Berlinale 5: Ástir heiguls

Í fimmta pistli sínum frá Berlínarhátíðinni skrifar Ásgeir H. Ingólfsson um frönsku myndina Selta táranna (Le sel des larmes) eftir Philippe Garrel og segir hana afskaplega síníska mynd um ástina.


Selta táranna (Le sel des larmes) heitir frönsk mynd sem byrjar á strætóstoppistöð. Þar bíður Djermila (Oulaya Amamra) eftir strætó og Luc (Logann Antuofermo)  spyr til vegar, við erum í París en Luc er sveitastrákur í borginni, á leiðinni í inntökupróf í húsgagnasmíðaskóla. Það er einhver orka á milli þeirra, undirstrikuð af fallegri svart-hvítri myndatökunni.

Stemmarinn þarna í upphafi er raunar dálítið eins og í Before Sunrise, öðrum rómans sem hefst fyrir tilstilli almenningssamgangna. Já, og rétt upp hönd sem hefur komist á séns í umferðarteppu? Ég hélt ekki, niður með einkabílinn! Hann eyðileggur alla rómantík!

En þetta endist ekki mjög lengi. Bráðum kemur í ljós að þetta er eiginlega andstæðan við Before Sunrise – afskaplega sínísk mynd um ástina.

Luc er aðalpersóna myndarinnar og virkar afskaplega geðugur og almennilegur piltur við fyrstu kynni. En þegar á reynir þá verður hugleysið honum ávallt að falli. Þegar heim er komið er æskuástin Geneviève (Louise Chevillotte, sem lék einmitt aðalkvenhlutverkið í Samheitunum, sem vann Gullbjörninn á Berlinale í fyrra) nefnilega flutt aftur í smábæinn og sá neisti kviknar á ný.

Nú mætti vel vorkenna Luc fyrir klemmuna sem hann er kominn í, að þurfa að velja á milli tveggja kvenna sem hann kynntist á ólíkum skeiðum ævinnar – og valið er erfitt, enda eru báðar gullfallegar og sjarmerandi, virka afskaplega gegnheilar og góðar manneskjur báðar í þokkabót.

En það kemur svo í ljós að Luc er það ekki. Langsterkasta og átakanlegasta sena myndarinnar er þegar maður áttar sig á því, á sama tíma og hún Djermila, að þótt hún sé sæt þá á múslimastelpa alltaf eftir að tapa fyrir hvítu æskuástinni þegar kemur að gaurum eins og Luc.

Þetta gerist vel að merkja allt í fyrri hluta myndarinnar – sem er um margt sterkur, hún sýnir vel hvernig heigulsháttur bitnar á öllum, en þó kannski minnst á honum, en lifir þó mest á því að þær Djermila og Geneviève eru heillandi persónur.

En ég átti eftir að minnast á sögumanninn, sem fer lítið fyrir en hvíslar stundum upplýsingum til okkar – og um miðja mynd þá segir hann okkur að loks sé komið að Luc að hitta jafnoka sinn. Ég klóraði mér aðeins í hausnum, Djermila og Geneviève voru augljóslega alltof góðar fyrir hann – hvað á sögumaðurinn við með jafnoka? En þá kemur Betsy til sögunnar, sæt eins og hinar, en fljótlega kemur í ljós að hún er einmitt jafnoki Luc því hún er sami heigullinn, álíka samviskulaus og tillitslaus í ástum.

Sem er forvitnilegt í sjálfu sér – en myndin deyr dálítið við þetta. Rómantískar ástir og harmur er ágætis bíó ef maður hefur einhverja lágmarks samkennd með annarri hvorri persónunni, en Luc og Betsy eiga einfaldlega hvort annað skilið – en djöfull myndi maður vilja að kvikmyndatökuvélin myndi frekar dvelja lengur hjá Djermila eða Geneviève.

Já, eða pabba Luc. Þversögnin varðandi persónu Luc er hvað hann á skrambi góðan pabba. Pabbinn er orðinn háaldraður en er ljóðræn sál og það sem meiru skiptir, hugrakkur og gegnheill í öllu sem hann gerir, ólíkt syninum. Þótt þeir séu mjög nánir. Þannig er myndin kannski á endanum um það, um son sem mistekst herfilega að verða föðurbetrungur, son sem áttar sig á endanum á að hann er ekki verðugur sonur – sem er mögulega sárara en öll ástarsorg.

Eftir mynd varð ég sannferða frönskumælandi félaga á blaðamannafund, þar sem ég ákvað að sleppa túlkatækinu og prufa bara að ráða í líkamstjáninguna frekar. Og frá því er kannski helst að segja að þar var hún Souheila Yacoub, sem lék Betsy, sú sem var langmest sjarmerandi – ágætis áminning um að ruglast ekki um of á persónum og leikendum.

Sjá nánar hér: Berlinale 5: Ástir heiguls

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR