Menningin um „Bergmál“: Helgimynd úr hversdagsleikanum

„Djörf og flott tilraun og heildarútkoman er einkar áhrifarík,“ segir Heiða Jóhannsdóttir gagnrýnandi Menningarinnar á RÚV um Bergmál Rúnars Rúnarssonar.

Heiða segir í umsögn:

Það eru áhugaverðir tímar í íslenskri kvikmyndagerð um þessar mundir, og hafa undanfarin ár verið einkar gjöful hvað vandaða og fjölbreytilega kvikmyndagerð varðar. Þessi gósentíð einkennist ekki síst af aukinni tilraunamennsku í nálgun við kvikmyndaformið og hefðbundin umfjöllunarefni. Bergmál, nýjasta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Rúnars Rúnarssonar, er sannarlega dæmi um það.

Rúnar hefur skipað sér ákveðinn sess í íslenskri kvikmyndahefð og hafa verk hans hlotið mikla viðurkenningu heima og erlendis. Það þótti ekki síst eftirtektarvert þegar stuttmynd hans, Síðasti bærinn, hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna í flokki erlendra stuttmynda. Þar má segja að Rúnar hafi markað sér ákveðna stefnu því að Síðasti bærinn myndar sterkt samtal við miðlæg hugðarefni íslenskrar kvikmyndahefðar, þar sem horft er til fulltrúa hverfandi gilda og félagsgerðar í nútímasamfélagi, þema sem endurómar að nokkru leyti í gegnum myndirnar Eldfjall og Þresti.

Í Bergmáli hristir Rúnar hressilega upp í því formi sem hann hefur unnið mest með, það er leiknu frásagnarmyndinni, auk þess sem landsbyggðarfókusinn víkur fyrir breiðari skoðun á íslenskum samtíma. Bergmál er nokkurs konar brotafrásögn. Hún samanstendur af fimmtíu og átta örsögum úr hversdeginum á jólaaðventu, og nær hámarki þegar sjálf jólahátíðin gengur í garð. Með þessari aðferð er dregin upp nokkurs konar mósaíkmynd af íslensku samfélagi en atriðin eru mislöng, allt frá nokkrum sekúndum upp í 2-3 mínútur. Formið kallast að vissu leyti á við þematísk stuttmyndsöfn, eða sagnasveiga í anda Roberts Altmans, en stígur þó skrefinu lengra í tilraunamennsku. Hver saga er sjálfstæð frásögn sem ekki er horfið aftur til í framvindu myndarinnar. Hins vegar er þematískum tengingum markvisst beitt til þess að skapa myndinni sterka heild. Aðventan og jólin eru strengurinn sem binda sögurnar saman. Þar birtast okkur hefðir og fastir liðir þess þjóðlífs sem við flest þekkjum en einnig er litið í króka og kima sem velta upp öðrum sjónarhornum á það velferðar- og velsældarsamfélag sem Ísland gefur sig út fyrir að vera.

Frumleg formtilraun
Formið sem hér er unnið með kallar fram margbreytilega þætti kvikmyndamiðilsins á vel heppnaðan máta. Í stuttum frásagnareiningum myndarinnar eru sviðsmynd, hljóð, kvikmyndataka og klipping nýtt til þess að segja mikið um viðfangsefnið á stuttum tíma. Á meðan hið sjón- og hljómræna er oft undirskipað ákveðinni söguframvindu og persónusköpun í hefðbundnu frásagnarkvikmyndinni, er aðferðin í Bergmáli til þess fallin að færa fjölbreytilega eiginleika kvikmyndamiðilsins í forgrunn. Dæmi um slíkt atriði er undurfagurt opnunaratriði myndarinnar, sem sýnir okkur jeppabifreið renna í gegnum upplýsta bílaþvottastöð í myrkasta skammdeginu. Ferlinu þar sem sjálfknúnir kústar lifna við hver á fætur öðrum og hreinsa bílinn hægt og dyggilega er tvinnað saman við frumsamda tónlist Kjartans Sveinssonar og undirstrikar sú samsetning ákveðið leiðarþema myndarinnar sem stefnir saman hinu upphafna og hinu hversdaglega.

Fáguð, afgerandi og ljóðræn kvikmyndataka Sophiu Olsson, sem hefur unnið með Rúnari í fjölmörgum verkefnum, nýtur sín einkar vel í Bergmáli. Tökuvélin er kyrrstæð og hvergi er klippt innan atriða, en þannig eru búin til ákveðin áhrif, líkt og að áhorfendum gefist tilviljunarkennd sjónarhorn til að virða fyrir sér ólík brot úr veruleikanum. Sköpuð er nokkurs konar „fluga á vegg“-tilfinning sem kallast á við það tilraunakennda frásagnarform sem lýsa mætti sem nokkurs konar blendingi leikinnar frásagnarkvikmyndar og heimildarmyndar en þar fer Rúnar Rúnarsson mjög frjálsum höndum um mörkin milli þessara tveggja kvikmyndategunda. Skáldaða kvikmyndin er í forgrunni, en ýmis stílbrögð og óvenjulegar aðferðir skapa ákveðna beintengingu við veruleikann sem reynt er að nálgast.

Þannig eru sögurnar allar sóttar í íslenskan veruleika, með tökustöðum sem margir eru á raunverulegum heimilum og vinnustöðum, og í sumum atriðum eru atburðum gerð skil sem komið hafa upp í þjóðmálaumræðunni. Vikið er að öllu frá meðferð hælisleitenda hér á landi og misnotkun á erlendu starfsfólki starfsmannaleiga, til matarúthlutana fyrir þann stóra hóp Íslendinga sem býr við fátækt. Í átakanlegu atriði við símaborð Neyðarlínunnar aðstoðar fulltrúi 112 barn sem hringir inn vegna heimilsofbeldis.

Sá breiði leikhópur sem kemur fyrir í myndinni samanstendur af lítt þekktum leikurum og venjulegu fólki úr samfélaginu og persónur sem eru nafngreindar í myndinni bera sömu nöfn og leikararnir. Þannig kemur t.d. Ragnar Kjartansson myndlistarmaður fyrir í atriði sem tekið er upp við tilhleypingar í fjárhúsi en persónan sem leikur á móti honum ávítar hann fyrir að eiga alltaf í sama rifrildinu við bónda úr fjölskyldunni um gildi listamannalauna annars vegar og styrkja til landbúnaðarframleiðslu hins vegar.

Í sumum atriðum setur fólk sig í aðstæður sem það hefur að öllum líkindum sjálft verið í. Eitt af sterkustu atriðum myndarinnar á sér stað í Frú Ragnheiði, skaðaminnkunarúrræði fyrir fíkla í umsjá Rauða Krossins, þar sem ungur maður í neyslu ræðir við raunverulegt starfsfólk frú Ragnheiðar um stöðu mála hjá sér og fær faglega aðstoð en mætir jafnframt viðmóti sem er á jafningjagrundvelli. Annað atriði sýnir glímuna við alkóhólisma, þar sem þrír vinir spila saman yfir hátíðarnar og skapa sér sína eigin fjölskyldu sem vörn gegn einsemdinni. Grímur Hjartarson, sem lék m.a. í Óskabörnum þjóðarinnar, fer þar með eitt hlutverkanna en hann hefur opinberlega sagt frá áfengisvanda sínum og heimilisleysi.

Samsláttur veruleikans og sögusmíðarinnar nær ákveðnu hámarki í atriði undir lok myndarinnar, sem birtir okkur einn af hinum föstum viðburðum jólahátíðarinnar, þ.e. frásögn af fæðingu fyrsta barns nýs árs. Þar ber fyrir augu raunverulega fæðingu á Landspítalanum, þar sem kona fæðir barn sitt, ljósmóðir tekur á móti og færir foreldrunum barnið. Fæðingin er eitt þeirra atriða sem stefna von gegn erfiðleikum en undirtónn myndarinnar er tregafullur og eru átök og áföll birt í sögunum til jafns við gleðistundirnar og jólastemmninguna.

Myndin af samfélaginu
Þó svo að frásagnarefnið fari um víðan völl eru þannig ákveðnir þættir sem tengja sögurnar saman, umfram tímasviðið. Eitt af leiðarþemum myndarinnar eru átök í samskiptum, jafnt innan fjölskyldna sem í stærra samfélagslegu samhengi. Þetta þema bergmálar í mósaíkmyndinni sem dregin er upp af íslensku samfélagi. Fjölskyldumeðlimir af ólíkum kynslóðum virðast tala sitt tungumálið hver og að sama skapi má greina átök í þjóðfélaginu, m.a. í útvarpsviðtali við Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem hljómar á vinnustað handverksmanns. Ágreiningur birtist í viðhorfum og samskiptum kynjanna, í stéttaátökum, í togstreitu milli heima- og aðkomufólks, landsbyggðar og borgarmenningar. Kunnuglegt þema úr kvikmyndagerð Rúnars Rúnarssonar leitar hér fram, þ.e. vangaveltur um gildi sem eru á undanhaldi í nútímasamfélagi. Það kjarnast ekki síst í atriði þar sem fylgst er með gömlum bæjarhúsum sem verið er að brenna til grunna á meðan fólk horfir á brunann í gegnum snjallsímamyndvélar sínar. Ólík lífsviðhorf koma fram í samtali eldri bónda og brottflutts sveitunga hans, ungs manns sem á bæjarhúsin sem verið er að brenna til þess að skella þar upp einingahúsum í ferðamannaútleigu. Ungi maðurinn lítur á sveitamenninguna sem konsept fyrir markaðssetningu og telur það ekki peninganna virði að gera upp húsin sem voru áður myndarbæir og félagsleg miðja í sveitinni.

Kvikmyndin Bergmál segir okkur með öðrum orðum ákveðna sögu, eða birtir okkur tiltekna mynd af íslensku samfélagi. Þetta er djörf og flott tilraun og heildarútkoman er einkar áhrifarík. Hin staðfasta frásögn inni í brotaforminu endurspeglast einnig í útliti myndarinnar sem skapar ákveðna heildartilfinningu en andstæðir grunnlitir blákaldra og heitari rauðbrúnna tóna ganga í gegnum sviðsmyndina í vandlega völdum tökustöðum, sem og útfærslu leikmynda og búninga.

Eitt einkenni myndarinnar eru viðhorf fólks sem er á algerlega öndverðum meiði og í sumum atriðum tekst það vel en síður í öðrum. Sterkustu atriði myndarinnar bera hins vegar hin uppi og þegar hugað er að þeirri speglun sem á sér stað á milli myndbrotanna í Bergmáli má sífellt finna eitthvað nýtt. Grunntónninn sem hljómar út í gegnum myndina og gæðir hana töfrum sínum er e.t.v. helgi og hversdagsleiki, og leitast myndin við að birta okkur hið helga í hversdagleikanum, sem vill gleymast í skilvirku og tæknivæddu gagnvirki nútímasamfélags en leynist í raun alls staðar og á hinum óvæntustu stöðum.

Sjá nánar hér: Helgimynd úr hversdagsleikanum

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR