„Bergmál“ Rúnars Rúnarssonar valin í aðalkeppni Locarno hátíðarinnar

Rammi úr Bergmáli.

Bergmál Rúnars Rúnarssonar tekur þátt í aðalkeppni kvikmyndahátíðinnar í Locarno í Sviss. Þetta var tilkynnt fyrr í dag. Bergmál mun keppa þar um Gyllta hlébarðann, aðalverðlaun hátíðarinnar. Locarno er ein af virtustu kvikmyndahátíðum Evrópu.

Í Bergmáli fléttast örsögur úr samtímanum saman á ljóðrænan hátt og mynda samtímaspegil frá Íslandi í aðdraganda jóla.

“Heimsfrumsýning í aðalkeppni kvikmyndahátíðar í Locarno er mikil heiður fyrir okkur öll sem stöndum að myndinni. Bergmál er listrænt djörf en á sama tíma einstaklega falleg og manneskjuleg mynd sem sameinar svo margt. Húmor, sorg og fegurð. Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hefur verið gerð önnur eins kvikmynd, hvað þá jólamynd,” segir Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi hjá Pegasus, sem framleiðir myndina ásamt Nimbus Iceland.

“Ég er fyrst og fremst stoltur af samverkafólki mínu sem hefur vaðið eld og brennistein til að gera Bergmál mögulega. Kvikmyndaframleiðsla er dýr útgerð og eiga þessar viðurkenningar á okkar störf eftir að reynast okkur vel í fjármögnun á framtíðarverkefnum. Mest hlakka ég til að frumsýna Bergmál fyrir fólkið okkar heima á Íslandi í fyrir jól,” segir Rúnar Rúnarsson leikstjóri.

Undirbúningur að Bergmáli byrjaði að fullu árið 2018 en þá var verkefnið valið fyrst íslenskra verkefna til að taka þátt í Cannes Atelier, sem er fyrir kvikmyndir í fjármögnun og er partur af aðalhluta kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Síðan þá hefur verið mikill áhugi fyrir myndinni sem nú um ári seinna, hefur nýlokið eftirvinnslu.

Franska fyrirtækið Jour2féte sér um sölu og dreifingu erlendis en Sena sér um dreifingu á Íslandi.

Bergmál fer í almennar sýningar fyrir næstu jól.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR