Lestin um ÍSALÖG: Veitir innsýn í vanmátt grænlensku þjóðarinnar

„Með markvissri notkun á tungumáli og myndmáli, ásamt því að staðsetja virkni tveggja sögupersóna utan atburðarásar hins opinbera freista Ísalög þess að veita áhorfendum innsýn í vanmátt grænlensku þjóðarinnar,“ segir sjónvarpsrýnir Lestarinnar, Katrín Guðmundsdóttir, um sænsk-íslensku þáttaröðina Ísalög.

Katrín skrifar:

Frá því að Margrét II Danadrotting afhenti Grænlendingum sjálfsstjórnarlög árið 2009 hafa vangaveltur um mögulegt sjálfsstæði þjóðarinnar verið ítrekað til umræðu þar í landi og víðar. Eftir að afleiðingar loftslagsbreytinga urðu sýnilegri á Norðurslóðum hefur Grænland og framtíð þess jafnframt hlotið mikla athygli í alþjóðasamfélaginu. Vegna stjórnskipulagslegrar stöðu landsins hefur sú athygli aftur á móti átt það til að vera lituð af bæði yfirlæti og vanþekkingu stærri þjóða, sem sjá Grænland gjarnan sem pólitískt viðfang en ekki virka gerendur, þrátt fyrir að Grænlendingar séu viðurkenndir sem þjóð af alþjóðarétti. Til að mynda gerði Bandaríkjaforseti sig líklegan til að kaupa landið af Dönum á síðasta ári og þrátt fyrir að hugmynd hans hafi hlotið dræmar undirtektir víðs vegar um heim er hún kannski ekki svo fjarri viðutan viðhorfi heimsins til Grænlands og annarra afskiptra sjálfsstjórnarsvæða.

Grænland er í þessu samhengi viðfang sjónvarpsþáttaraðarinnar Ísalög (Tunn is), sem sýnd hefur verið á RÚV undanfarin sunnudagskvöld, en þar skrifa þrír íslenskir handritshöfundar sögu sem byggist á hugmynd sænskrar leikkonu og eru þættirnir framleiddir af bæði sænskum og íslenskum fyrirtækjum.

Sagan segir frá viðleitni Norðurskautsráðs til að skrifa undir sáttmála sem bannar olíuboranir á norðurheimskautssvæðinu. Sáttmálinn skal undirritaður á Grænlandi, sem er táknrænt fyrir annars vegar ósnortna náttúru og hins vegar ótvíræðar afleiðingar loftslagsbreytinga, þrátt fyrir að enginn fulltrúi Grænlendinga sitji í ráðinu – enda fara Danir með utanríkismál þjóðarinnar. Þar sem enginn Grænlendingur átti heldur sæti við borð handritsskrifanna er enn fremur hægt að líta svo á að landið sé aftur viðfang norrænna kvikmyndagerðarmanna, sem vilja með þáttaröðinni vekja athygli á forsjárhyggju Dana og annarra stærri þjóða í garð Grænlands. Eins undarlegt og það kann að hljóma.

Hvað sem öðru líður er ljóst að aðstandendum Ísalaga er umhugað um pólitíska hagsmuni Grænlendinga, því þótt loftslagsbreytingar og aðkallandi aðgerðir gegn þeim séu þungamiðja atburðarásarinnar er afskiptaleysi Norðurskautsráðs í garð Grænlands rauði þráðurinn í þáttaröðinni allri.

Til dæmis dregur tungumálið fram þetta tómlæti þegar danski utanríkisráðherrann kynnir sig aðeins sem fulltrúa Dana en ekki Grænlands fyrir grænlensku konunni Inu í upphafi ráðstefnunnar. Þegar hann svo hælir henni fyrir að tala góða dönsku, bendir Ina ráðherranum á að öll grænlensk börn læri dönsku í grunnskóla, enda var tungumálið opinbert í landinu fram til ársins 2009. Eins er sýnt hvernig utanaðkomandi stjórnmálamenn og aðrir opinberir erindrekar finna fyrir óöryggi þegar heimamenn tala grænlensku, þjóðtungu sína, í kringum þau. Óöryggi sem stafar vissulega af alvarlegum aðstæðum í atburðarásinni en einnig af eins konar samsæriskennd og samviskubiti vegna framkomu ráðsins í garð gestgjafanna. Að vísu víkur valdamisvægi þessara tveggja tungumála svo fyrir ensku, sem töluð er á öllum opinberum samkomum á ráðstefnunni, og kann sú staðreynd mögulega að segja sitt um raunverulegt stigveldi þjóðanna á alþjóðavettvangi. Bæði í söguheiminum og stjórnmálaheiminum sem hann byggist á.

Myndmálið varpar sömuleiðis ljósi á afstöðu Grænlendinga í garð ríkisstjórnanna og fyrirtækjanna sem sitja um land þeirra. Til að mynda má ekki aðeins túlka samtal sem grænlenski lögreglumaðurinn Enok á við dóttur sína um tíðari komur hvítabjarna í bæinn sem blákalda staðreynd um afleiðingar loftslagsbreytinga, heldur einnig myndlíkingu við ágirnd þessara ríkisstjórna og fyrirtækja í auðlindir Grænlands. Þar útsýrir Enok fyrir dóttur sinni að það hafi ekki þótt þörf á því að fylgja börnum í skólann þegar hann var ungur, því þá voru birnirnir ekki jafn svangir og komu þar af leiðandi sjaldnar til byggða. Þegar dóttirin segist ekki hafa orðið vör við neina birni nýlega fullvissar Enok hana um að þeir eigi eftir að koma, þeir komi alltaf. Og ísbjörninn kemur – og hann ógnar lífi bæjarbúa, hungraður eins og kapítalisminn sem ógnar vistkerfi Jarðarinnar.

Persónur Ísalaga standa ekki síður fyrir undirgefið samband Grænlendinga við Dani og hinar þjóðirnar í Norðurskautsráðinu. Það sést einna helst á áhrifaleysi Enoks þrátt fyrir að vera varðstjóri þegar upplausn verður á ráðstefnunni vegna mannráns. Þá er utanaðkomandi danskur lögregluforingi fenginn til að hafa yfirumsjón með málinu til að sýna alþjóðasamfélaginu hversu alvarlega Danir – og Grænlendingar – taka því. Sá virðir ítrekað að vettugi ráðleggingar og tillögur Enoks um hvernig haga skuli rannsókn málsins, jafnvel þótt hann hafi innsýn í bæði staðhætti og samfélagið. Vanmáttur Enoks gagnvart danska lögregluforingjanum, þegar hann reynir að bjarga bæði bænum sínum og fjölskyldu úr háska, kallast þannig á við vanmátt Grænlendinga gagnvart dönskum stjórnvöldum sem taka sæti í Norðurskautsráði án þess að ráðfæra sig við grænlensku ríkisstjórnina. Jafnvel þótt starf ráðsins snerti Grænland hvað mest.

Handritshöfundarnir eru meðvitaðir um landfræðilega og menningarlega fjarlægð sína við Grænland og er þessi sami vanmáttur því ítrekaður með vegferð söguhetjunnar Liv, sem verður eins konar fulltrúi teymisins sem stendur að þáttaröðinni, sem og annarra norrænna áhorfenda, þar sem hún er bæði sænsk og hefur takmarkaða tengingu við Grænland og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Rétt eins og í tilfelli Enoks upplifir Liv sig gersamlega áhrifalausa þegar manninum hennar er rænt í vinnuferð á Grænlandi. Mannránið kallast á við arðránið sem blasir við Grænlendingum og er lögfræðilegur vanmáttur Livar, sem ráðgerir að bjarga ástinni sinni utan sænskrar lögsögu, undirstrikaður á líkamlegan hátt með því að láta hana bera barn undir belti. Tilfinningaþrungnar tilraunir hennar til að hafa áhrif á aðgerðir stjórnvalda hafa þannig ákveðinn samhljóm með mótmælum Grænlendinga á ráðstefnunni og vanmætti þjóðarinnar gagnvart Norðurskautsráði, sem er í þann mund að taka afdrifaríka ákvörðun er varðar Grænland og framtíð þess.

Með markvissri notkun á tungumáli og myndmáli, ásamt því að staðsetja virkni tveggja sögupersóna utan atburðarásar hins opinbera freista Ísalög þess að veita áhorfendum innsýn í vanmátt grænlensku þjóðarinnar, sem getur ekki gætt hagsmuna sinna á alþjóðavettvangi fyrr en hún lýsir yfir sjálfstæði frá Danmörku. Það er flestum ljóst, sem fylgst hafa með sjálfstæðisbaráttu Grænlendinga, að forsenda sjálfstæðis er á þessu stigi málsins fyrst og fremst efnahagsleg. Viljinn er til staðar og vekur þáttaröðin athygli á því, nú þegar augu alþjóðasamfélagsins beinast í auknum mæli að Norðurslóðum og breytingum þeirra á tímum loftslagsbreytinga.

Sjá nánar hér: Veitir innsýn í vanmátt grænlensku þjóðarinnar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR