spot_img

Kvikmyndadeild hjá Listaháskólanum á næsta ári

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, segir að til standi að stofna kvikmyndadeild við skólann haustið 2021. Þetta sagði hún á Morgunvakt Rásar 1. Á dögunum kynnti Kvikmyndaskóli Íslands að ætlunin væri að færa skólann á háskólastig, en Fríða Björk segist hafa efasemdir um þau plön.

Þess má geta að Fríða Björk og Friðrik Þór Friðriksson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, sitja saman í starfshópi um mótun kvikmyndastefnu sem starfað hefur í vel á annað ár á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Segir um þetta á vef RÚV:

Nám í kvikmyndagerð á háskólastigi hefur aldrei verið í boði hér á landi en Kvikmyndaskóli Íslands býður upp á nám á framhaldsskólastigi. Árið 2012 lét menntamálaráðuneytið gera úttekt á stöðu kvikmyndamenntunar hér á landi. Niðurstöður hennar leiddu í ljós að þörf væri á námi í kvikmyndagerð á háskólastigi og að best væri að það yrði innan veggja Listaháskólans.

LHÍ unnið að því að koma á fót kvikmyndadeild frá stofnun skólans

Fríða segir að allar listgreinar hagnist af því að vera kenndar á háskólastigi. „Listaháskólinn spannar öll fræðasvið lista nema kvikmyndagerð. Það þýðir í raun og veru að hægt er að læra til lista í hvaða grein sem er nema kvikmyndagerð, sem gerir það að verkum að kvikmyndagerð er í raun undirsett sem listgrein í okkar menningu.“

„Allar listir njóta góðs af því að komast á þetta háskólastig bæði vegna alþjóðlegra tenginga, dýptar fræðasviðsins, möguleika á rannsóknum og möguleika á fjármögnun. Fyrir utan auðvitað þann ávinning fyrir nemendur að fá háskólagráðu,“ segir Fríða og bætir við að Listaháskólinn hafi leynt og ljóst unnið að því að kvikmyndagerð yrði færð þar undir líkt og aðrar listgreinar frá stofnun skólans.

Hún bendir á að margar skýrslur hafi verið skrifaðar um málið, nú síðast skýrslu sem Listaháskólinn skilaði af sér í vor. „Fyrir ári síðan fengum við rúmlega þrjátíu milljónir til að hefja þennan undirbúning að stofnun kvikmyndadeildar og lukum þeirri vinnu á einu ári, skiluðum skýrslunni af okkur núna í vor. Við gerum sem sagt ráð fyrir að öllu óbreyttu að fá fjármagn til að hefja þá vegferð haustið 2021.“

Kvikmyndaskólinn vill einnig bjóða nám á háskólastigi

Kvikmyndaskóli Íslands hefur sótt um flýtimeðferð hjá mennta- og menningarmálaráðherra um að fá háskólaviðurkenningu fyrir næsta ár. Í síðustu viku var tilkynnt um að skólinn hefði gert leigusamning til tuttugu ára um húsnæði fyrir starfsemi sína að Suðurlandsbraut 18. „Þessi áform Kvikmyndaskólans eru eitthvað sem er nýtt fyrir mér,“ segir Fríða. Hún segist hafa efasemdir um að stofnun fleiri háskóla njóti stuðnings í samfélaginu.

„Ég hef ekki heyrt af því að það standi til að stofna áttunda háskólann á Íslandi. Við erum þegar með sjö háskóla sem allir hafa haft mjög mikið fyrir því að koma sér á þann stað að þeir njóti alþjóðlegrar viðurkenningar,“ segir hún.

„Þetta er ekki auðsótt vegferð og krefst töluverðra fjármuna. Háskólakerfið á Íslandi eins og það er er þegar fjársvelt. Mér er það til efs að það njóti stuðnings vítt og breitt í samfélaginu að stofna til fleiri háskóla,“ segir Fríða.

Sjá nánar hér: LHÍ áformar að koma á fót kvikmyndadeild á næsta ári

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR