spot_img

Kvikmyndabransinn á ís en unnið að þíðu

Kristinn Þórðarson formaður SÍK.

Kvikmyndabransinn er við frostmark þessa dagana eins og flestum má vera ljóst. En á bakvið tjöldin er ýmislegt í gangi, bæði umleitanir um mögulegan stuðning stjórnvalda við greinina gegnum hinn erfiða skafl, sem og undirbúningur verkefna sem geta farið í gang þegar samkomubanni lýkur, auk viðræðna um framtíð Bíó Paradísar.

Aukið fjármagn til skrifa og þróunar

Að sögn Kristins Þórðarsonar formanns SÍK standa nú yfir viðræður við menntamálaráðuneytið um aukið fjármagn til Kvikmyndamiðstöðvar sem notað yrði til þróunar verkefna og handritagerðar. Einnig er verið að skoða hvernig hægt sé að aðstoða þá sem hafa þurft að fresta verkefnum eða orðið fyrir fjárhagslegum áföllum útaf ástandinu.

Endurgreiðslan í 35%?

Þá er verið að vinna að lausn varðandi það fjármagn sem uppá vantar til að greiða út endurgreiðsluvilyrði síðasta árs. Jafnframt er rætt um að hækka endurgreiðsluna tímabundið til 18 mánaða í 35% (er nú 25%) og kynna það strax. Þannig væri hægt að fá verkefni til landsins strax í sumar eða haust þar sem gengið hefur einnig sigið. Litið er svo á að þetta gæti að einhverju leyti hjálpað ferðaþjónustunni og stjórnvöldum að auglýsa landið þar sem væntanlega verður lítið um túrisma á þessu ári, en erlend kvikmyndateymi gætu fyllt hótel á landsbyggðinni. Af samtölum við kvikmyndaframleiðendur má ráða að slík hækkun á endurgreiðslunni myndi auka mjög svigrúm til að ýta verkefnum úr vör.

Vonast er til að þessar aðgerðir líti dagsins ljós í næsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem verður kynntur eftir helgi. Fréttablaðið ræðir við Kristinn í dag og má lesa viðtalið hér.

Tökur framundan

Varðandi tökur á verkefnum þá er að minnsta kosti eitt stór verkefni á vegum True North á leiðinni. Fyrirhugað var að hefja tökur snemmsumars en því hefur verið frestað til ágústmánaðar. Auk þess eru ýmis smærri erlend verkefni á leiðinni.

Sagafilm stefnir að því að hefja tökur á þáttaröðinni Systrabönd í lok maí og framundan eru einnig tökur á þáttaröðinni Verbúð á vegum Vesturports. Tökur á nokkrum bíómyndum eru einnig fyrirhugaðar í sumar.

Opnar Bíó Paradís í haust?

Af stöðu Bíó Paradísar er það að frétta að ekki er fyrirsjáanlegt að það opni strax eftir að samkomubanni lýkur, enda jafnan lítil aðsókn yfir sumartímann. Hinsvegar er enn verið að ræða þann möguleika að opna bíóið aftur í haust. Borgin mun fyrir sitt leyti vera tilbúin með stuðning en viðræður standa enn yfir við ráðuneytið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR