Rætt um „Tryggð“: Vissi samstundis þetta væri sagan

Ásthildur Kjartansdóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir (Mynd: Kristinn Magnússon/Morgunblaðið).

Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona eru í viðtali við Morgunblaðið um kvikmyndina Tryggð sem byggð er á skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Tryggðapanti. Myndin fer í almennar sýningar þann 1. febrúar.

Úr viðtalinu (Júlía Margrét Alexandersdóttir skrifar):

Hvað getið þið sagt les­end­um um efni mynd­ar­inn­ar?

Ásthild­ur: „Mynd­in fjall­ar um konu sem er af ríkri fjöl­skyldu en lend­ir í fjár­hags­vand­ræðum. Hún starfar sem blaðamaður, er að skrifa grein um hús­næðismál út­lend­inga og hún sér sér þarna leik á borði; ákveður að slá tvær flug­ur í einu höggi og leysa fjár­hags­vand­ræði sín með því að leigja út hluta af húsi sínu til er­lendra kvenna en fær um leið viðfangs­efni greina­skrif­anna heim til sín. Ef þú set­ur þetta í stærra sam­hengi þá er þetta svo­lítið eins og Íslend­ing­ar hafa gert; við höf­um flutt inn út­lend­inga þegar okk­ur vant­ar vinnu­afl.“

Elma Lísa: „Gísella er góð mann­eskja í grunn­inn en átt­ar sig ekki á eig­in for­dóm­um fyrr en hún mæt­ir þeim og sag­an fjall­ar um leið um það hvernig hún verður fangi í eig­in húsi og síns fyrri lífs­stíls. Þetta er saga um sam­skipti fólks og valda­bar­áttu þess­ara kvenna. Gísellu geng­ur gott til og vill kynn­ast þess­um er­lendu kon­um enda sjálf einmana og ein­angruð í líf­inu, en þegar henni finnst sér ógnað birt­ist ákveðin grimmd.“

Elma Lísa og Ásthildur á tökustað og ráðfæra sig við ...
Elma Lísa og Ásthild­ur á tökustað og ráðfæra sig við Claire Hörpu Krist­ins­dótt­ur sem fer með hlut­verk Lunu. (Mynd: Lilja Jóns­dótt­ir)

Ásthild­ur: „Það fram­kall­ar ákveðna grimmd í fólki þegar því finnst það vera að missa valdið. Kon­urn­ar sem hún leig­ir eru um leið svo­lítið á sama báti. Þegar Gísella sýn­ir þeim grimmd­ina þá gera þær það á móti.“

Elma Lísa: „Sem er kannski bara mann­legt, ef ein­hver er vond­ur við þig ertu vond­ur á móti. Gísella tek­ur á þessu með því að búa til fleiri og fleiri hús­regl­ur og miss­ir smám sam­an tök­in og án þess að segja of mikið verður hún eins kon­ar fangi í eig­in húsi.“

Ásthild­ur: „Að mörgu leyti hefði þessi mynd getað verið um sam­skipti hvaða fólks sem er, ekki bara sam­skipti út­lend­inga og Íslend­inga. En mér fannst svo­lítið gott hvernig Sví­arn­ir lýstu mynd­inni. Þeir sögðu að í henni sæ­ist meðal ann­ars hversu stutt er á milli kær­leiks og grimmd­ar.“

Það vek­ur at­hygli að mót­leik­kon­ur þínar Elma Lísa, Enid Mba­bazi og Raffa­ella Brizu­ela Sig­urðardótt­ir eru ekki at­vinnu­leik­kon­ur – fannst ykk­ur það áhætta?

Ásthild­ur: „Fyrst ætluðum við að fá með okk­ur reynd­ar leik­kon­ur til að leika er­lendu kon­urn­ar og við prófuðum það. Það voru æðis­lega fín­ar leik­kon­ur og það var ekki vanda­málið. Það sem vantaði var þetta smá­lega sem gerði þetta ekta; svo sem hreim sem er alltaf svo­lítið erfitt að fara að búa til. En auðvitað man ég að fólk spurði okk­ur hvort við ætluðum að taka þá áhættu, en ef­ast ekki um að það hafi verið rétt ákvörðun.“

Elma: „Það ger­ir sög­una í heild mjög sann­fær­andi að hafa þær með okk­ur. Þar að auki var ofboðslega gef­andi fyr­ir okk­ur og mynd­ina að fara í gegn­um það ferli að hitta er­lend­ar kon­ur sem eru bú­sett­ar hér. Það komu stund­ir þar sem ég táraðist þegar þær fóru, það var oft átak­an­legt að heyra um aðstæður þeirra og fatta hvað Íslend­ing­ar hafa það gott.“

Nú var ykk­ar sam­starf svo­lítið stærra og meira en sam­band bara leik­ara og leik­stjóra er oft. Hverju breytti það?

Ásthild­ur: „Það breyt­ir öllu að hafa leik­ar­ann með sér í að þróa hand­ritið og per­són­una. Í slíkri vinnu fyll­ist sag­an af alls kon­ar smá­atriðum sem gefa per­són­unni fyllri mynd og að því sem hún er. Til dæm­is stækkuðum við per­sónu Elmu Lísu tals­vert með því að bæta barni við í sög­una sem hún hafði átt og misst.

Elma Lísa: „Það fyllti mjög út í bak­land henn­ar og gerði hana samúðarfyllri. Sjálf tengdi ég sterkt við það að bæta því við í sög­una því ég eignaðist sjálf barn seint, stelpu sem er fimm ára í dag og mér fannst það, eins og öll­um ör­ugg­lega, breyta mér mjög mikið og dýpka mig á all­an hátt. Ann­ar mik­il­væg­ur þátt­ur í bíó­mynd­inni þessu tengd­ur sem við bætt­um við er einnig sam­band Gísellu og lít­ill­ar dótt­ur annarr­ar kon­unn­ar og hvernig það snert­ir við Gísellu.“

Ásthild­ur: „Þar sem per­són­ur Auðar Jóns­dótt­ur eru svo marglaga og óræðar er það virki­lega áskor­un að skila því á skjá­inn. Þar að auki er bók­in Tryggðarp­ant­ur skrifuð sem tákn­saga, alleg­oría og þegar höf­und­ur hef­ur slíkt að leiðarljósi er ekki jafnauðvelt að fylla per­són­urn­ar smá­atriðum því sag­an verður alltaf að hafa þessa tákn­ræna merk­ingu. Ég er mjög þakk­lát Auði fyr­ir það sem hún sagði við mig: „Gerðu bara hvað sem þú vilt við þessa sögu. Ég er amma mynd­ar­inn­ar.““

Sjá nánar hér: Vissi samstundis þetta væri sagan – mbl.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR