Berlinale 4: Uggur og andstyggð í Japan

Í fjórða pistli sínum frá Berlínarhátíðinni fjallar Ásgeir H. Ingólfsson um bandarísku myndina Minamata eftir Andrew Levitas með Johnny Depp í aðalhlutverki.


Johnny Depp hefur verið dálítið í ruglinu undanfarin misseri og myndirnar hafa verið hver annarri verri, þessi gamli stórleikari hefur oft virst dálítið staðnaður. Gamla indístjarnan orðin að nánast brjóstumkennanlegri fuglahræðu, þegar hann reynir að halda í æskublómann með misjöfnum árangri.

En í Minamata birtist okkur skyndilega eldri og gráhærðari Depp. Hann leikur hér einn frægasta ljósmyndara mannkynssögunnar, W. Eugene Smith, sem var á sínum tíma ein stærsta stjarna Life Magazine, þess merka blaðs sem var einn mikilvægasti vettvangur ljósmyndablaðamennsku heimsins.

En árið 1970 er farið að síga á síðari hluta ferils Smith – og Life er í kröggum. Hann er orðinn drykkfelldur og virðist vera að fara í hundana, myndir úr gömlum stríðum, bæði þær sem hann tók og þær sem hann tók ekki, ásækja hann í svefni.

Depp er kvikur en óöruggur í hreyfingum – æskuþrótturinn er þarna enn undir öllu búsinu, og Depp er á hárréttum aldri til að leika akkúrat þetta hlutverk, mann sem útlitslega er eldri en hann en líkamlega álíka sprækur – enda verða spítukallar seint fimir stríðsljósmyndarar. Og karakterinn kallast skemmtilega á við Hunter S. Thompson úr Fear and Loathing in Las Vegas, þótt Smith sé vissulega ekki á jafn sterkum efnum.

Fyrst framan af er þetta eins og rökkurmynd: dularfull japönsk kona kemur inn í líf hans á fölskum forsendum, en tælir hann svo með tilboði sem hann getur ekki hafnað: síðasta stóra skúbbinu. Hún er frá Minamata, 25 þúsund manna sjávarþorpi í Japan – þar sem börn fæðast með skelfilega fæðingargalla vegna eitrunar, það er eitthvað mjög vafasamt í vatninu sem enginn vill gangast við. En allir vita samt að ábyrgðin liggur hjá Chisso-efnaverksmiðjunni, sem vel að merkja býr meðal annars til framköllunarvökvann sem Smith notar.

Okkar maður segist vitaskuld hættur allri slíkri ævintýramennsku – en snýst vitaskuld hugur og selur ritstjóranum hugmyndina. Samband þeirra væri raunar efni í heila bíómynd út af fyrir sig, er kómískt á köflum en á lykilstundu síðar í myndinni áttar maður sig á að þeir eru síðustu stríðsmennirnir í baráttu fyrir alvöru blaðamennsku, eins og þeir þekkja hana, fyrir sjónvarp og þá framtíðarfantasíu sem internetið var á þeim tíma.

Þegar til Japan er komið þá er maður vissulega dálítið hræddur: er þetta að fara að breytast í enn eina myndina um hvíta bjargvættinn? Og saga stjörnu-stríðsljósmyndaranna er auðvitað dálítið sú saga, þeir voru flestir hvítir Ameríkanar og því er það í raun nánast innbyggður galli. En þarf þó ekki að vera galli, ef kvikmyndagerðarmenn sýna heimamönnum alvöru virðingu og gleyma ekki að þeir eiga sínar lókal-hetjur líka, sem gera ekki síðri kraftaverk en Smith gæti gert.

Það eru meira að segja langar senur nær eingöngu á japönsku, eitthvað sem kann því miður að gera út um möguleika myndarinnar á að slá í gegn, en vonandi er sá raunveruleiki breyttur eftir að Sníkjudýrið kóreska vann Óskarinn.

Sögusviðið er áhrifaríkt fyrir mynd um ljósmyndara – og mann dauðlangar einfaldlega að kaupa sér flugmiða þegar maður gengur með Smith eftir ströndum Minamata. Það hvernig hann hreyfir sig og leitar að myndefni er óvenju sannfærandi sýnt, ólíkt ansi mörgum myndum um listamenn er þetta mynd sem skilur list ljósmyndarans ansi hreint vel og leyfir sér að birta hana með fjölbreyttum hætti.

Nostalgían er við völd í rauðum bjarma myrkrakompunnar, sem krakkarnir ættu núna að vita hvað er, ef þau hafa sinnt heimanáminu og horft á Stranger Things 3.

En galdurinn er samt helst þessi: þegar ljósmyndarinn beygir sig og biður um leyfi með augunum – og smellir svo af. Maður áttar sig á hvað gæti eiginlega verið myndrænt í máli þar sem maður ímyndar sér fyrst að stóri skandalinn liggi í gömlum skjölum sem reynt hefur verið að fela (og þau finna vissulega líka slík skjöl). Eins verður maður forvitinn um hvernig þetta var unnið í gamla daga, hvernig kom hann myndunum hratt og örugglega heim til Ameríku, hvernig var samstarfi hans og japanska kvikmyndagerðarmannsins háttað, þarna fyrir tíma fjölmiðlasamsteypanna eins og við þekkjum þær?

En þótt hinn almenni borgari taki honum fagnandi þá svífst þetta stórfyrirtæki einskis. Við Íslendingar getum kannski ímyndað okkur Kárahnjúka eða kaupfélagsstjórann í Héraðinu – og margfaldað ófyrileitnina með hundrað. Þetta eru hákarlar sem einskis svífast, mafíósar í gervi bisnessmanna. Jafnvel þótt frægur ljósmyndari sé í heimsókn hika þeir ekki við að beyta öllum brögðum til að hindra hann í starfi.

Myndin tekur svo hárréttan pól í hæðina með að þykjast ekki vera einstakari en hún er, þvert á móti má lesa meðfram kreditlistanum um ótal slíka mengunarskandala, víðs vegar í heiminum, sem hafa eyðilagt heilsu íbúa á mismunandi hátt.

Sem fyrr segir kallast myndin á við Fear & Loathing in Las Vegas, gæti vel útleggst sem Uggur og andstyggð í Japan á íslensku. Og mann dreymir óneitanlega um að þeir samtímamennirnir, Thompson og Smith, hafi hist og spáð í hvort Johnny Depp gæti nú ekki náð þeim vel þegar fram liðu stundir?

Munurinn er þó helst þessi: það hafa flestir löngu gleymt hvaða sögu Thompson var að elta, enda var sagan í hans tilfelli hann sjálfur. En Minamata fjallar svo sannarlega um fréttaefnið sjálft og japanskar persónur sögunnar fá sitt pláss og fá að vera hetjur líka. Og skúrkar, andlitslaus yfirmaður efnaverksmiðjunnar sést vissulega – en hann er samt andlitslaus, þetta andlit er bara ljósrit af síðustu ársskýrslu.

Verkalýðsleiðtoginn, kvikmyndagerðarmaðurinn og áhugaljósmyndarinn – sem er með Minamata-veikina – eru ljóslifandi persónur og Minami stelur myndinni ítrekað í hlutverki hinnar dularfullu Aileen, sem fær Smith til Japan til að byrja með. Gott ef hún er ekki búin að sannfæra mig um að kíkja í heimsókn líka bráðum.

Source: Berlinale 4: Uggur og andstyggð í Japan

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR