IceDocs hefst 23. júní

Alþjóðlega heimildamyndahátíðin IceDocs hefst í þriðja sinn miðvikudaginn 23. júní á Akranesi og stendur til sunnudagsins 27. júní. Á hátiðinni verður fjöldi alþjóðlegra heimildamynda sýndar auk ýmissa sérviðburða.

Dagskrá IceDocs má finna hér, frítt er á sýningar en taka þarf frá miða á netinu. Þá er hægt að kaupa sérstakan stafrænan aðgang að hátíðinni sem veitir aðgang að kvikmyndum heima í stofu til 7. júlí.

Auk sýn­inga á heimild­armynd­um verður boðið upp á ýmsa viðburði, meðal annars tónleika með Gugusar, DJ Sturla Atlas þeytir skífum, pöbb kviss með Niels Thibaud Girerd, uppistand með Nick Jameson og heimildamyndasmiðja fyrir börn.

Frú Eliza Reid opnar hátíðina á miðvikudagskvöldið en opnunarmyndin er Crock of Gold: A few rounds with Shane McGowan. Myndin er eftir Julien Temple og er framleidd af Johnny Depp. Í henni er sögu tón­list­ar­manns­ins Shanes McGow­ans er fléttað sam­an við sögu Írlands og sjálf­stæðis­bar­áttu Norður-Íra.

Þá verða einnig valin myndbrot frá Ísland á filmu sýnd í Akranesvita á hátíðinni. Undanfarin ár hefur starfsfólk Kvikmyndasafns Íslands unnið hörðum höndum að því að stafvæða eldri myndbrot sem til eru á safninu. Á vefnum Ísland á filmu sem opnaði nýlega er er að finna sýn inn í fágætan safnkost Kvikmyndasafnsins allt frá árinu 1906 til okkar daga. Vefurinn er sérlega notendavænn en þar geta notendur til að mynda valið að sjá myndbrot eftir landssvæðum. Ísland á filmu er samstarfsverkefni Kvikmyndasafns Íslands og Kvikmyndamiðstöðvar Danmerkur (Dansk Filmistitut/Filmcentralen), sem heldur úti sambærilegum vef.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR