Viðhorf | Já, það er hið besta mál að filma „Sjálfstætt fólk“

Í nýlegum leiðara Fréttablaðsins veltir Magnús Guðmundsson því upp hvort það sé málið að leggja mikið fé í gerð kvikmyndar og þáttaraðar eftir Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness, miðað við það takmarkaða svigrúm sem Kvikmyndasjóður og RÚV hafa. Á honum má skilja að ýmislegt annað ætti að hafa forgang og þá sérstaklega sögur úr samtímanum.

Þetta eru fínar vangaveltur hjá Magnúsi og gott mál að varpa þessu fram. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að ræða áherslur og forgangsmál varðandi kvikmyndagerð á Íslandi og raunar alltof lítið gert af því.

Þó að ég hafi skilning á sjónarmiði Magnúsar er ég þó ekki alveg sammála. Það er hið besta mál að filma Sjálfstætt fólk og satt best að segja tími til kominn. Um gæði sögunnar er óþarfi að fjölyrða mikið, nema hvað þetta er sagan um okkur, um íslenskt samfélag og hugsunarhátt. Og hún er jafn mikið um samtímann eins og fyrri hluta síðustu aldar. Að auki hefur hún sterka og breiða sammannlega skírskotun.

Of lítið af períódumyndum

Svo er annað. Við gerum of lítið af períódumyndum, fortíðarmyndum. Myndum sem bregða ljósi á sögu okkar, velta því upp hvaðan við komum og þá um leið hver við erum.

Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst peningaskortur. Slík verkefni eru auðvitað sjaldséð í okkar sögu en voru þó tíðari áður fyrr; vel á þriðja tuginn milli 1979 og 1996 þegar Djöflaeyjan eftir Friðrik Þór kom út, um helmingi færri síðan þá þrátt fyrir mikla fjölgun mynda og þáttaraða. Framlög til kvikmyndagerðar hafa vaxið verulega frá aldamótum og sjónvarpsstöðvarnar hafa sett aukið fé í leikið efni, en það hefur fyrst og fremst farið í fjölgun mynda og flestar þeirra hafa samtímann að sögusviði.

Djöflaeyjan kostaði á sínum tíma um 170 milljónir króna. Það eru um 418 milljónir á núvirði. Flestar íslenskar myndir kosta á bilinu 150-250 milljónir þessi árin. Hvíti víkingurinn, hin stóra kristnitökusería (einnig kvikmynd) Hrafns Gunnlaugssonar frá 1991, tekin upp bæði á Íslandi og í Noregi, kostaði um 1,2 milljarða króna á núvirði – um 300 milljónir á þátt. Það er á pari við margar alþjóðlegar þáttaraðir nú um stundir, þó að þær dýrustu fari uppí allt að þúsund til 1.200 milljónir króna á þátt (Game of Thrones, The Crown ofl.). Gert er ráð fyrir að kostnaður við Sjálfstætt fólk (kvikmynd og 6-8 þættir) nemi um einum og hálfum milljarði króna – um 190-250 milljónum á þátt.

Frekar nýsköpun en áframhald?

En talandi um þröngt svigrúm. Það má vel spyrja hvort Kvikmyndasjóður og RÚV ættu ekki fyrst og fremst að styðja við nýsköpun þáttaraða frekar en að gera áframhald af þeim meðan fé er jafn lítið og nú er. Vissulega eru til rök fyrir því að gera meira af tilteknu efni, en þegar litið verður til baka mun verða spurt um fjölbreytni, erindi og að sjálfsögðu menningar- og skemmtigildi frekar en magn tiltekinnar þáttaraðar. Áframhald getur að sjálfsögðu verið hið besta mál, en það er spurning hvort skýrari forgangsröðun þyrfti ekki að koma til.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR