spot_img

BJÖRGUNARAFREKIÐ VIÐ LÁTRABJARG sýnd í endurbættri útgáfu á Icedocs hátíðinni

Rammi úr Björgunarafrekinu við Látrabjarg.

Endurbætt útgáfa af Björgunarafrekinu við Látrabjarg (1949) eftir Óskar Gíslason verður sýnd á Icedocs heimildamyndahátíðinni á Akranesi, sem hefst 15. júlí. Sama dag fer einnig fram kynning fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk á B2B Documentary Network.

Sýningin, sem verður í Bíóhöllinni Akranesi fimmtudaginn 16. júlí kl. 19:30, er í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands, en safnið hefur gert upp sérstaklega tvær mynda hans af þessu tilefni.

Sýningin hefst á fyrstu kvikmynd Óskars, Lýðveldisstofnuninni (1944). Myndin lýsir hátíðahöldunum á Þingvöllum 17. júní 1944 í tilefni stofnunar lýðveldisins. Í kjölfarið verður Björgunarafrekið við Látrabjarg (1949) sýnd. Óhætt er að telja hana með merkustu heimildamyndum sem gerðar hafa verið á Íslandi. Tilviljanir réðu því að Óskar náði myndum af raunverulegri skipsbjörgun við afar erfiðar aðstæður við tökur á myndinni í desember 1948.

Heimsókn B2B Doc Network

Einnig er vert að geta heimsóknar Alex Sharieff verkefnastjóra B2B Doc (Baltic to Black Sea Documentary Network) sem kynnir samtökin fyrir íslensku kvikmyndagerðarfólki fimmtudaginn 16. júlí kl. 12:30 á skrifstofu IceDocs, Suðurgötu 57, Akranesi

B2B Doc eru samtök kvikmyndagerðamanna sem hafa það að markmiði að styrkja bönd fólks í kvikmyndagerð þvert á landamæri. Samtökin aðstoða kvikmyndagerðarfólk við að undirbúa kynningar á markaðstorgum, kemur á samstarfi kvikmyndagerðarfólks og framleiðenda/dreifingaraðila og styður þær myndir sem framleiddar eru í samstafinu til ferða á samframleiðslu markaði og kvikmyndahátíðir. Samtökin rukka ekkert félagsgjald.

Samtökin hafa nú sérstakan áhuga á styrkja sambandið við kvikmyndagerðarfólk af Norðurslóðum, sérstaklega með framleiðendur heimildamynda í huga þar sem er markmiðið er að skapa tækifæri til samframleiðslu á milli íslenskra framleiðenda og framleiðanda frá aðildarríkjum B2B samtakanna. Frekari upplýsingar um B2B Doc má finna á https://www.b2bdoc.se/

Dagskrá IceDocs má finna á https://icedocs2020.eventive.org/schedule, frítt er á kvikmyndasýningar og marga viðburði hátíðarinnar, en við mælum með því að fólki taki frá miða á netinu vegna fjöldatakmarkanna. Einnig er hægt að kaupa sér stafrænan aðgang að hátíðinni sem veitir aðgang að nær öllum kvikmyndum hátíðiarinnar heima í stofu í þrjár vikur frá fyrsta degi hátíðarinnar. Frekari upplýsingar um viðburði og miðapantanir á icedocs.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR