spot_img

Helstu póstar á RIFF 2019

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst fimmtudaginn 26. september næstkomandi með frumsýningu á kvikmyndinni End of Sentence eftir Elfar Aðalsteins. Hátíðinni lýkur 6. október með frumsýningu á Parasite eftir Bong Joon-ho sem vann Gullpálmann í Cannes í vor.

Leikkonan Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með hina árlegu hátíðargusu í Háskólabíói á fimmtudagskvöld á undan opnunarmyndinni. Partý verður svo haldið í Iðnó eftir sýningu.

Meðal mynda sem sýndar verða eru The Lighthouse sem sló í gegn á Cannes hátíðinni í vor, en þær þrjár myndir sem vöktu mesta athygli á þeirri hátíð verða allar sýndar á RIFF, hinar tvær eru Parasite og The Dead Don’t Die eftir Jim Jarmusch. Alls verða 147 myndir frá 48 löndum sýndar á RIFF í ár. Þar af 42 bíómyndir, 24 heimildarmyndir og 81 stuttmynd. Um 57% kvikmyndagerðarmannanna eru karlmenn og 43% eru kvenmenn. Í flokknum Vitranir eru 45% myndanna eftir konur (4 myndir) og 55% myndanna eftir karla (5 myndir).

Heiðursgestir

Heiðursgestirnir í ár eru þrír. Annarsvegar hlýtur Claire Denis heiðursverðlaun hátíðarinnar fyrir framúrskarandi listræna sýn og hinsvegar hlýtur Katja Adomeit heiðursnafnbótina Upprennandi meistari, en báðar munu þær koma á hátíðina til að taka við verðlaununum. Hollywood leikarinn John Hawkes er síðan þriðji heiðursgesturinn.

Austurríki í fókus

Sérstakur fókus verður á myndum frá Austurríki í ár. Myndir eins og Earth, sem fjallar ekki um loftlagsbreytingar heldur landslagsbreytingar af mannavöldum. Chaos eftir Söruh Fattahl sem er sýrlenskur flóttamaður í Vín og er orðin ein af efnilegustu leikstjórum Austurríkis. Nobadi eftir Karl Markovics sem var heimsfrumsýnd í Toronto í síðustu viku, Movements of a nearby mountain eftir Nahen Bergs, The Children of the Dead eftir Kelly Copper og Pavol Liska, Space Dogs eftir Elsu Kremser og Levin Peter að ógleymdri Little Joe eftir Jessicu Hausner, en hún vakti mikla athygli á Cannes hátíðinni í vor og vann aðalleikona myndarinnar, Emily Beecham, aðal leikaraverðlaunin á hátíðinni.

Íslenski hlutinn

18 íslensk verk eru á dagskránni, stuttmyndir, sjónvarpsþættir, heimildamyndir og bíómyndir. Tveir þættir í nýrri þáttaröð Nönnu Kristínar Magnúsdóttur, Pabbahelgar, verða sýndir, ásamt fyrstu bíómynd Elfars Aðalsteins, End of Sentence, en í öðru aðalhlutverkinu í myndinni er Hollywood leikarinn John Hawkes. Þá er íslensk mynd í keppnisflokknum Vitranir, en þetta er í annað sinn sem íslensk mynd kemst í þann flokk, þetta er heimildamyndin Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg en Hanna Björk Valsdóttir framleiddi. The Seer and the Unseen hefur hvarvetna fengið góða dóma en Sara Dosa leikstýrði, Bryndís Ingvarsdóttir skrifaði handritið og Ragnhildur Jónsdóttir leikur í henni. Margrét Hrafnsdóttir er einn framleiðenda myndarinnar House of Cardin sem hefur vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðum síðustu mánuðina en hún fjallar um tískufrömuðinn Pierre Cardin.

Reykjavík Whale Watching Massacre eftir Júlíus Kemp verður sýnd á sérstakri sýningu í kvöld, 20. september kl. 20.

Teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn verður sýnd með lifandi flutning tónlistar af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofinu á Akureyri, sunnudaginn 22. september.

Nýjar íslenskar stuttmyndir verða sýndar í Bíó Paradís í tveimur hollum, hér má skoða fyrri hlutann og hér seinni hlutann.

Heimildamyndir

Heimildarmyndirnar sem sýndar verða á RIFF hafa á síðustu mánuðum vakið gríðarlega athygli í heiminum. Push fjallar um hvernig víða í stórborgum heimsins er skipulega unnið að því að koma fátæku fólki úr borgunum, myndin hefur vakið mikla athygli og orðið til þess að pólitíkusar í Norður-Evrópu hafa farið í það að breyta lögum og reglum á húsnæðismarkaði. Heimildarmynd um hið sorglega fráfall framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna árið 1961, Dags Hammarskjöld, er til umfjöllunar í myndinni Cold Case Hammarskjöld. Þá er ein myndin beint frá Aleppo, í Sýrlandi, og heitir For Sama. Tansnistra gerist í sjálfsstjórnarríkinu Tansnistríu, Irving Park er saga fjögurra samkynhneigðra manna á sjötugsaldri og Selfie fjallar um unglinga sem alast upp í hverfi í Napólí þar sem mafían varpar ennþá skugga sínum yfir borgina.

Hryllingsmyndaþema

Hryllingsmyndir fá sérstaka athygli á hátíðinni en í þeim flokk fá norrænar myndir sérstaka athygli. Myndin Koko-di Koko-da eftir Johannes Nyholm verður sýnd auk sænsku klassíkurinnar Evil Ed, eftir Aders Jacobsson. En einnig ný hryllingsmynd frá Túnis, Dachra, eftir Abdelhamid Bouchnak. Fjöldi skemmtilegra stuttmynda verða í hryllingsmynda flokknum, eins og Helsinki Mansplaining Massacre sem fjallar um flótta ungrar konu frá hópi manna sem vilja hrútskýra allt fyrir henni, Milk sem er kanadísk mynd um hryllingsferð í átt að mjólkurglasi í eldhúsinu og Lullaby sem er rómantísk vísindafantasía með hryllingstilfinningu. Sérstakt „hryllings maraþon“ verður kvöldið og nóttina 27. september, þegar hryllingsmyndirnar verða sýndar ein á eftir annarri langt fram eftir nóttu.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR