RÚV kynnir vetrardagskrána

RÚV hefur kynnt vetrardagskrána 2017-18. Tvær leiknar þáttaraðir verða á dagskránni og frumsýningum íslenskra bíómynda fjölgar.

Leikið sjónvarpsefni

Í byrjun september hófust sýningar á Loforðum, nýrri leikinni þáttaröð fyrir alla fjölskylduna eftir þá Guðjón Davíð Karlsson og Braga Þór Hinriksson. Alls eru þættirnir í syrpunni fjórir. Að sögn Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra RÚV er stefnt að því að sýna nýja þáttaröð um páskana, en ekki er en unnt að opinbera hvaða verkefni er um að ræða. RÚV fyrirhugaði að sýna þáttaröðina Flateyjargátu um næstu páska en tökum á því verkefni var frestað um ár vegna fjármögnunarmála, líkt og Klapptré greindi frá hér.

Á næsta ári fyrirhugar RÚV að sýna aðra syrpu af Ófærð og auk þess þáttaröðina Víti í Vestmannaeyjum, sem mun segja aðra sögu en bíómyndin. Á Skarphéðni mátti skilja að skortur á fjármögnun hái framleiðslu þáttaraða verulega, en mikil eftirspurn sé eftir slíku efni, bæði á heimamarkaði og erlendis.

Íslenskar bíómyndir

Um jólin verður boðið upp á kvikmyndirnar Hjartastein og Eiðinn. Eftir áramót verða Borgríki 2, Ég man þig og Undir trénu á dagskránni auk úrvals mynda Sólveigar Anspach: Sundáhrifin, Skrapp út og Stormviðri.

Íslenskar heimildamyndir

Meðal heimildamynda á dagskrá í vetur eru Jóhanna-síðasta orrustan, Spólað yfir hafið, Sjóndeildarhringur, Noregsævintýri Húna, I Want to be Weird, The Show of Shows og Garn auk Out of Thin Air sem þegar hefur verið sýnd.

Nýir þættir

Meðal nýrra þátta á vetrardagskrá eru Fjörskyldan þar sem fylgst er með fjölskyldum etja kappi í alls kyns spurningaleikjum og þrautum. Félagarnir Fannar og Benni snúa aftur á skjáinn í september í þættinum Hásetum þar sem fylgst er með ævintýrum þeirra og lífsbaráttu um borð í íslenskum togara. Í október hefur svo göngu sína þáttaröð í umsjá Sigríðar Halldórsdóttur, Ævi, þar sem fjallað er um sjö æviskeið mannsins frá fæðingu til hinstu hvílu. Þá fer nýr fréttaskýringaþáttur, Kveikur, í loftið í október. Egill Helgason og Guðjón Friðriksson birtast með þáttaröðina Kaupmannahöfn þar sem fjallað er um aldirnar þegar Kaupmannahöfn var hinn eiginlegi höfuðstaður Íslands. Í þáttunum er fjallað um fræga Kaupmannahafnar-Íslendinga en líka um marga sem eru lítt þekktir. Sumir lifðu hamingjuríku og farsælu lífi, aðrir dóu fyrir aldur fram eða urðu ógæfunni að bráð. Þættirnir eru byggðir á tveggja binda verki, Kaupmannahöfn höfuðborg Íslands, eftir Guðjón og Jón Þ. Þór. Þá er vert að vekja athygli á dagskrárliðnum Bíóást þar sem sígildar bíómyndir eru sýndar en á undan sýningu hverrar myndar tjáir þartilgerður kvikmyndaunnandi sig um verkið.

Fjölmargir fastir liðir á borð við Kastljós, Kiljuna, Silfrið, Útsvar, Landann og Stundina okkar halda áfram.

Nánar má skoða kynningu RÚV á vetrardagskránni hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR