spot_img

Knúz um “Skjól og skart”: Algjört konfekt

Þóra Kristín Þórsdóttir skrifar á vefinn Knúz um Skjól og skart Ásdísar Thoroddsen og segir hana skemmtilega gerða og tilgerðarlitla mynd um afmarkað en afar margrætt efni.

Í umsögn segir:

Í daglegu máli á hugtakið búningur við um klæðnað sem fólk klæðist til að leika hlutverk, hvort sem það er tengt starfi (sbr. lögreglubúningur) eða leik. Íslenski þjóðbúningurinn hefur mér því alltaf fundist bera nafn með rentu þó að mér hafi fundist óljóst hvaða hlutverk fylgir búningnum. Hann tengist þó óneitanlega einhverjum hugmyndum um þjóðerni og sögu, eins og kom svo berlega í ljós þegar allt ætlaði um koll að keyra í íslensku samfélagi vegna forsíðumyndar Grapevine árið 2004. En hvaða merkingu leggja konur í búninginn og við hvaða aðstæður passar að klæðast honum, að „klæðast þjóðerninu“? Fyrir okkur sem höfum velt þessu fyrir okkur sem og skyldum spurningum, sem og áhugafólk um hannyrðir og kvennasögu, er ný kvikmynd Ásdísar Thoroddsen, Skjól og skart, algert konfekt.

Titillinn sjálfur gefur að vísu eilítið ranga mynd því þar er aðeins vísað í sakleysislegri hliðar þjóðbúningsins og þar með gefið til kynna að hér eigi að fara ljúflega með efnið. Í myndinni er nefnilega farið um víðan völl og alls kyns áleitnum spurningum velt upp og svarað. Fjallað er um verklegu hliðina, handverkið sjálft, en einnig hönnunarsöguna, pólitíkina og þær mismunandi merkingar sem búningurinn hefur fengið með tímanum. Þannig er farið yfir þróun þjóðbúningsins frá því að vera daglegur klæðnaður í að verða að sérstökum þjóðbúningi. Fjallað er um hvernig þjóðbúningurinn – eða kannski heldur konurnar sem honum klæddust – var notaður sem tæki í lýðveldisbaráttunni sem og hvernig búningurinn hefur þróast í tímanna rás. Jafnframt er fylgst með hópi ólíkra kvenna læra að sauma þjóðbúninga í samtímanum, en þær segja okkur frá sinni sýn á búninginn og ástæðum þess að þær tóku sér þetta mikla verk fyrir hendur. Því mikið verk er þetta. Fyrir áhugafólk um hannyrðir er þessi hluti myndarinnar sérstaklega athyglisverður; ég til að mynda hafði ekki gert mér grein fyrir að á bak við almennilegan upphlut lægi margra mánaða vinna – og það að víravirkinu undanskildu!

Það má alltaf deila um efnistök, að mínu mati hefði t.a.m. mátt taka betur fyrir sérstöðu íslenska þjóðbúningsins miðað við t.d. þjóðbúninga annarra Norðurlanda, en það breytir því ekki að heimildamyndin Skjól og skart er skemmtilega gerð, tilgerðarlítil, um afmarkað en afar margrætt efni. 

Vel hefur tekist að blanda saman viðtölum við sérfræðinga annars vegar (háskóla- og hannyrðafólk)  og spjalli kvennanna á saumanámskeiðinu hins vegar og gefur tónlist Hildigunnar Rúnarsdóttur – sem hefði jafnvel mátt vera meira af – skemmtilega stemmningu. Kvikmyndin er því sannarlega velkomin viðbót í safn heimildamynda um kvennasögu.

Sjá nánar hér: Skjól, skart og þjóðerni – kvikmyndagagnrýni | Knúz – femínískt vefrit

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR