Heimildamyndin „Veröld sem var“ frumsýnd á RIFF

Rammi úr Veröld sem var.

Heimildamyndin Veröld sem var eftir Ólaf Sveinsson verður frumsýnd á RIFF. Í myndinni er annarsvegar hópi ferðalanga fylgt í fimm daga gönguferð á vegum Ferðafélagsins Augnabliks um áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar sumarið 2006 skömmu áður en byrjað var að safna vatni í Hálsinn, dalinn sem Hálslón er kennt við, en hinsvegar er fjallað um byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Myndin verður sýnd í Bíó Paradís, laugardaginn 28. september kl. 13.

Ólafur, sem meðal annars gerði heimildamyndirnar Hlemmur (2002) og Braggabúar (2001) lýsir myndinni svo:

Í myndinni eru einstakar myndir af þessu lítt þekkta og þar til framkvæmdir hófust stærsta ósnortna víðerni Evrópu sem sameinaði allt í senn, stórbrotið landslag, gróskumikinn gróður og fjölbreytt dýralíf. Orðatiltækið „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ gæti sem best verið einkunnarorð hennar, enda eru engin sambærileg svæði til á hálendi Íslands. Viðbrögð ferðalanganna, sem fóru flestir í sína fyrstu og jafnframt síðustu ferð um þetta tignarlega landslag í sinni upprunalegu mynd, voru öll á einn veg. Annarsvegar gleði og þakklæti yfir að upplifa þessa ósnortnu náttúru áður en hún hvarf, en hinsvegar sorg og jafnvel reiði yfir því að henni yrði fljótlega fórnað fyrir erlenda stóriðju.

Kárahnjúkavirkjun sjálf er verkfræðilegt afrek, unnið á mjög skömmum tíma við afar erfiðar aðstæður, þrátt fyrir stuttan undirbúningstíma. Við byggingu hennar þurfti sífellt að sigrast á óvæntum erfiðleikum eins og virkri sprungu undir hinni 200 metra háu Kárhnjúkastíflu, sem er ein hæsta grjótgarðsstífla heims. Lónið sunnan hennar teygir sig 27 kílómetra inn að Vatnajökli og er allt að 200 metra djúpt. Þrýstingurinn á hana og Desjarástíflu, sem er næst hæsta stífla landsins og stendur einnig á virkri sprungu, er því gríðarlega mikill þegar Hálslón er fullt. Bergið, sem 70 kílómetra löng göng voru boruð og sprengd í gegnum og veita vatninu frá inntakslónum Kárahnjúkavirkjunar yfir í stöðvarhúsið í Fljótsdal, reyndist mun sprungnara og þar með erfiðara viðureignar en reiknað hafði verið með. Því var engin furða að Jóhann Kröyer yfirverkfræðingur Landsvirkjunar við Kárahnjúka liti stoltur um öxl skömmu fyrir verklok, eftir þá ótalmörgu ófyrirsjáanlegu erfiðleika sem sigrast varð á við þessa stærstu, dýrustu og umdeildustu framkvæmd íslandssögunnar. En það kostaði líka sitt og fór heildarkostnaðurinn við byggingu Kárahnjúkavirkjunar að minnsta kosti 50% framúr kostnaðaráætlun, hugsanlega allt að 80%.

Í myndinni koma fjölmargir vísindamenn fram sem að héldu uppi harðri gagnrýni á virkjunarframkvæmdirnar áður en þær hófust og meðan á þeim stóð. Þannig sagði Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur að vel hefði mátt sjá og bregðast fyrirfram við þeim „ófyrirsjáanlegu erfiðleikum“ sem ollu töfum og sprengdu upp kostnaðinn, „án þess að grafa fyrir milljarða fyrst“, hefði Landsvirkjun rannsakað svæðið almennilega áður en hafist var handa.

Íslenska hálendissléttan er í raun eyðimörk að lang mestu leyti, með fáeinum gróðurvinjum, eins og dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur benti á, enda er talið að um helmingur gróðurlendis Íslands hafi bókstaflega blásið á haf út eftir að það byggðist. Á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar, norðaustan Vatnajökuls, er eitt albest gróna hálendissvæði landsins og það eina þar sem samfelldur gróður nær frá sjó og alveg inn að jökli, yfir 100 kílómetra leið. Þóra Ellen sagði gróður- og jarðvegseyðingu af völdum Kárahnjúkavirkjunar gríðarlega mikla, enda hefði Skipulagsstofnun hafnað byggingu hennar út af „óásættanlegum umhverfisáhrifum“.

Og þar sem er gróður, þar eru dýr. Hreindýr og heiðagæsir eru einkennisdýr hálendisins umhverfis Snæfell, konungs íslenskra fjalla, sem krýndur er jökli. Stórbrotin gljúfur Jökulsár á Dal, einstök fossaröð Jökulsár í Fljótsdal, gróðursælar hlíðar Hálsins, sem var griðland hreindýrakúa á hörðum og snjóþungum vorum um burðinn og eitt besta varpland heiðargæsa á hálendinu norðaustan Vatnajökuls. Allt er það horfið eftir að þessi tvö höfuðfljót Austurlands voru tekin úr farvegi sínum, safnað í lón og leidd í göng til að knýja hverfla Kárahnúkavirkjunar sem framleiðir einungis orku fyrir bandaríska álrisann Alcoa sem reisti glænýja álbræðslu af allra stærstu gerð í Reyðarfirði sem malar gull fyrir eigendur sína.

Í myndinni er hálendið á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar ekki aðeins sýnt eins og það var áður en byrjað var að byggja hana, heldur líka hvernig það lítur út að vori, sumri og hausti eftir að hún var tekin í notkun. „Veröld sem var“ er því mynd sem að ber nafn með rentu, því í henni er landið sem að breyttist og hvarf með Kárahnjúkavirkjun sýnd íslenskum og erlendum áhorfendum á skipulegan hátt í fyrsta sinn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR