Andlát | Jóhann Jóhannsson

Jóhann Jóhannsson tónskáld.

Jóhann Jóhannsson tónskáld er látinn, 48 ára að aldri. Hann fannst látinn á heimili sínu í Berlín í gær, en dánarorsök er ókunn á þessu stigi. Jóhann hafði skipað sér sess meðal virtustu kvikmyndatónskálda samtímans.

Fjallað er um þetta á vef RÚV og þar segir meðal annars:

Jóhann á að baki fjölbreyttan feril með mörgum hljómsveitum, meðal annars rokksveitinni HAM og Apparat Organ Quartet, sem hann stofnaði árið 1999, auk þess sem hann gaf út níu sólóplötur. Hann samdi tónlist fyrir leikhús, stóð fyrir tilraunakenndum listviðburðum af ýmsu tagi en það var kvikmyndatónlistin sem hann varð heimsþekktur fyrir á síðustu árum og var raunar farið að telja hann í hópi helstu kvikmyndatónskálda samtímans.

Hann hlaut fádæma lof fyrir tónlist sína við þrjár kvikmyndir kanadíska leikstjórans Dennis Villeneuves, Prisoners, Sicario og Arrival. Hann hlaut Golden Globe-verðlaun árið 2014 fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything og var jafnframt tilnefndur til Óskars-, BAFTA- og Grammy-verðlauna fyrir þá mynd. Hann var aftur tilnefndur til Óskars- og BAFTA-verðlauna fyrir Sicario árið eftir og til Golden Globe og BAFTA 2016 fyrir Arrival.

Hann starfaði einnig að myndinni Mother! eftir Darren Aronofsky og nú í byrjun febrúar kom út hjá Deutsche Grammofon tónlist Jóhanns við kvikmyndina The Mercy, með Colin Firth í aðalhlutverki.

Undanfarið hafði Jóhann unnið að tónlistinni við væntanlega kvikmynd um Maríu Magdalenu með Rooney Mara og Joaquin Phoenix í aðalhlutverkum. Jóhann var ókvæntur og lætur eftir sig eina uppkomna dóttur.

Sjá nánar hér: Jóhann Jóhannsson látinn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR