Þráinn Bertelsson varar áhorfendur við

Þráinn Bertelsson hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir sýningar Stöðvar 2 á Líf-myndunum þann 17. júní næstkomandi í óþökk sinni. Hann varar áhorfendur við lélegum gæðum sýningareintaka og biður þá afsökunar.

Yfirlýsing Þráins, sem birtist á vef hans, er svo:

TIL ÞEIRRA SEM MÁLIÐ VARÐAR:

Mér finnst ánægjulegt að sjá að Líf-myndirnar sem ég gerði fyrir um þrem áratugum ásamt með mörgu góðu fólki skuli enn þann dag í dag vera taldar boðlegt dagskrárefni Stöðvar 2 að kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní. Þessar myndir hafa orðið lífseigari og vinsælli heldur en mig nokkurn tímann óraði fyrir og var ég þó með bjartsýnni mönnum á þeim árum sem þær voru gerðar.

Hitt er verra að þessi boðaða sjónvarpssýning er ekki með mínu leyfi og það er skýrt og mjög gróft brot á heiðursrétti höfundar að bjóða almenningi upp á að sjá afrit af 30 ára gömlum og gatslitnum sýningareintökum sem á sínum tíma þurftu að þola rispur og slit á  ferð gegnum flestar kvikmyndasýningavélar í kvikmyndahúsum landsins.

Þetta sem sagt um heiðursréttinn en hvað varðar höfundarrétt og eignarrétt þá leikur enginn vafi á því að það er Nýtt líf ehf og ég sjálfur einvörðungu sem eigum rétt til eintakagerðar af hinum upprunalega filmuorigínölum. Framkoma þess fyrirtækisins Senu h.f. sem seldi hálfri þjóðinni dvd-eintök af þessum myndum gerð eftir fornum bíósýningareintökum sem fyrirtækið komst yfir ásamt fleiri myndum við gjaldþrot mér óviðkomandi aðila í kvikmyndabransanum hefur verið ótrúlega hráslagaleg og batnaði því miður ekki þegar þetta fyrirtæki skipti um kennitölu.

Fjölmiðlum er að sjálfsögðu velkomið að birta þessa tilkynningu og segja frá efni hennar, hins vegar mun ég  ekki  tjá mig frekar um þetta mál að sinni. Höfundarréttarmál og heiðursréttur eru frekar flókin viðfangsefni sem ekki verða útkljáð í fjölmiðlum.Þá sem horfa á þessar myndir mínar í þessari útgáfu bið ég afsökunar á fullkomnum skorti á myndgæðum og vil að áhorfendum sé ljóst að þessar sýningar fara ekki fram í mínu nafni né með mínum vilja, hins vegar þætti mér vænt um ef Kvikmyndastofnun Íslands fengi einhvern tímann áður en það verður um seinan áhuga á því að taka sig til og aðstoða við að bjarga því sem bjargað verður af þessum myndum mínum yfir á rafrænt form með þeirri virðingu sem þessar myndir verðskulda í okkar frekar fátæklegu kvikmyndasögu.

Afsakið þetta ónæði út af nokkrum gömlum bíómyndum – athugið að þessi sýning sem ég ber enga ábyrgð á sýnir ekki aðeins fullkomna fyrirlitningu á höfundarrétti, heiðursrétti og íslenskri kvikmyndagerð heldur einnig á rétti íslenskra áhorfenda til faglegra vinnubragða af hálfu þeirra sem bera þessar myndleifar á borð.

Ég er þakklátur fyrir það langa líf sem þessar myndir hafa þegar notið en harma þessa misnotkun á gömlum upplituðum eintökum sem ekkert erindi eiga fyrir almenningssjónir. Íslensk kvikmyndagerð á betra skilið.

Þráinn Bertelsson

Sjá nánar hér: VIÐVÖRUN OG INNILEG AFSÖKUNARBEIÐNI TIL HUXANLEGRA ÁHORFENDA Í TILEFNI AF AUGLÝSTRI SJÓNVARPSDAGSKRÁ 17. JÚNÍ – Þráinn Bertelsson

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR