
Baltasar Kormákur ræðir við Morgunblaðið um Ófærð 2, deilurnar um úthlutun til verkefnisins, tökurnar á Adrift sem er lokið og verkefni framundan.
Fram kemur að tökur á annarri syrpu Ófærðar hefjist eftir tvær vikur á Siglufirði og nágrenni. Baltasar mun leikstýra tveimur þáttanna, Börkur Sigþórsson og Óskar Þór Axelsson snúa aftur og Ugla Hauksdóttir bætist í leikstjórahópinn.
Hér eru brot úr viðtalinu:
Um Ófærð 2:
„Þáttaröðin gerist meira á Siglufirði og í sveitinni þar í kring og í Reykjavík.“
–Verður þá ekki ófært í Ófærð 2?
Baltasar hlær. „Nei, nú er það meira svona „trapped“,“ segir hann og vísar þar í enskan titil þáttaraðanna. Fólk verði fast í bænum, öll sund lokuð líkt og í fyrri syrpu.
Baltasar átti hugmyndina að sögu beggja þáttaraða og Sigurjón Kjartansson og Bretinn Clive Bradley skrifa handrit Ófærðar 2, líkt og fyrri seríu auk þess sem glæpasagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir og Margrét Örnólfsdóttir koma einnig að skrifum nýju syrpunnar. „Það var mjög gott að fá þær á sínum tíma og Yrsa er ágætlega að sér í jarðeðlisfræði sem kemur að góðum notum,“ segir Baltasar kíminn, um aðkomu þeirra Yrsu og Margrétar. Ekki má fara nánar út í þá sálma, hvernig jarðeðlisfræði mun koma við sögu.
Baltasar er spurður að því hvort mikill munur verði á seríunum tveimur og segir hann að munurinn verði hæfilegur. „Mig langar ekki að endurtaka of mikið en vil þó ekki fara með þetta í allt annað þorp eða á allt annan stað.“
Um deilurnar um úthlutun til Ófærðar 2:
–Ófærð 2 hlaut vilyrði fyrir 60 milljóna kr. styrk úr Kvikmyndasjóði þó að ekki væri búið að klára handrit að öllum þáttunum, sem mun vera skilyrði, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Hver er þín afstaða í þessu máli?
„Reglur úreldast oft, eins og við vitum, og menn eru oft að bera saman þáttaraðir með fjórum þáttum annars vegar og tíu þáttum hins vegar. Í heimi sjónvarpsþátta er enginn að skrifa tíu þætti og fer svo og reynir að fjármagna þá. Þetta eru 600 bls. eða þar um bil, rosalega mikil vinna og það er engin sjónvarpsstöð sem fer fram á að handrit allra þáttanna séu fullkláruð. Þú skrifar yfirleitt „pilot“ [fyrsta þáttinn, innsk.blm.] og svo söguþráðinn áfram og þannig er þetta yfirleitt selt. Við seljum seríuna á fjórum þáttum út um allan heim, t.d. til BBC og ZDF, stærstu ríkissjónvarpsstöðvanna í Evrópu. Þær kaupa hana út frá fjórum þáttum,“ svarar Baltasar. „Þessi krafa sjóðsins er í raun algjörlega úrelt, það eru gerðar meiri kröfur um skil á efni í sjóðnum en eru gerðar hjá sjónvarpsstöðvum erlendis sem kaupa efnið. Þetta er hvergi annars staðar gert,“ bætir hann við.
–Og það er enn verið að vinna í handritunum þegar tökur eru hafnar, ekki satt?
„Jú, það er verið að þróa þau og breyta þeim og þetta er svo mikill misskilningur, þessi krafa um fullklárað handrit. Það hafa aldrei verið fjármögnuð fullkláruð handrit á Íslandi vegna þess að þú skrifar handritið, færð fjármagn og ert svo að vinna áfram í handritinu og laga það fram á síðasta dag. Það er verið að ráðast þarna á sjónvarpsþáttaröð sem er sennilega með meira áhorf erlendis en allt íslenskt sjónvarpsefni samanlagt,“ svarar Baltasar. Landslagið sé orðið gjörbreytt frá því sem áður var hvað varðar íslenska sjónvarpsþætti og styrkurinn til Ófærðar hafi skilað sér margfalt til baka. „Við erum að koma með peninga inn í landið,“ segir Baltasar. Það hafi verið óþægilegt að fylgjast með þessari umræðu á Íslandi á meðan hann hafi verið í tökum á Fídjieyjum og ekki haft tíma til að blanda sér í hana. „Ég tel það heillavænna að kvikmyndagerðarmenn horfi fram á veginn og bæti það sem betur má fara í regluumhverfi sjóðsins í stað þess að ráðast hver gegn öðrum og hengja sig í orðhengilshátt og úreltar reglugerðir.“
Um Adrift:
Berst þá talið að Adrift, kvikmyndinni sem Baltasar lauk nýverið tökum á en þær fóru fram á Fídjieyjum í fjóra mánuði og á Nýja-Sjálandi í mánuð. Handrit myndarinnar er byggt á sönnum atburði og segir af ungu pari sem tók að sér að sigla skútu frá Tahítí til San Diego og lenti í versta fellibyl sögunnar á leiðinni. Konan, Tami Oldham, lifði af en unnusti hennar, Richard Sharp, drukknaði. Með hlutverk Oldham og Sharp fara tvær ungar Hollywood-stjörnur, Shailene Woodley og Sam Claflin.
Baltasar segir tökurnar hafa gengið rosalega vel en þær fóru að stórum hluta fram á sjó. „Ég var með einn flottasta kvikmyndatökumann í heimi, Robert Richardson, þannig að þetta var rosalega skemmtilegt,“ segir Baltasar en Richardson hefur hlotið Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku þrisvar sinnum, fyrir JFK, Aviator og Hugo og verið tilnefndur sex sinnum til viðbótar. „Við áttum alveg frábært samstarf,“ segir Baltasar um Richardson. Nú taki við klipping á Adrift og þar sé einnig Óskarsverðlaunahafi á ferð, John Gilbert, sem hlaut Óskarinn á þessu ári fyrir klippingu á Hacksaw Ridge. „Hann er í næsta herbergi að klippa,“ segir Baltasar og bendir í áttina að klippiherberginu.
„Við ákváðum að gera þetta eins raunverulegt og hægt væri þannig að þetta var eins erfitt og það gat orðið,“ segir Baltasar um tökurnar. Hann hafi fengið nýsjálenska siglingakappa til liðs við sig. „Gaurar sem kunna þetta vel voru að aðstoða mig og ég er náttúrlega siglingamaður sjálfur, var margfaldur Íslandsmeistari hérna í gamla daga,“ bætir hann við.
–Hvernig var þetta gert?
„Þú skýtur náttúrlega ekki í fellibyl þannig að þú verður að búa til þann hluta en stór hluti af þessu var tekinn upp á bátnum, 60 feta skútu. Í sumum tökunum vorum við með myndavélina og tökuliðið á skútunni og það voru mikil þrengsli, 20 manns á svona báti að vinna. Það voru allir ælandi fyrsta daginn, leikararnir köstuðu upp og svo var bara kallað „action!“,“ segir Baltasar og glottir. „Svo vorum við með annan risastóran bát með krana á og sigldum honum með skútunni og tókum upp. Við tókum líka upp neðansjávar,“ bætir hann við og að ýmislegt hafi svo þurft að gera með tölvubrellum.
Sjá nánar hér: Tökur hefjast brátt á Ófærð 2