Morgunblaðið um „Andið eðlilega“: Landamærin í lífinu

Kristín Þóra Haraldsdóttir og Patrik Nökkvi Pétursson í Andið eðlilega.

Brynja Hjálmsdóttir skrifar í Morgunblaðið um Andið eðlilega eftir Ísoldu Uggadóttur og segir hana ákaflega haganlega smíðaða. Hún gefur myndinni fjórar og hálfa stjörnu.

Úr umsögninni:

Sagan í Andið eðlilega er margslungin og kemur víða við en hún er ákaflega haganlega smíðuð og ljóst að handritið hefur verið unnið af mikilli kostgæfni. Það er góð stígandi í kvikmyndinni, hún er spennandi en fer sér að engu óðslega. Ótal spurningar vakna og fjölbreytileg vandamál verða á vegi persónanna en þráðurinn er þétt spunninn og úr verður rammsterkt drama. Sumir atburðir gætu virst ofurlítið tilviljanakenndir, sérstaklega í augum þeirra sem ekki þekkja til hérlendis. Lára og Adja búa í smábæ, þar sem er síður en svo ótrúlegt að rekast á fólk af tilviljun, en það gæti hugsast að áhorfendum sem ekki þekkja til þyki ankannalegt að þær gangi endurtekið í flasið á hvor annarri. Þá má líka spyrja sig hvort hvort það sé sannfærandi að Adja rétti Láru hjálparhönd, þar sem hún lagði líf hennar í rúst. Því fer þó fjarri að þetta skemmi heildarmyndina, sagan rígheldur og er óvenjulega vönduð á íslenskan mælikvarða.

Myndin fjallar um fólk sem á bágt, fólk sem er minnimáttar, þarf að berjast við ofurefli eða hefur misstigið sig á lífsleiðinni. Þrátt fyrir það er myndin ekki væmin og gerist ekki sek um óþarfa vorkunnsemi í garð persónanna. Hér er einfaldlega fjallað um fólk sem er í erfiðri stöðu (sumir myndu segja vonlausri) sem reyna eftir bestu getu að mjakast áfram í von um að dagurinn á morgun verði kannski ofurlítið skárri en dagurinn í dag.

Leikurinn er verulega góður, það sést langar leiðir að Kristín Þóra og Babedita hafa unnið heimavinnuna sína til að gæða persónur sínar lífi. Hinn ungi Patrekur er líka flottur í hlutverki Eldars. Samtölin eru vel skrifuð og flutt en gjarnan er kosið að láta persónur segja fátt og frekar brugðið á það ráð að láta líkamstjáningu og svipbrigði miðla skilaboðum. Það er einungis á færi úrvalsleikara að miðla svo miklu innihaldi með látbragðinu einu saman og í þessu tilfelli gefst þessi tækni vel, þar sem hér er einmitt um úrvalsleikara að ræða.

Öll tæknileg atriði eru í stakasta lagi. Kvikmyndatakan er fín og hentar viðfangsefninu vel. Sviðsmyndin er sérlega skemmtileg og gaman að sjá mynd sem kannar Suðurnes, Ásbrú og flugvallarsvæðið í allri sinni harðneskjulegu dýrð. Búningar og gervi eru vel unnin og ljá persónunum heilmikla vídd, sérstaklega í tilfelli Láru en í útliti er persónan Lára gjörólík leikkonunni Kristínu Þóru. Á heildina litið var hljóðvinnsla góð, fyrir utan stöku staði þar sem erfitt var að greina hvað persónum fór á milli.

Andið eðlilega er stórfín mynd, hún er vel skrifuð og leikstjórnin afbragðsgóð. Þetta er fyrsta verk Ísoldar í fullri lengd en það er enginn byrjendabragur á því og það stendur jafnfætis myndum eftir þaulvant kvikmyndagerðarfólk. Sagan er fersk og talar beint inn í samtímann en er jafnframt sígild og tímalaus saga um baráttuna fyrir mannsæmandi lífi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR