Berlinale 2: Maðurinn sem dó úr kurteisi og hrun Evrópska heimsveldisins

Í öðrum pistli sínum frá Berlínarhátíðinni fjallar Ásgeir H. Ingólfsson um rúmensku myndina Malmkrog eftir Cristian Puiu (Dauði Hr. Lazarescu).


Eftir lauflétta opnunarmyndina var svo komið að alvöru lífsins. Nánar tiltekið þriggja klukkutíma og 20 mínútna langri rúmenskri mynd byggð á hundrað ára gömlu rússnesku heimspekiriti eftir Vladimir Solovyov (ég læt mynd af honum fylgja), sem útlegst sem svo: „Stríð, Framfarir og endalok sögunnar: Þrjár samræður, þar með talin smásaga um antí-krist.“

Með öðrum orðum, bring the popcorn!

Myndin heitir samt bara Malmkrog, eftir samnefndu rúmensku þorpi, eitt af fáum tilfellum þar sem leikstjórinn ákvað að stundum mætti alveg stytta. Leikstjórinn er sumsé hann Cristian Puiu, sem vann sanngjarnan sigur í árdaga RIFF með hinni prýðilegu ræmu Dauði Hr. Lazarescu.

En Malmkrog er þolraun. Það er alveg góð 50 mínútna mynd þarna, einhvers staðar í þessum 200. Ég kannski reyni að finna þær hérna fyrir ykkur.

Byrjunin er frábær. Falleg vetrarsena – og maður veit ekki ennþá alveg hvar við erum stödd eða hvaða ár er – og hugsaði ósjálfrátt: hvað er langt í að snjór í sunnanverðri Evrópu verði nokkuð örugg vísbending um að búningadrama sé að ræða? Kannski erum við komin þangað nú þegar?

En svo kíkjum við inn og þar eru vel klæddir aristókratar að rökræða. Ekki rífast, til þess eru þeir alltof sívíleseraðir. Þeir rökræða um stríð og frið og maður hugsar fyrsta klukkutímann: fólk skrifaði kannski svona einhvern tímann, en það hefur engin manneskja í mannkynssögunni talað svona í alvörunni. Þess utan virka þessar rökræður ansi úreltar, þetta eru rökræður um stríð fyrir báðar heimstyrjaldirnar – þegar það þótti enn tæk skoðun í menntamannakreðsum að kalla stríð göfug.

Maður er pínu tungumálavilltur, myndin er rúmensk, hér tala allir þó frönsku en kalla sig Rússa – og stöku sinnum er gripið til þýsku og ungversku. Þetta virðist vera einhver skrítin tungumálaeyja, hverju sem veldur.

Það er svo eitt ofbeldisfullt og óvænt atriði í miðri mynd – en annars er hún öll svona, meira og minna. En verður þó aðeins forvitnilegri þegar á líður og þau fara að skipta um umræðuefni. Þar má kannski helst nefna þrjú dæmi.

1: Undir lok myndar er annar karlinn, sem mann grunar að aðhyllist trúleysi án þess að vera viss, að segja ungu stúlkunni Olgu frá því af hverju trúarkenningar hennar standist ekki skoðun. Flestar röksemdirnar þegar þarna er komið sögu eru ansi langsótt guðfræði – en það skiptir minna máli, það sem skiptir minna máli er að jafnvel trúleysinginn ég hélt nú aðeins með stelpunni, af þeirri einföldu ástæðu hvernig hann talaði til hennar. Hrútskýring var líklega ekki orðið orð ársins þarna, en þetta var sannarlega prýðilegt dæmi um slíkt.

2: Um miðja mynd er skemmtilegasta saga myndarinnar. Einn gesta rifjar upp sögu af manninum sem dó úr kurteisi. Manni sem vann á dagblaði og las og skrifaði rýni um hverja einustu bók og hvern einasta auma bækling sem rataði inná blaðið og svaraði öllum bréfum. Sem var svo endalaus og sálarkremjandi vinna að hann þurfti bokkuna til að gera lífið bærilegt – en eftir að hann þurfti að hætta að drekka um fertugt af heilsufarsástæðum varð lífið óbærilegt og hann skaut sig í hausinn. Í staðinn fyrir að vera ókurteis og svara ekki öllum erindum.

Og ég hugsaði með mér: er þetta áskorun, til okkar þeirra sem forðumst í lengstu lög að yfirgefa bíóið, jafnvel þegar myndin er vond? Jafnvel þegar hún er heilar 200 mínútur og maður gæti verið að gera ýmislegt annað sniðugt? Ég íhugaði alvarlega að taka hann á orðinu, en tja, var auðvitað of samviskusamur á endanum. Prinsipp eru prinsipp!

3: Stuttu eftir þessa sögu þá fer einn gesturinn að útskýra af hverju Evrópa sé sögnin fyrir Rússland. Manneskja er of breitt, þeir eigi lítið sameiginlegt með Kínverjum eða Papúum. Evrópa eigi Schiller og Göthe og Shakespeare og Púshkin. Hann útilokar þó alls ekki að hægt sé að mennta skrælingjana, jafnvel Kínverjana. Það er hrollvekjandi að hlusta á þetta, þar sem ísköldum rökum heimspeki þess tíma – og ást á menningu sömuleiðis, eru notuð sem rök fyrir rasisma og nýlendustefnu aldanna.

Og einhvern veginn þarna renndi mig í grun um hvað myndin raunverulega væri – og jafnvel hvað hún ætti í raun að heita, þarna við endalok sögunnar, rétt fyrir Heimstyrjöldina fyrri, þegar nútímasagan var í raun rétt að byrja. Þetta er hið sanna nafn myndarinnar, þetta er það sem hún er um:

„Þegar Evrópska aristókrasíu-inteligensían týndist uppi í eigin rassgati – rétt áður en hún sprengdi hálfa álfuna í loft upp.“

Sjá nánar hér: Berlinale 2: Maðurinn sem dó úr kurteisi og hrun Evrópska heimsveldisins

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR