spot_img

“Drepum skáldið” fær 25 milljónir frá Norræna sjóðnum

Ný bíómynd Friðriks Þórs, Drepum skáldið (Kill the Poet) hefur fengið um 25 milljóna króna styrk (1,8 milljón norskra) frá Norræna- kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum.

Myndin, sem áður fékk 110 milljón króna vilyrði frá Kvikmyndasjóði, fjallar um forboðið samband skáldsins Steins Steinarrs og málarans Louisu Matthíasdóttur á fimmta áratug síðustu aldar.

Sagan gerist í New York og Reykjavík og byggir á sönnum atburðum. Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðandi lýsir verkefninu svo í eldra viðtali við vef Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins:

“Þetta er rómantískt drama í anda Rómeo og Júlíu. Louisa var af efnafjölskyldu í Reykjavík og fór til New York að nema myndlist, meðan Steinn var sárfátækur og áreittur af yfirvöldum vegna róttækra skoðana sinna og meinað að ferðast til Bandaríkjanna.”

Guðrún Edda og Friðrik Þór framleiða fyrir Hughrif ásamt Margréti Hrafnsdóttur og Jóni Óttari Ragnarssyni sem jafnframt skrifar handritið.

Þorvaldur Kristjánsson (Svanurinn) og Anita Briem (Journey to the Center of the Earth) fara með hlutverk listamannanna, en hinn víðkunni leikari Christopher Plummer mun einnig fara með hlutverk í myndinni.

Sjá nánar hér: Ruben Östlund, Fridrik Thor Fridriksson, among Fund recipients

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR