Lestin á Rás 1 um „Undir trénu“: Eins og tvær ólíkar kvikmyndir

Edda Björgvinsdóttir, Steinþór Steinþórsson og Sigurður Sigurjónsson í Undir trénu.

Gunnar Theódór Eggertsson fjallar um Undir trénu Hafsteins Gunnars Sigurðssonar í Lestinni á Rás 1 og segir meðal annars: „Ég fékk á tilfinninguna að myndin vissi ekki alveg hvaða sögu hún hafði meiri áhuga á að segja – þessa um unga manninn sem þarf að horfast í augu við skilnað eða þessa um erjurnar sem taka að snúast um margt annað en bara tignarlegt tréð.“

Gunnar segir m.a.:

Undir trénu er ansi tvískipt mynd og sögurnar tvær, þótt þær tengist í gegnum persónurnar, virka stundum eins og tvær ólíkar kvikmyndir. Tónninn er auk þess dálítið flöktandi, allt frá því að vera klúrt og hálfkjánalegt grín yfir í heilmikla alvöru og ívið meiri grimmd en ég átti von á, og ég fékk á tilfinninguna að myndin vissi ekki alveg hvaða sögu hún hafði meiri áhuga á að segja – þessa um unga manninn sem þarf að horfast í augu við skilnað eða þessa um erjurnar sem taka að snúast um margt annað en bara tignarlegt tréð. Myndin er ekki nema tæpar 90 mínútur og fyrir vikið missa sögurnar dálítið kraftinn, því hvorug fær almennilega að njóta sín og þær tvinnast ekki saman nema yfirborðslega. Þetta sló mig kannski sérstaklega því mér þótti önnur sagan svo miklu áhugaverðari og meira grípandi en hin – og það er sú sem snýr að trénu og stríðandi hjónunum.

Þótt ekkert sé að sakast við Steinþór Hróar Steinþórsson, sem leikur Atla, eða Láru Jóhönnu Jónsdóttur, sem leikur eiginkonuna Agnesi, því þau standa sig vel í hlutverkum sínum, þá fellur sagan af unga manninum einfaldlega í skuggann af trénu mikla, rétt eins og sólpallurinn hennar Selmu Björns. Myndin nær miklu frekar flugi í kringum eldri hjónin og sérstaklega persónu Ingu – og Edda Björgvins á vissulega allt lof skilið fyrir frammistöðu sína og hlutverk hennar einkar bitastætt og áhugavert. Í því samhengi hefði sagan af ástarmálum sonarins kannski virkað betur sem viðauki við líf móðurinnar fyrir miðju, sem hefði mögulega skilað sér í jafnari mynd og leyft nágrannaerjunum sjálfum að þróast betur og anda dálítið meira.

Plássleysið kemur nefnilega niður á þeim hluta sögunnar, því þar er að finna nokkur ótrúverðug stökk í atburðarásinni sem hefði mátt undirbúa betur og dvelja við, því þegar kemur að ákveðnum atriðum í seinni hlutanum fannst mér myndin ekki alveg hafa unnið sér inn fyrir því sem átti sér stað og ég átti erfitt með að kaupa hegðun sumra persónanna. Einnig eru ákveðin straumhvörf tengd ofbeldi gegn dýri sem myndin skautar fullhratt framhjá, miðað við hversu alvarlegt það er innan söguheimsins; og myndin hefði líklega notið góðs af því að halda sig alfarið innan hefndarfantasíunnar í kringum tréð og eyða aðeins meiri tíma með þeim persónum. Málið er að sá hluti myndarinnar sem snýr að sögunni um tréð er reglulega góður og uppbyggingin stuðar mig einmitt vegna þess að mér þykir sá hluti svo metnaðarfullur. Innan þeirrar sögu leynist fínasta hefndarmynd, sem nær að vera hæfilega absúrd og dramatísk, og þótt ég hafi reglulega dottið út úr hinum meginþræði myndarinnar, þá náði sjálft tréð alltaf að toga mig til baka.

Sjá nánar hér: Hatrammar nágrannaerjur og listrænar bólur

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR