Skjaldborg 2020 aflýst

Skjaldborgarhátíðinni hefur verið aflýst í ljósi hertra samkomutakmarkana sem kynntar voru í dag. Hátíðin átti upphaflega að fara fram um hvítasunnuhelgina eins og ávallt en var frestað til verslunarmannahelgarinnar, 31. júlí til 3. ágúst, vegna faraldursins.

Í tilkynningu frá hátíðinni segir:

Kæru Skjaldborgarar,

Það er okkur þungbært að tilkynna að Skjaldborg 2020 á Patreksfirði er aflýst.

Í ljósi tilmæla ríkisstjórnar og almannavarna teljum við það ekki forsvaranlegt að halda Skjaldborgarhátíðina um verslunarmannahelgi eins og til stóð.

Það er sameiginleg niðurstaða stjórnar Skjaldborgar og bæjaryfirvalda Vesturbyggðar að ekki sé hægt að halda hátíðina í ljósi síðustu fyrirmæla almannavarna og ríkisstjórnarinnar í tengslum við nýleg hópsmit Covid-19.

Í boði er að fá armbönd endurgreidd og munum við afgreiða það eins fljótt og unnt er. Óski Skjaldborgarar ekki eftir endurgreiðslu þá þökkum við veittan stuðning. Vinsamlega sendið tölvupóst á skjaldborg@skjaldborg.is.

Samfélagsleg ábyrgð okkar allra er mikil og við viljum með þessu móti sýna það í verki að við erum öll almannavarnir.

Skjaldborgarkveðja,

Stjórn og framkvæmdateymi Skjaldborgar – hátíðar íslenskra heimildamynda

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR