Erlendur Sveinsson um „Þvert á tímann“: Ritstjórinn og skáldið slást um tímann

Erlendur Sveinsson og Sigurður Sverrir Pálsson frumsýna heimildamynd sína Þvert á tímann í Háskólabíói sunnudaginn 16. desember. Myndin lýsir einum degi í lífi Matthíasar Johannessen skálds og ritstjóra, en tökur fóru að mestu fram 2000-2001.

Fréttablaðið birtir viðtal við Erlend af þessu tilefni og þar kemur meðal annars eftirfarandi fram:

„Það á að frumsýna hina dularfullu mynd Þvert á tímann sem enginn hefur heyrt talað um en tökur hófust á fyrir átján árum,“ segir Erlendur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður þegar hann er inntur eftir sögu myndar um Matthías Johannessen, sem frumsýnd verður í Háskólabíói á sunnudaginn klukkan 13.15. Hann segir um bræðralagsmynd þeirra Sigurðar Sverris að ræða og aðeins þessa einu sýningu. „Vinnslan hefur dregist á langinn. Hún hefur átt sína spretti en liðið fyrir vanfjármögnun. Við gerðum mynd um Thor Vilhjálmsson í millitíðinni,“ segir hann og heldur áfram:

„Þvert á tímann er heimildarmynd en tekin eftir handriti og Matthías leikur sjálfan sig. Ég vona að hún sé óvenjuleg. Hún er um dag í lífi þessa manns, byrjar bara í draumi næturinnar, eldsnemma morguns og endar nánast undir miðnætti. Ritstjórinn og skáldið slást um tímann. Hugmyndin var að draga upp eins skörp skil og hægt væri milli þeirra tveggja þó svo heimar þeirra tvinnist saman. Myndin gengur samt nærri Matthíasi því við tökum inn hluti í lífi hans í lokin, þegar við brjótumst út úr þessum degi um aldamótin 2000 og skjótumst fram í tímann til 2012.“

Sjá nánar hér: Ritstjórinn og skáldið slást um tímann – Fréttablaðið

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR