað er ég að segja. Við þurfum að vera reddí að fara með Le Creuset pottana á Austurvöll.

Áburðarverksmiðja eða söguframleiðsla? Gæti orðið kosningamál.

Það gætir gremju í garð Dana, okkar gömlu nýlenduherra. Kannski situr 14-2 tapið enn í þjóðarsálinni, skal ekki segja. En eitt getum við lært af þeim, sem Mads Mikkelsen orðaði vel í Fréttablaðinu. „Velgengni okkar Dana í kvikmyndagerð byggist hvorki á tilviljun né heppni. Þær fjárfestingar sem þjóðin lagði í kvikmyndagerð á síðustu áratugum hafa reynst gríðarlega mikilvægar … þetta hefur verið gert með markvissum hætti, er enn til staðar af fullum krafti og er haldið stöðugu.“

Sem sagt. Ekki tilviljun, heppni, skítamix, „þetta reddast“ og ekki hraðsoðið handrit sem á að „redda í klippinu.“ Þvert á móti stabíl stefna sem stjórnvöld standa aktívt á bakvið. Solid plan um hvernig listamenn geta gert hlutina vel.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR