Frumsýning: „Söngur Kanemu“

Heimildamyndin Söngur Kanemu eftir Önnu Þóru Steinþórsdóttur verður frumsýnd 6. september í Bíó Paradís. Myndin hlaut bæði dómnefndar- og áhorfendaverðlaunin á Skjaldborgarhátíðinni í vor.

Söngur Kanemu er heimildamynd um leit hinnar söngelsku Ernu Kanemu að söngvum frá Sambíu, heimalandi föður síns. Erna öðlast um leið skilning á tónlistarhefð forfeðra sinna og tekur brot af henni með sér heim til Íslands.

Erna Kanema er 18 ára og elst upp í Reykjavík ásamt yngri systur, íslenskri mömmu og pabba frá Sambíu. Erna upplifir það bæði sem kost og ókost að alast upp á mörkum tveggja menningarheima. Oftast nýtur hún þess að vera öðruvísi og fá athygli vegna þess en stundum vildi hún óska þess að falla inn í fjöldann. Erna hefur tvisvar í barnæsku heimsótt Sambíu en þar fyrir utan er reynsla hennar af sambískri menningu að miklu leiti fengin í gegn um pabba hennar, Harry, sem hefur búið á Íslandi í 20 ár. Hún þráir að eiga sterkari tengsl við heimaland pabba síns og ættingja sína þar og henni finnst hún ekki þekkja uppruna sinn nógu vel. Erna er á kafi í tónlist, syngur í kórum og lærir söng í djassdeild FÍH. Tónlistaráhuginn leiðir hana af stað í ferð sem opnar augu hennar á tónlistarmenningu  og hefðum í Sambíu þar sem margt er talsvert ólíkt því sem hún þekkir á Íslandi. Á sama tíma öðlast hún sterkari sjálfsmynd og dýpri skilning á sjálfri sér.

Umsögn ritstjóra Klapptrés um myndina má lesa hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR