spot_img

Berlinale 3: Trámatíseraðir leikskólastarfsmenn og fallhlífastökk

Í þriðja pistli sínum frá Berlínarhátíðinni skrifar Ásgeir H. Ingólfsson um kanadísku myndina Anne at 13,000 ft. (eða Anna í 3962 metra hæð, svo þýtt sé yfir í metrakerfið).


(Hér ruglast tímaröðin – þetta var í raun fjórða og síðasta myndin sem ég sá fyrsta daginn á Berlinale, en þar sem það er ennþá embargó á nýju Johnny Depp myndinni þá verður þessi að vera númer þrjú á internetinu)

Kanadískt bíó á það til að renna saman við það ameríska, þegar Hollywood fær til sín alla bestu leikstjórana þaðan á endanum. Eða gefur þeim í það minnsta tilboð sem þeir geta ekki hafnað, þótt sumir hafni því bara samt. Og þótt fransk-kanadíska bíóið hafi sína sérstöðu þökk sé tungumálinu á kanadíska indíið það til að týnast dálítið.

Sem er synd, það virðist einhver mjög sérstakur náttúrulegur sósíal-realismi í gangi í ensk-kanadísku indí-senunni sem minnir jafnvel aðeins á rúmensku nýbylgjuna. Svona ef það er eitthvað að marka þá lúmsk mögnuðu mynd The Body Remembers When the World Broke Open og svo þessa, Anne at 13,000 ft. Eða Anna í 3962 metra hæð, svo þýtt sé yfir í metrakerfið.

Anna þessi er að prófa fallhlífastökk snemma í myndinni – en titillinn vísar þó kannski alveg eins í lofthræðsluna sem fylgir starfinu hennar á leikskólanum. Það er kannski rétt að vara fólk við: ég hataði myndina fyrstu fimm mínúturnar. Hrist myndatakan fór í taugarnar á mér, sem og flestar persónurnar. En svo nær hún manni alveg, því þegar á líður fer maður að finna að myndavélin fylgir einfaldlega sögunni – og það sem meiru skiptir: myndin fer að verða launfyndin á hreint yndislegan hátt.

Húmorinn byrjar að læðast fram á einstaklega misheppnuðu Tinder-deiti og fer svo á virkilegt flug þegar hún Anna hittir fyndin strák í brúðkaupi bestu vinkonunnar og upphefst alvöru rómans, sem virkar fyrst og fremst af því þau eiga húmor saman, húmor sem leikstjórinn nær ótrúlega vel að fanga.

En það er þó heilmikil alvara á bak við. Anna er á einhverju rófi sem er aldrei útskýrt beint, eða að glíma við einhvern harm. Hún leggur mikið upp úr að vera fyndin, en þegar fólk tekur brandarana hana bókstaflega er stutt í dramakast eða jafnvel taugaáfall. Maður er aldrei alveg með á hreinu hvað plagar hana, sem gerir þessar senur bara sterkari – við vitum ennþá síður en hinar persónurnar, sem þurfa að glíma við hana, hver réttu viðbrögðin eru.

Þá vinnur hún á leikskóla og það er stór hluti af myndinni. Krakkarnir eru bæði drepfyndnir, sérstaklega stráksi nokkur sem er Jaws og hákarla á heilanum, en þau eru líka hávær og erfið, þetta er vinna í sífelldum hávaða, með sífellt áreiti, þar sem þú, sem fullorðna manneskjan (jafnvel þótt þú sért bara rétt að byrja að læra að vera fullorðin eins og Anna), þarft að halda ró þinni í öllum aðstæðum.

Samstarfskonur hennar eru líka sannfærandi teiknaðar upp, reglufastur eldri starfsmaður sem Anna þolir ekki, besta vinkonan sem hún elskar og leikskólastjórinn sem reynir að halda friðinn.

Og núna þegar myndir utan Hollywood koma með krafti inn í þjóðfélagsumræðuna, með tali um trigger-viðvaranir og annað slíkt, þá finnst manni í aðra röndina að myndin gæti verið ágætt innlegg inn í kjarabaráttu leikskólakennara – en gæti verið triggerandi líka, svona rétt eins og Elle.

Sjá nánar hér: Berlinale 3: Trámatíseraðir leikskólastarfsmenn og fallhlífastökk

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR