Fréttablaðið um “Vetrarbræður”: Gengur listilega vel upp

“Lúmskt dáleiðandi og sérviskuleg bíómynd,” skrifar Tómas Valgeirsson í Fréttablaðið um Vetrarbræður Hlyns Pálmasonar. “Hún er ekki gerð fyrir hvern sem er en hún er vel þess virði að líta á,” bætir hann við.

Umsögnin er svo:

Í dimma kalknámu í Danmörku mæta bræðurnir Emil og Johan til vinnu dag eftir dag. Kuldinn er allsráðandi. Ekki á það bara við um vetrartímann sem umlykur söguna, heldur hvernig mannlegum samskiptum er háttað hjá bræðrunum, þar sérstaklega Emil, sem er töluvert lágstemmdari og sorglegri, hreint út sagt. Í frístundum sínum glápir Emil á nágrannastúlku sína gegnum gluggann og bruggar áfengan viðbjóð úr efnum sem hann stelur úr námunum og selur svo kollegum sínum. En hvað gerist svo þegar Emil er neyddur út fyrir þægindaramma sinn?

Það blasir nánast alveg við augum að leikstjóri myndarinnar eigi sér bakgrunn í ljósmyndun og myndlist. Myndmálið poppar allsvakalega út, meira að segja í hinu hversdagslegasta umhverfi, og oft er spilað með þagnir á réttum stöðum þar sem römmunum er leyft að koma sínu til skila án mikils rembings. Við stjórnvölinn situr Hlynur Pálmason með þétt taumhald þar sem sjálfsörugg og einföld frásögn hans fær að anda út.

Einnig er kvikmyndataka Mariu von Hausswolff alveg meiriháttar og gæðir andrúmsloft og fíling, sem er að mestu óaðlaðandi eða eymdarlegt, ómældri fegurð. Hljóðmyndin er líka ákaflega vönduð.

Dýnamík bræðranna er kostuleg (hvernig samband þeirra á það til að leysast bókstaflega upp í pissukeppni er hrein dásemd), þótt sagan snúist í rauninni öll í kringum einfarann Emil. Hann er einfaldur en flókinn á sama tíma. Það er erfitt að halda upp á hann en maður kemst ekki hjá því að finna örlítið til með honum í baráttu hans við að finna sinn stað í lífinu þegar hristist upp í tilverunni.

Það kemur hins vegar fyrir að myndin virki frekar stefnulaus, í miðbikinu hvað mest, og tekst leikstjóranum ekki alveg að landa bláendanum eins og hann vill. Einnig er leitt hversu lítil áhersla er lögð á Johan og ekki síður leikkonuna Victoria Carmen Sonne sem leikur Önnu, nágranna bræðranna, en bæði tvö eru augljóslega mjög mikilvæg í lífi aðalpersónunnar, ef ekki þau einu mikilvægu.

Vetrarbræður gengur hins vegar listilega upp þrátt fyrir smágalla sína. Hún er heilt yfir skondin, pínu dökk, öðruvísi og tilraunagleðin nýtur sín oftar en ekki, sérstaklega þegar stíllinn daðrar við súrrealisma eða draumkenndar senur.

Lúmskt dáleiðandi og sérviskuleg bíómynd. Hún er ekki gerð fyrir hvern sem er en hún er vel þess virði að líta á.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR