[Stikla] „Eden“ frumsýnd 10. maí

Telma Huld Jóhannesdóttir og Hansel Eagle í Eden.

Bíómyndin Eden eftir Snævar Sölva Sölvason verður frumsýnd 10. maí næstkomandi. Stikla myndarinnar hefur verið opinberuð.

Eden segir frá parinu Lóu og Óliver sem framfleytir sér með fíkniefnasölu en þráir ekkert heitar en að elta drauma sína. Þegar þau lenda upp á kant við undirheimaöflin ákveða þau að taka málin í sínar hendur og hefst þá barátta upp á líf og dauða.

Með aðalhlutverk fara Telma Huld Jóhannesdóttir (Webcam) og Hansel Eagle en hann fór með aðalhlutverkið í gamanmyndinni Albatross sem kom út 2015 og var gerð af sama leikstjóra.

Arnar Jónsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir koma einnig fram og meðal annarra leikara eru Tinna Sverrisdóttir, Gunnar Maris, Blær Hinriksson, Valgeir Skagfjörð, Einar Viðar G. Thoroddsen, Hjalti P. Finnsson og Róbert Gíslason.

Kvikmyndatónlist samdi Magnús Jóhann Ragnarsson og lagasmíðar eru í höndum Þormóðs Eiríkssonar. Magnús hefur spilað með ótal tónlistarmönnum, þar á meðal Friðriki Dór, Sölku Sól, Moses Higtower, GDRN, Flóna og samið kvikmyndatónlist fyrir stuttmyndir, en Þormóður hefur gert garðinn frægan undanfarið í íslensku hiphop-senunni og samið lög fyrir Jóa P og Króla, Herra Hnetusmjör, Huginn og marga aðra.

Framleiðendur eru Flugbeittur Kuti og Kvikmyndafélag Íslands (Kisi) en Sena sér um dreifingu á Íslandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR