Hlynur Pálmason hlaut Dreyer verðlaunin

Hlynur Pálmason, leikstjóri dansk/íslensku kvikmyndarinnar Vetrarbræður tók við Dreyer verðlaununum við hátíðlega athöfn þann 21. febrúar. Dreyer verðlaunin eru veitt af Carl Th. Dreyer Minningarsjóðnum til ungra kvikmyndaleikstjóra eða annarra listamanna innan kvikmyndabransans sem sýna fram á framúrskarandi listræna hæfni. Verðlaunin innihalda 50.000 danskra króna í verðlaunafé.

Þetta kemur fram á vef Kvikmyndamiðstöðvar:

Hlynur er annar Íslendingurinn sem vinnur til Dreyer verðlaunanna. Á meðal fyrri sigurvegara eru Dagur Kári, Lars von Trier, Susanne Bier, Nicolas Winding Refn og Thomas Vinterberg.

Um ástæðuna fyrir því að veita Hlyni verðlaunin hafði Eva Novrup Redvall eftirfarandi að segja fyrir hönd dómnefndar: „Stundum þegar maður sér danska kvikmynd áttar maður sig á því allt frá fyrstu myndum að eitthvað stórkostlegt sé á ferðinni. Eða í rauninni frá fyrsta hljóði, þar sem hljóð og mynd virka saman í Vetrarbræðrum Hlyns Pálmasonar á máta sem skorar á hólm og skerpir skynfærin okkar allt frá byrjun.“ Ástæðu dómnefndar fyrir valinu er að finna að fullu á heimasíðu Dönsku Kvikmyndastofnunarinnar.

Vetrarbræður hefur unnið til 14 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Locarno kvikmyndahátíð í Sviss í ágúst síðastliðnum, þar sem fjögur verðlaunanna unnust. Síðustu verðlaunin sem hún vann til voru aðalverðlaun Annonay kvikmyndahátíðarinnar í Frakklandi.

Næst á dagskrá hjá Hlyni er áframhaldandi þróun sinnar næstu kvikmyndar, Hvítur, hvítur dagur, sem áætlað er að fari í tökur í ágúst á þessu ári.

Verkefnið vann nýverið til ARTE verðlaunanna á CineMart, samframleiðslumarkaði hinnar virtu Rotterdam kvikmyndahátíðar.

Hvítur, hvítur dagur tók einnig þátt í samframleiðslumarkaði hinnar virtu Berlinale kvikmyndahátíðar í Berlín, þar sem hún var eitt af einungis tveimur verkefnum sem voru valin í svokallaða Rotterdam-Berlinale Express.

Sjá nánar hér: Hlynur Pálmason hlaut Dreyer verðlaunin

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR