Lestin um KÖTLU: Gæsahúðarvekjandi vísindalegur draugagangur í Vík

Í Netflix-þáttunum Kötlu stígur leikstjórn, leikmynd, handrit, förðun, leikur, tónlist, hljóð og kvikmyndataka samtaka dans svo úr verður úthugsað og ögrandi listaverk, að mati Júlíu Margrétar Einarsdóttur gagnrýnanda Lestarinnar.

Júlía Margrét skrifar:

Nýliðnum laugardegi varði ég að mestu leyti fyrir framan sjónvarpið í að glápa á Kötlu, nýjustu þáttaröðina úr smiðju Baltasars Kormáks og Sigurjóns Kjartansonar sem sýnd er á Netflix. Í sögunni, sem sviðsett er í nútímanum, er ár liðið frá því að kröftugt gos í Kötlu hófst, með þeim afleiðingum að Vík í Mýrdal lagðist í eyði að mestu. Þar búa þó enn nokkrar hræður og í námunda við Mýrdalsjökul starfa vísindamenn sem rannsaka gosið. Ekkert lát er á eldstrókum og öskufalli, bæjarbúar eru einangraðir og bera grímur á ferðum sínum. Margt við þeirra veruleika er skuggalega kunnuglegt.

Gamaldags símar og fjósamjólk í brúsum
Þó sagan gerist í nútímanum er sviðsmyndin afar gamaldags, enda hefur eldfjallið spýtt bæjarbúum aftur um mörg ár í tækniþróun, þau eru ekki með GSM samband eða internet heldur aðeins landlínu, svo þar er talað í eldgamla heimasíma og mjólkin er borin í stórum brúsum beint úr fjósinu þangað sem hennar skal neytt. Lífið er með rólegasta móti en óhugnaður marar undir yfirborðinu sem brýtur sér leið fram í dagsljósið þegar yfirnáttúrulegir atburðir skekja fámennan bæinn.

Tónlist og sviðsmynd harmónera vel
Ég stóð í þeirri trú að ég væri að fara að horfa á hefðbundna hamfaraþætti, þar sem sagan kæmi til með hverfast um baráttuna við óvægin náttúruöflin og flótta frá grimmd þeirra. Ég varð fegin að sjá söguna taka óvænta stefnu og halda á dularfull og ævintýralegri mið. Það verður strax ljóst að umgjörðin er stórfengleg enda öllu tjaldað til. Leikmyndahönnun og tæknibrellur skapa skuggalegan heim sem harmónerar vel með angurværri tónlist Högna Egilssonar sem á stóran þátt í að skapa ógnvekjandi stemningu. Rammi fyrir ramma er í raun eins og listaverk.

Óttaðist sagan að hyrfi undir látunum
Það lagðist þó að mér sá ótti fyrstu mínúturnar að slíkt púður hefði verið lagt í þann hluta þáttanna að sagan og persónusköpunin myndu líða fyrir, og láta í minni pokann fyrir töff skotum, sniðugum brellum og látum. Rétta stemningin væri sköpuð með fallegri sviðsmynd og sellóstrokum sem kæmu til með að yfirgnæfa þunna sögu með litlausum karakterum. Áður en lengra er haldið er vert að taka fram að hvergi í framleiðsluferlinu suðaði ég um að fá að taka þátt í handritasmíðinni sjálf.

Stirð samtöl sem tæki til að koma upplýsingum til skila
Strax í fyrsta þætti fannst mér handitið aðeins hiksta, þótti framvindan virka of hæg og stefnulaus og samtölin klaufaleg og notuð sem ódýrt tæki til að koma upplýsingum til áhorfenda. Ein aðalpersóna þáttanna segir til dæmis strax á fyrstu mínútum eins og upp úr þurru: „Ég veit þú saknar Ásu, við söknum hennar öll. En það er liðið ár síðan hún hvarf.“ Hér eru augljóslega mikilvægar upplýsingar á ferð, en þetta er ekki hefðbundið talmál. Í stað þess að sýna það sem gerst hefur er áhorfandinn strax mataður í gegnum samtöl, sem gerir þau stirð og ótrúverðug. Einnig fannst mér raddir persónanna ekki nægilega sterkar í byrjun og óttaðist að erfitt yrði að greina karaktereinkenni hverrar persónu frá annarri.

Handritið vel útfært og karaktersköpun góð
Áhyggjur um að handritið væri snautt og illa útfært hurfu sem dögg fyrir sólu því fljótlega, þegar leið á þættina, varð morgunljóst hve vel skrifað það er. Fléttan er spennandi og úthugsuð og það sem einmitt greinir þessa þætti frá mörgum er hve ágætlega skapaðir karakterarnir eru.

Þeir eru ekki einvíðir eins og oft vill verða heldur marglaga, hafa sína persónulegu sýn, langanir þeirra, þrár og baksaga vandlega útfærð. Engri persónu er komið fyrir til þess eins að vera tæki til að þjóna söguþræðinum eða hver annarri, þau eru öll til á sínum eigin forsendum og vekja hvert um sig samúð og forvitni. Fyrir allt þetta á handritateymið stórt klapp skilið.

Frábærlega vel leikið
Þá spillir ekki fyrir að sá hópur sem túlkar litríkt persónugallerí þeirra sem starfar og aðhefst í námunda eldgossins leysir verkefnið vel, með afar góðri leikstjórn. Það má ekki veikan hlekk finna í leiknum en nokkrir stóðu upp úr að mínu mati.

Það hlýtur að teljast töluvert afrek hjá söngkonunni hæfileikaríku GDRN, eða Guðrúnu Ýr Eyfjörð, að túlka Grímu, aðalpersónu þáttanna án þess að hafa neinn bakgrunn í leiklist, og gera það á flekklausan hátt. Baltasar Breki Samper er mjög eftirtektarverður, hann fer með hlutverk Kjartans og túlkar innri baráttu persónunnar og erfiðar tilfinningar listilega.

Írisi Tönju Flygenring, sem fer með hlutverk Ásu, hafði ég ekki áður séð, hvorki á skjánum né á fjölum leikhúsanna, en það er ljóst að hér er afar hæfileikarík leikkona á ferð sem við munum eflaust sjá mikið af. Túlkun hennar á flóknu hlutverki var fullkomlega tilgerðarlaus og náttúruleg. Í sumum atriðum, sérstaklega þar sem hún lék á móti Guðrúnu Ýr, fannst mér leikur hennar vera á pari við stærstu Hollywood-stjörnur.

Stjarna þáttanna tíu ára
Það kom kannski síst á óvart að Birgitta Birgisdóttir, sem leikur Rakel, var stórfengleg að vanda. Sárri angist og örvæntingu sem fylgdi óvæntum vendingum í erfiðu sorgarferli kom hún ótrúlega vel til skila, hún minnti á að hún er og hefur um hríð verið ein af okkar allra bestu leikkonum.

En stjarna þáttanna er að mínu mati hinn tíu ára gamli Hlynur Harðarson sem fer með hlutverk hins unga Mikaels og tekst að vera jafn óhugnarlegur og hann er mikið krútt, og túlkun hans í hlutverki sínu og í raun óþægilega sannfærandi.

Draugasaga eða vísindaskáldskapur?
Söguþráðurinn sækir að hluta í vísindaskáldskap og tónninn að miklu leyti ekki ósvipaður þáttum á borð við dystópíska vísindatryllinginn Black Mirror, en í þeim gætir líka skírskotana í yfirnáttúrulegan og óhuggulegan íslenskan þjóðsagnaarf. Að sumu leyti fannst mér þættirnir ekki alveg vissir hvort þeir ætluðu sér að vera draugasaga eða vísindaskáldskapur, sem er ákvörðun sem mér þótti að betur hefði verið tekin í ferlinu og ofútskýringar á plottinu í lokin óþarfar. Mun fleiri hnúta hefði mátt skilja eftir óhnýtta og leyfa áhorfandanum að spreyta sig á þeim. En það kom þó ekki að mikilli sök.

Eldfim pæling sem gengur upp
Það er virkilega hressandi að vita að það er verið að framleiða vandað sjónvarspefni sem þorir að feta lítt troðnar slóðir, þar sem leikstjórn, leikmynd, handrit, förðun, leikur, tónlist, hljóð og kvikmyndataka stíga samstilltan dans svo úr verður úthugsað, en líka ögrandi listaverk. Ég vona af öllu hjarta að við höfum séð vísirinn að því sem koma skal í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð.

Katla sýnir sjóðheitt hugrekki sem er mér að skapi.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR