Franska kvikmyndahátíðin heldur uppá tuttugu ára afmælið í Bíó Paradís

Úr Mynd af brennandi stúlku eftir Céline Sciamma.

Óvæntir atburðir, ástabrall og samskipti kynjanna, ranglæti og réttarmorð, absúrdismi, ráðabrugg og glæpaverk eru meðal viðfangsefna í kvikmyndum 20. frönsku kvikmyndahátíðarinnar, sem fram fer í Bíó Paradís frá 24. janúar til 2. febrúar. Mynd af brennandi stúlku (Portrait d‘une jeune fille en feu) eftir Céline Sciamma og Ég ákæri (J‘accuse) eftir Roman Polanski eru hápunktar úrvalsins.

Opnunarmyndin er Fagra veröld (La Belle Époque), sérlega ljúf og fyndin mynd um mann sem fær að hverfa aftur til þess tíma sem honum er dýrmætastur.

Yrsa Sigurðardóttir, drottning íslenskra glæpasagna, kynnir tvær klassískar glæpamyndir frá 5. og 6. áratug síðustu aldar, eftir Henri-Georges Clouzot, Morðinginn býr í nr. 21 (L‘Assassin habite au 21) og Forynjurnar (Les Diaboliques). Þessar myndir höfðu mikil áhrif á gerð glæpamynda í heiminum og sú síðari var innblástur höfundar bókarinnar Psycho og Alfreds Hitchcocks sem gerði samnefnda mynd.

Ég ákæri (J‘accuse) eftir Roman Polanski, gerð eftir bók hins þekkta breska rithöfundar Roberts Harris, fjallar um Dreyfusmálið, stærsta hitamál Frakklands í lok 19. og upphafi 20. aldar.

Mynd af brennandi stúlku (Portrait d‘une jeune fille en feu) eftir Céline Sciamma hefur vakið gríðarlega athygli á undanförnum mánuðum og er meðal annars tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Kona, sem fengin er til að mála með leynd tilvonandi brúði á 18. öld, kynnist nýjum hliðum lífsins. Myndin hlaut Queer Palm í Cannes.

Kvikmyndahátíðin gaf áhorfendum kost á að velja á milli átta eldri mynda til að sýna á 20 ára hátíðarkvöldinu og Amélie var kosin með miklum yfirburðum. Þessi mynd um stúlkuna sem öllum vildi vel var gerð fyrir tæpum 20 árum og fór þá sigurför um heiminn. Hún er að jafnaði á listum yfir bestu myndir sem gerðar hafa verið.

Sýningartíma og dagskrá má finna hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR