Morgunblaðið um “Taka 5”: Fínasta indí-bíómynd

“Myndin er virkilega fyndin og skemmtileg. Persónurnar eru mjög ólíkar og það skapast spennandi og sprenghlægileg átök á milli þeirra,” segir Brynja Hjálmsdóttir í umsögn sinni í Morgunblaðinu um Töku 5 Magnúsar Jónssonar.

Brynja skrifar ennfremur:

Leikararnir eru líka reglulega fínir, hafa gott vald á gamanleik og ná að finna hvar kómíkin í þeirra karakter liggur. Það einhver jákvæð orka í gangi á skjánum og það er líkt og maður skynji að leikararnir hafi gaman af þessu verkefni.

Það er algengt að sjálfstætt kvikmyndagerðarfólk falli í þá gryfju að færast of mikið í fang og reyna að gera íburðarmeiri mynd en það hefur ráð á að gera. Taka 5 fellur ekki í þessa gryfju, sem er fagnaðarefni. Sambærileg verk sem koma upp í hugann eru t.d. Murder Party (2007) og Creep (2014) sem eru sjálfstætt framleiddar hrollvekjur með kómískum undirtóni. Þessar myndir eiga það sameiginlegt að gera gott úr fjársveltum aðstæðunum, plottið er ekki of flókið, persónurnar fáar og sviðsmyndin afmörkuð þannig að smæð framleiðslunnar verður að kosti frekar en galla. Stór kostur við allar þessar myndir er að þær taka sig ekki of alvarlega og lítil mistök geta þar með skýlt sér bak við tjald húmorsins. Þá eiga myndirnar einnig sammerkt að vera sjálfsvísandi því þær fjalla um kvikmyndagerð og listsköpun með einhverjum hætti. Taka 5 er auðvitað afar sjálfsvísandi, þar sem hún er mynd sem er gerð fyrir engan pening sem fjallar um að gera mynd úr engu. Þar með öðlast hún heimspekilega vídd, því hún veltir vöngum yfir eðli kvikmyndagerðar og spyr hvað telst vera alvörubíómynd og hvað ekki.

Myndin er eðli málsins samkvæmt ekki fullkomin. Sagan er stundum ögn endurtekningasöm og hljóði og lýsingu er nokkuð ábótavant líkt og búast má við. Tónlistin er fremur stefnulaus, þarna ægir saman mörgum mismunandi tónlistarstefnum sem passa ekki endilega vel saman og spurning hvort það hefði farið betur á því að sleppa tónlistinni. Maður saknar þess líka að fá aðeins sterkari endi á sögunni. Undir lokin er t.d. gefið í skyn að bóndinn Ragnar glími við eitthvert óuppgert fjölskyldutengt áfall, sem gæti útskýrt af hverju hann er svona undarlegur. Það er samt aldrei fyllilega útskýrt hvers eðlis þetta áfall er og kemur á óvart að þeim þræði sé ekki fylgt eftir til enda, fyrst það er byrjað á honum.

Taka 5 er fínasta indí-bíómynd, Magnús hefur sniðið sér stakk eftir vexti og hann sýnir að það er hægt að nota smæð verkefnis sér til framdráttar. Þótt myndin sé ekki fullkomin hefur hún marga styrkleika og ég tel að sjálfstæðir kvikmyndahöfundar mættu taka sér Töku 5 til fyrirmyndar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR