Rúnar Rúnarsson: Klikkuð fegurð hversdagsins

Rúnar Rúnarsson (mynd Fréttablaðið/Anton Brink)

Rúnar Rúnarsson spjallar við Þórarinn Þórarinsson hjá Fréttablaðinu um mynd sína Bergmál.

Úr viðtalinu:

Myndirnar mínar hafa hingað til verið tiltölulega þungar og mér hefur fundist erfitt að vinna með húmor,“ segir leikstjórinn Rúnar Rúnarsson sem gerði stormandi lukku og heillaði gesti kvikmyndahátíða víða um lönd með fyrstu tveimur bíómyndum sínum, Eldfjalli frá 2011 og Þröstum sem flugu hátt 2015 en þótti tefla á tæpasta vað þegar hann ákvað að fylgja velgengninni eftir með furðuverkinu sem Bergmál er.

„Við lögðum upp með 60 atriði í handriti en ætli við höfum ekki skotið svona 40-50 auka og af þessu enda 58 í myndinni þannig að það var hellingur afgangs.“ Klipping myndarinnar var eins og gefur að skilja heldur flókin og Rúnar segir heilmiklar pælingar hafa farið í að velja og hafna, ná upp „tempói“ og skapa heild úr öllum þessum brotum.

„Ef myndinni er líkt við bókmenntir mætti kannski segja að þetta sé einhvers konar samblanda af smásagnasafni og ljóðabók,“ segir Rúnar sem einhverjir töldu klikkaðan þegar hann ákvað að snúa baki við stöðluðum frásagnarhætti og leggjast í bútasaum.

„Flestar bækur og bíómyndir segja eina sögu oft með eina aðalsöguhetju sem við sjáum þroskast einhvern veginn á leiðinni. Það eru samt alveg upphaf, miðja, ris og endir í þessari mynd þrátt fyrir að samfélagið sjálft sé aðalpersónan.“

Alvarlegur húmoristi
Eins og Rúnar bendir á skilur fleira en frásagnarhátturinn þessa mynd frá öðrum verkum hans þar sem hér bergmálar óvæntur hlátur á og frá ólíklegustu stöðum og senum í myndinni.

„Bergmál er líka fyndin og aldrei þessu vant er fólk líka alveg að hlæja yfir þessari mynd,“ segir Rúnar sem hefur orðið áberandi var við þau ólíku áhrif sem sögubrotin hafa á fólk. Það sem einum finnst fyndið finnst öðrum til dæmis fáránlegt eða sorglegt.

Hann segir ekki síst skemmtilegt að fylgjast með viðbrögðum áhorfenda við Bergmáli í ljósi þess hvernig bíómyndir ferðast almennt á milli menningarheima. Hvar og hvenær fólk hlær og hlær ekki. „Á Spáni þótti til dæmis alveg drepfyndið að verið væri að núllstilla skiltið yfir fjölda látinna í umferðinni uppi á Hellisheiði en síðan þekki ég fólk á Íslandi, sem tengir við er atriðið, og grét.“

Þú segir fólk aldrei þessu vant hlæja. Ert þú ekkert fyndinn svona yfirleitt?

„Ef maður skrifar eitthvað sem er fyndið og fer svo maður í ári síðar þá bara finnst manni sjálfum þetta ekkert fyndið lengur og straujar það bara út úr senunni,“ segir Rúnar um glímuna við grínið sem í eðli sínu er háð tíma og rúmi.

„Aðferðirnar voru aðeins frjálslegri að þessu sinni þannig að það var hægt að spinna og bæta einhverju við. Mér finnst hellingur af alls konar hlutum í myndunum mínum vera fyndnir en það eru einhverjir svona fíflar sem ég veltist um af hlátri yfir þótt fáir aðrir geri það,“ segir Rúnar sem telur sig hafa ágætis húmor þótt hann kunni að vera sérstakur.

Fer þangað sem hann nennir
Rúnar segir að þrátt fyrir allt og meina klikkun gunnhugmyndarinnar hafi honum gengið merkilega vel að fjármagna Bergmál. „Þetta gekk ágætlega til að byrja með en á síðustu metrunum varð aðeins erfiðara að fjármagna þessa mynd og koma þessu í framkvæmd,“ segir Rúnar sem telur ástæðuna eðlilega þótt hún sé einhvers konar þversögn.

„Út af því að það er alveg sama þótt ég sé nú flokkaður sem listrænn leikstjóri þá ræður bara þetta almenna þegar ég breyti út af vana mínum. Núna skil ég líka vini mína sem eru tónlistarmenn. Það er alltaf búist við því að næsta plata verði næstum alveg eins og plöturnar á undan. Bara aðeins breyttar. Ég reyni bara alltaf að elta nennuna en ég held að sem einhvers konar listamanni sé manni mikilvægt að gera það.“

Rúnar talar hér ekki alveg út í bláinn þar sem hann hefur reynt ýmis meðul til þess að finna sköpunarþörfinni réttan farveg. „Ég byrjaði ungur eitthvað að reyna að tjá mig með myndlist, tónlist og hinu og þessu en það var ekki fyrr en ég gerði fyrstu stuttmyndina að öll þessi form komu saman.

Eftir það hef ég alltaf reynt að elta nennuna en það kom mér svosem á óvart að hún leitaði í þessa átt vegna þess að á blaði virkar þetta kannski ekki eins og eitthvað sem maður ætti endilega að gera.“

Skemmtilega óvænt
Rúnar var ekki einn um að finnast stefna nennu sinnar undarleg en hann og hugur hans hafa eftir Bergmál fengið uppreist æru og endurnýjað heilbrigðisvottorð.

„Það er nokkuð um að fólk segi mér að það hafi haldið að ég væri algerlega klikkaður en skilji fyrst núna hvert ég vildi fara með þessari mynd. Bergmál er að koma fólki skemmtilega á óvart sem er náttúrlega bara alveg frábært og ég er voða stoltur af þessari mynd og viðbrögðin sem ég hef fengið eru hugsanlega þau bestu sem ég hef fengið við verkum mínum.“

Sjá nánar hér: Klikkuð fegurð hversdagsins

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR