spot_img

Verðlaun Sólveigar Anspach fyrir stuttmyndir eftir konur veitt í fjórða sinn á Frönsku kvikmyndahátíðinni

Kvikmyndaverðlaun Sólveigar Anspach verða veitt í fjórða sinn á Frönsku kvikmyndahátíðinni sem hefst 24. janúar. Að þessu sinni bárust hvorki fleiri né færri en 100 stuttmyndir í keppnina. Verðlaununum er ætlað að hvetja konur til dáða í kvikmyndagerð og eru veitt konum sem eru að stíga sín fyrstu skref í leikstjórn og eiga mest þrjár myndir að baki. Ein verðlaun verða veitt fyrir bestu stuttmynd á íslensku, önnur fyrir þá bestu á frönsku.

Skáldið Sjón stýrir dómnefndinni og eru eftirtaldir fimm þátttakendur komnir í úrslit:

  • Andrée-Anne Roussel, Kanada (Astres),
  • Ève-Chems de Brouwer, Frakklandi (Sous l’écorce),
  • Katla Sólnes, Íslandi (Að vori),
  • Naïla Guiguet, Frakklandi. (La Peau Dure) og
  • Ninna Pálmadóttir, Íslandi (Blaðberinn).

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhendir verðlaunin þann 30. janúar kl. 17:50 í Bíó Paradís. Sýndar verða myndirnar fimm sem nefndar eru hér að ofan áður en verðlaunin sjálf verða afhent. Að athöfn lokinni er boðið í móttöku í bíóhúsinu. Aðgangur er öllum opinn og kostar ekkert inn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR